Fréttasafn



29. des. 2017 Almennar fréttir

Staðan á vinnumarkaði ræður úrslitum

Í tímaritinu Áramót sem Viðskiptablaðið gefur út segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI að staðan á vinnumarkaði muni skera úr um það hvort ríkisstjórnin geti unnið að framgangi stjórnarsáttmálans eða ekki og missi ríkisstjórnin vinnumarkaðinn frá sér verði efnahagslegum stöðugleika raskað. „Takist hins vegar vel upp gefst næði til að vinna að frekari umbótum í íslensku samfélagi.“

Hér fyrir neðan fara svör Sigurðar við spurningum tímaritsins: 

Hvernig var árið 2017 þegar á heildina er litið? 

Heilt yfir má segja að árið 2017 hafi reynst krefjandi. Árið einkenndist af óstöðugleika á ýmsum sviðum eins og í stjórnmálum, í starfsskilyrðum, á vinnumarkaði, á íbúðamarkaði, í gengi krónu og svo mætti áfram telja. Allt hefur þetta áhrif á íslenskt atvinnulíf og minnir okkur á að samkeppnishæfni landsins verður að verja öllum stundum.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu? 

Það var afar ánægjulegt að sjá stór skref stigin við losun fjármagnshafta eftir að hindrunum hafði verið rutt úr vegi.

Hverjar eru væntingar þínar til næsta árs? 

Stærsta tækifæri Íslands horft fram á veginn er að rækta vörumerkið Ísland og bæta orðspor landsins enn frekar þannig að eftirspurn eftir Íslandi, íslenskum vörum og þjónustu aukist enn frekar með tilheyrandi verðmætasköpun. Vonandi nýtist árið 2018 vel til þessarar uppbyggingar.

Hver eru mikilvægustu verkefni nýrrar ríkisstjórnar? 

Uppbygging og umbætur í íslensku samfélagi sem treysta samkeppnishæfni landsins. Staðan á vinnumarkaði mun skera úr um það hvort ríkisstjórnin geti unnið að framgangi stjórnarsáttmálans eða ekki. Missi ríkisstjórnin vinnumarkaðinn frá sér verður efnahagslegum stöðugleika raskað. Takist hins vegar vel upp gefst næði til að vinna að frekari umbótum í íslensku samfélagi. Innviði landsins þarf að uppfæra þannig að þeir standist þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Grettistaki þarf að lyfta í samgöngumálum þar sem fjármunir hafa svo sannarlega ekki fylgt stóraukinni umferð undanfarinna ár, meðal annars vegna vaxandi fjölda ferðamanna. Gæta þarf þess að öryggi landsmanna verði ekki ógnað. Menntakerfið er ekki eyland og þarf í meira mæli að sinna þörfum samfélagsins. Á vinnumarkaði er mikil þörf á iðn- og verkmenntuðu starfsfólki auk starfsfólks sem býr yfir tækni- og raungreinakunnáttu. Með nýsköpun er hugmyndum breytt í verðmæti. Því er fagnað að ríkisstjórnin hyggist afnema þak á endurgreiðslum af kostnaði við rannsóknir og þróun. Slíkt verður að lögfesta á fyrri hluta nýs árs þannig að starfsumhverfið verði ljóst og fyrirtæki geti gert áætlanir fram í tímann.

Áramót, 2017.