Fréttasafn



6. maí 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Stærsta efnahagsmálið er frekari vöxtur hugverkaiðnaðar

Umbætur stjórnvalda undanfarinn áratug í þágu nýsköpunar, þar sem stærstu skrefin voru stigin árið 2020 sem og hugmyndaauðgi og drifkraftur frumkvöðla hefur gert það að verkum að hugverkaiðnaður er nú ein af útflutningsstoðum íslensks hagkerfis. Fjórða stoðin – hugverkaiðnaður – hefur þannig fest sig í sessi sem raunveruleg stoð til viðbótar við sjávarútveg, orkusækinn iðnað og ferðaþjónustu. Hugverkaiðnaður skapaði 16% útflutningstekna á síðasta ári. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI og formanns Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, á ársfundi sjóðsins sem fram fór í morgun. 

Hann sagði stærsta efnahagsmálið vera að stuðla að frekari vexti hugverkaiðnaðar þannig að hann verði öflugasta útflutningsstoðin. „Fjárfesting í rannsóknum og þróun (R&Þ) er einn besti mælikvarðinn á fjárfestingu í nýsköpun. Mörg ríki hafa sett sér það markmið að fjárfesting í R&Þ nemi 3% af vergri landsframleiðslu. Nýjustu tölur eru fyrir árið 2019 en það var metár á Íslandi hvað þetta varðar þegar fjárfesting í R&Þ nam 2,35% af landsframleiðslu eða um 70 milljörðum króna. Hafa ber í huga að um 70% þessarar fjárfestingar er á vegum einkaaðila og um 30% á vegum hins opinbera. Útlit er fyrir að fjárfesting í nýsköpun hafi aukist verulega árið 2020 þannig að 3% markinu gæti verið náð, þökk sé drifkrafti frumkvöðla og aðgerðum stjórnvalda. Það kemur í ljós að ári liðnu. Þetta minnir okkur á að hugvitið er kraftur sem engin takmörk eru sett og helstu vaxtarmöguleikar íslensks efnahagslífs liggja þar.“

Stjórnvöld eiga hrós skilið

Sigurður sagði orð og aðgerðir stjórnvalda sannarlega hafa áhrif. „Stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir að hafa tekið góðar ákvarðanir og hrint þeim í framkvæmd, ákvarðanir sem hafa losað krafta úr læðingi sem munu bæta lífskjör okkar næstu áratugi ef haldið er áfram á sömu braut. Aðgerðir stjórnvalda í þágu nýsköpunar eru einhverjar mikilvægustu aðgerðirnar sem ráðist var í vegna heimsfaraldurs kórónuveiru enda hafa þær þegar gert fyrirtækjum kleift að skapa ný, eftirsótt störf og þau munu skapa aukin verðmæti á næstu árum.“

Fjölgun vísisjóða fagnaðarefni

Þá sagði Sigurður í ávarpi sínu að fjölgun vísisjóða væri fagnaðarefni og styðji það að þriðji áratugur aldarinnar geti orðið áratugur nýsköpunar og hugverkaiðnaðar. „Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur sannarlega mikilvægu hlutverki að gegna. Sjóðurinn er sá eini sem er sígrænn og leitar því alltaf fjárfestingarkosta. Hann hefur því staðið vaktina í nærri aldarfjórðung og stutt við nýsköpunarsprota sem margir hafa orðið að myndarlegum fyrirtækjum, með fjölda starfsmanna og útflutningstekjur. Þá hefur sjóðurinn fjárfest í félögum snemma á þeirra ferli, jafnvel fyrr en aðrir sjóðir hafa gert almennt séð. Afkoma sjóðsins var góð árið 2020 og hefur raunar verið jákvæð undanfarin þrjú ár. Sjóðurinn tók að sér ný verkefni á árinu 2020 tengd þeim markmiðum ráðherra að auka styðja við nýsköpun og efla umhverfi vísisjóða á Íslandi. Þannig kom Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins að veitingu mótframlagslána í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru og annast innheimtu lánanna. Ríkissjóður jók stofnfé sjóðsins um 700 milljónir króna vegna mótframlagslána. Þá hefur NSA verið falin umsýsla með Kríu sem er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins sem hefur það hlutverk að taka þátt í stofnun sérhæfðra sjóða sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og stuðla þannig að aukinni fjárfestingu í nýsköpun.“

Hann sagði stofnun Kríu jákvætt skref og verði auglýst eftir umsóknum um fjármuni síðar á þessu ári. „Þó Kría hafi enn ekki tekið á móti umsóknum þá er útlit fyrir að fimm vísisjóðir hefji starfsemi á þessu ári með nálægt 40 milljarða króna fjárfestingagetu. Þetta sýnir glöggt hvernig skilaboð stjórnvalda geta haft áhrif á ákvarðanatöku einstaklinga og fyrirtækja, í þessu tilviki vilji ráðherra til aukinna fjárfestinga í nýsköpun og til þess að efla rekstrarumhverfi vísisjóða á Íslandi sem varð til þess að Kría varð að veruleika.“