Stærsta efnahagsmálið að sækja tækifærin í iðnaði
Ef horft er fram á veginn eru vaxtartækifærin í iðnaði gríðarlega mikil sem mun skila mikilli aukningu útflutnings og aukinni fjárfestingu eða framkvæmdum á næstu árum. Stærsta efnahagsmálið um þessar mundir er að sækja þessi tækifæri. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í ávarpi á Iðnþingi SI sem fram fór í Silfurbergi í Hörpu fyrir fullum sal af fólki og í beinni útsendingu.
Sigurður sagði að útflutningur og utanríkisviðskipti leggi grunninn að lífskjörum landsmanna. Einhæfni á því sviði skapi sveiflur og því sé til mikils að vinna að fjölga stoðunum.
Hann sagði það hafa verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim 47 þúsund stjórnendum og starfsmönnum iðnfyrirtækja sem með þrautseigju og áræðni hafi náð að halda úti starfsemi og skapi verðmæti við mjög erfiðar aðstæður. Árið 2022 hafi verið metár í útflutningi þar sem iðnaður var stærsta útflutningsgreinin.
„Það var hugsunin upp úr 1960 þegar tækifæri þess tíma voru sótt með virkjun fallvatna og stofnun álversins í Straumsvík. Álverið var stór kaupandi raforkunnar sem gerði uppbygginguna hagkvæma. Þannig varð ný stoð til með og útflutningur fjölbreyttari.
Skoðum forsíðu Morgunblaðsins þann 26. maí 1961. Þar er því slegið upp að áhugi sé á álframleiðslu á Íslandi. Á sömu forsíðu er einnig önnur frétt sem markaði upphafið að miklu ævintýri – tunglför Kennedy‘s var boðuð í ávarpi forsetans þáverandi í bandaríska þinginu daginn áður.
Átta árum síðar eða 10. júlí árið 1969 birtust svo tvær fréttir á forsíðu Morgunblaðsins. Annars vegar var mynd af fyrsta álfarminum sem beið útflutnings. Hins vegar að lokaprófanir á Apollo farinu hefðu tekist vel. Í sama mánuði árið 1969 urðu þessi tvö markmið þannig að veruleika. Álframleiðsla hófst á Íslandi og hinu fjarlæga markmiði um tunglförina var náð. Meðgöngutími þessara tveggja stóru verkefna var því nokkurn veginn sá sami.
Rétt eins og þau sem komu á undan okkur settu háleit markmið og sóttu tækifæri síns tíma þá þurfum við að sækja tækifæri okkar tíma. Útflutningsstoðirnar eru nú fjölbreyttari en áður. Hugverkaiðnaður hefur fest sig í sessi sem fjórða stoð útflutnings til viðbótar við orkusækinn iðnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu. Það leggur grunninn að auknum stöðugleika. Hugverkaiðnaður hefur alla burði til þess að verða verðmætasta útflutningsstoðin áður en áratugurinn er á enda, ef rétt er á málum haldið. Auðlindin í hugverkaiðnaði er mannauður og nýsköpun sem byggir á hugviti.
Lyf, tölvuleikir, upplýsingatækni, hátækniiðnaður og líftækniiðnaður eru dæmi um fjölbreyttan hugverkaiðnað.“
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Hér er hægt að nálgast upptöku af ávarpi Sigurðar og samtali hans við Róbert Wessman, stofnanda, forstjóra og stjórnarformann Alvotech :
https://vimeo.com/manage/videos/806726679