Fréttasafn29. sep. 2016 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Sterk króna þýðir töpuð tækifæri

Á einu ári hefur krónan styrkst gagnvart evru um meira en 10% og yfir 20% síðustu þrjú árin. Líklega er stærsta ástæða lágrar verðbólgu hér á landi, og þar með mikillar kaupmáttaraukningar, styrking krónunnar. En eins og landsmönnum virðist almennt líða vel þegar krónan er sterk getur þessi þróun haft alvarleg áhrif á stóran hluta atvinnulífsins. Hægt og bítandi dregur úr samkeppnishæfni útflutnings- og samkeppnisgreina hér á landi. Þannig tapast tækifæri og grundvöllur verðmætasköpunar til lengri tíma veikist. Um þetta er allt of lítið rætt í efnahagsumræðu á Íslandi.

Síðustu ár hafa einkennst af kröftugum hagvexti sem einkum hefur verið drifinn áfram af útflutningi og fjölgun ferðamanna. Kaupmáttur landsmanna hefur vaxið mikið samhliða háum launahækkunum og lágri verðbólgu. Atvinnuleysi er með minnsta móti og umtalsverður vöxtur er í fjölgun starfa. Efnahagslífið er í miklum blóma og árangur síðustu ára eftirtektarverður. Ein birtingarmynd þessar efnahagsþróunar er að gengi krónunnar styrkist jafnt og þétt. Krónan er enn í skjóli hafta, ferðamenn flæða til landsins, vextir eru háir og efnahagsástandið í helstu viðskiptalöndum okkar frekar bágborið miðað við hér á landi auk þess sem vextir erlendis eru í lágmarki. Allt ýtir þetta undir styrkingu krónunnar.

Innlendir framleiðendur sem keppa við innfluttar afurðir búa við verri samkeppnisstöðu en áður. Styrkur krónunnar leiðir auðvitað líka til þess að gjaldeyristekjur vegna útflutnings fara minnkandi og skilyrði fyrir nýsköpun og þróun versnar. Fyrir þekkingariðnaðinn þýðir þetta á mannamáli að fyrirtæki fá færri krónur fyrir útflutninginn og launakostnaður er mun hærri en hjá samkeppnisaðilum erlendis. Við þessar aðstæður tapast viðskipti og fyrirtæki leitast við að færa starfsemi eða störf til svæða þar sem aðstæður eru hagfelldari. Auðvitað er gengið aðeins einn af þeim þáttum sem hafa áhrif en það er dýrkeypt að snögg styrking gjaldmiðilsins vinni svona gegn jákvæðri uppbyggingu undanfarinna ára.

Mikilvægt að afnema höftin að fullu

Senn hyllir undir að víðtæk fjármagnshöft verði afnumin í skrefum. Fyrsta skrefið verður tekið strax og nýtt frumvarp verður samþykkt en þá verður heimil bein erlend fjárfesting innlendra aðila. Þetta skref er afar mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf sem þarf nauðsynlega á því að halda að geta óhindrað starfað á alþjóðlegum markaði og útfært sína starfsemi.  Annað skrefið á að taka gildi um áramót en þá verður innistæðuflutningur heimilaður með fjárhæðartakmörkunum.  Þriðja og mikilvægasta skrefið felur í sér fulla losun á fjármagnshöftum. Þetta skref er ekki tímasett. Það skýtur skökku við í ljósi aðstæðna. Ein rökin fyrir því að höftin voru sett á sínum tíma var að verja gengi krónunnar fyrir miklu gengisfalli. Ljóst er að skilyrði fyrir losun hafta eru góð og raunar má fullyrða að styrkur gengis krónunnar um þessar mundir sé farin að hafa veruleg neikvæð áhrif á rekstur útflutnings- og samkeppnisfyrirtækja. Bæði hefur nafngengi krónunnar hækkað auk þess sem laun vaxa mun hraðar hér á landi en í samkeppnislöndum okkar. Í því ljósi væri veiking á gengi krónunnar vel til þess fallin að bæta samkeppnishæfni Íslands og styðja við vöxt efnahagslífsins til lengri tíma litið.

Er okkur sama um töpuð tækifæri?

Það er í sjálfu sér ekkert hlutverk í hagstjórninni sem gengur beinlínis út á að beisla gengi krónunnar á einhvern hátt. Það er þó nokkuð augljóst að afnám hafta skiptir hér miklu máli og háir vextir ýta Seðlabankans klárlega undir styrkingu. Markmið peningastefnunnar um stöðugt verðlag er svo sannarlega mikilvægt en ef hliðaráhrif þess skapa gott skjól fyrir erlent skammtímafjármagn með tilheyrandi gengishækkun og draga þannig úr tækifærum okkar til að skapa fjölbreyttara atvinnulíf og verðmætari störf þá hljótum við að spyrja spurninga. Það ættu allir að geta verið sammála um að á Íslandi er ekki aðalmálið að erlent fjármagn leiti í háa vexti. Það er mikilvægara að allur útflutningur styrkist og ekki síst iðnaður og starfsemi sem byggist á þekkingu og hefur blómstrað síðustu ár. Það þarf að hindra eins og hægt er að gengisþróun ryðji árangri síðustu ára úr vegi. Þá vakt þarf að standa af festu.

Viðskiptablaðið, 29. september 2016.