Sterk samningsstaða með hærri laun og efnahagslega velmegun
„Á meðan við erum að bjóða hærri laun og meiri efnahagslega velmegun en löndin í kringum okkur þá höfum við sterka samningsstöðu hvað þetta varðar. Þetta hefur nýst okkur vel undanfarið þar sem hagvöxturinn hefur verið hraður og vinnuaflsþörf hans hefur verið mætt að stórum hluta með erlendu vinnuafli. Iðnaðurinn, og ekki síst hugverkaiðnaður og byggingariðnaður, hafa þannig ráðið til sín mikinn fjölda af erlendum starfsmönnum undanfarin ár. Hið sama má segja um ferðaþjónustuna,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í frétt Morgunblaðsins. Ingólfur segir viðbúið að fleiri muni flytja hingað frá Evrópu en í hina áttina á meðan hér bjóðist betri lífskjör en í heimalandinu en að þetta geti hæglega snúist við í niðursveiflu og tekur dæmi af efnahagsáfallinu haustið 2008 en þá hafi nokkur hópur erlendra ríkisborgara flutt af landi brott og töluvert margir íslenskir ríkisborgarar, sem margir hverjir fluttu til Danmerkur og Noregs. „Þá snerust lífskjörin við. Atvinnuleysið jókst og raungengi krónunnar lækkaði þannig að laun voru orðin miklu lægri en þau voru áður miðað við löndin í kringum okkur. Hins vegar hefur þróunin verið hagfelld síðustu ár og erum við nú í mjög góðri stöðu.“
Þegar hægir á hagvextinum dregur úr aðflutningi vinnuafls
Þegar Ingólfur er spurður hvaða áhrif það muni hafa á aðflutning erlends vinnuafls að hægt hafi á hagvexti á Íslandi segir Ingólfur að annars vegar hægi á vexti starfa og atvinnuleysi aukist þegar hægir á hagvextinum og það dragi úr aðflutningi vinnuafls og hins vegar sé landsframleiðsla á mann og innlend laun eftir sem áður há í erlendum samanburði og samkeppnisstaða okkar um erlent vinnuafl áfram góð. Ekki nema nafngengi krónu fari að gefa eitthvað eftir, sem ekki sé hægt að fullyrða að muni gerast.
Aðflutningur sjálfstæður aflvaki hagvaxtar
Þegar Ingólfur er spurður um það sjónarmið að aðflutningur erlends vinnuafls sé sjálfstæður aflvaki hagvaxtar segir hann að mörgu að hyggja í því efni. „Varðandi þá spurningu þína þá er það rétt vegna þess að það þarf að byggja fyrir það fólk íbúðir og aðra innviði. Það þarf líka að þjónusta þá íbúa líkt og aðra. Iðnaðurinn er í þessum verkum að stórum hluta og þá sérstaklega byggingariðnaður og mannvirkjagerð. Hins vegar eru ruðningsáhrif slíks vaxtar líka til staðar sem vinna í hina áttina, þ.e. þetta hækkar raungengi krónunnar og dregur þannig úr markaðshlutdeild einhverra þeirra innlendu fyrirtækja sem eru að keppa við erlend. Því verða greinar með lægri framleiðni undir og þær sem eru með hærri framleiðni lifa af.“
Morgunblaðið, 22. júní 2024.