Fréttasafn



17. feb. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Staðan breyst mikið á stuttum tíma

Það eru óveðursský yfir Íslandi í efnahagslegu tilliti og staðan hefur breyst talsvert mikið á stuttum tíma. Landsframleiðsla á mann dróst saman í fyrra og dregst saman í ár miðað við spár. Það er auðvitað slæm staða. Við sjáum að laun hér á landi eru há í alþjóðlegum samanburði heilt yfir og krónan sem hefur verið sveiflujafnari í hagkerfinu hingað til og leiðrétt samkeppnisstöðuna þegar hagkerfið hefur kólnað eins og núna, hún hefur verið stöðug þannig að áhrifin koma frekar fram í gegnum vinnumarkaðinn. Þetta kemur meðal annars fram í máli Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali hjá Heimi Má Péturssyni í Víglínunni á Stöð 2 í gær. 

Sigurður segir að ný útlán bankakerfisins séu að dragast hratt saman. „Það eru ný útlán en vöxturinn er engann veginn sá sami og hann var. Á sama tíma og auðvitað þarf að gefa aðeins í og Seðlabankinn lækkar vexti til að örva eftirspurn þá virðast bankarnir ekki vera að fylgja því eftir. Það er meðal annars vegna þess að Seðlabankinn er með hægri fótinn á bensíngjöfinni með því að lækka stýrivextina en vinstri fótinn á bremsunni, þá er ég að vísa í eiginfjáraukana.“ Hann segir auk þess opinber gjöld vera há. „Þegar við tökum þetta allt saman þá sjáum við að það eru óveðursský yfir hagkerfinu.“

Seðlabankinn taki fótinn af bremsunni og komi súrefni inn í fyrirtækin

Sigurður segir lausnina auðvitað margþætta en það séu kannski fjögur atriði sem hann vilji nefna sérstaklega þegar horft sé á stöðuna núna. Hann segir Samtök iðnaðarins hafi gefið út skýrslu 2018 um atvinnustefnu sem er heildstæð nálgun á það hvernig megi bæta samkeppnishæfnina. „Númer eitt er fjárfesting í innviðum. Það þarf að stórauka hana, það er bæði nauðsynlegt því innviðirnir eru ekki eins góðir og þeir ættu að vera en það er líka skynsamlegt í hagstjórnarlegu tilliti að ráðast í það núna. Það verður að fara í það strax. Það er ekki hægt að bíða mikið með það. Númer tvö þá eru það opinberu gjöldin. Þar mundi maður vilja sjá bæði fasteignagjöldin og tryggingagjaldið lækka við núverandi aðstæður. Fasteignagjöldin hafa líka hækkað alveg gríðarlega á síðustu árum sem er á vegum sveitarfélaganna. Í þriðja lagi þá eru það umbætur varðandi fjármálakerfið eins og ég nefndi áðan, eiginfjáraukarnir. Þar þarf Seðlabankinn að taka fótinn af bremsunni og koma súrefni inn í fyrirtækin. Í fjórða lagi er það samkeppnishæfnin. Þar vil ég tala um einföldun regluverks og gjaldtökuna, númer tvö er það menntakerfið því það sem við sjáum eru ákveðnir veikleikar, annars vegar er varðar starfsnámið. Það vantar miklu fleiri starfsmenntaða á vinnumarkaðinn og til dæmis eins og í atvinnuleysistölunum þar er háskólamenntuðum að fjölga á atvinnuleysisskrá og hins vegar eru það svokölluð STEM-fög, sem sagt verkfræði, tæknigreinar og raunvísindagreinar. Auðvitað mundum við vilja sjá að það yrði ný stoð þar sem nýsköpun myndi byggja undir á þriðja áratug þessarar aldar, rétt eins og fjármálakerfið dregur vöxtinn á fyrsta áratugnum og ferðaþjónustan á öðrum. Þannig að núna verður vonandi áratugur nýsköpunar og þess vegna hafa Samtök iðnaðarins til dæmis ákveðið að þetta sé ár nýsköpunar í okkar starfi.“

Í niðurlagi þáttarins þegar Heimur Már spyr hvort hægt sé að vinna sig út úr stöðunni segir Sigurður að það sé algjörlega í okkar höndum. „Ef við gerum ekkert þá er ég ekki bjartsýnn en ef það verður gripið til aðgerða núna þá er ég mjög bjartsýnn.“

Á vef Vísis  er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni. 

Viglinan2

Viglinan1