Fréttasafn17. jan. 2018 Almennar fréttir

Sterkt orðspor skapar verðmæti

Orðspor þjóða hefur mikil áhrif á efnahag þeirra. Jákvætt orðspor getur aukið áhuga ferðafólks á að heimsækja land, ýtt undir eftirspurn eftir vörum, þekkingu og þjónustu, hvatt til áhuga hæfileikafólks á  búsetu og starfa og eflt áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta. Sterkt orðspor skapar verðmæt störf, ekki síst ef mikil fagþekking í framleiðsluiðnaði er líka til staðar. Við þær aðstæður verður víxlverkun í efnahagskerfinu, sem eykur verðmætasköpun og hagsæld enn frekar. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í erindi sínu á fundi Íslandsstofu sem áformar Inspired by Iceland markaðsherferð í tengslum við þátttöku Íslands í heimsmeistaramótinu í Rússlandi undir nafninu #TeamIceland. Markmiðið er að kynna Ísland sem ferðamannastað en einnig þær vörur og þjónustu sem frá landinu koma. 

Framleiðendur geta notið góðs af orðspori landa sinna

Sigurður kom inn á þá staðreynd að í sumum löndum njóta framleiðendur góðs af heimalandinu í verðlagningu og tók sem dæmi að svissnesk úr eru dýrari en önnur og þýskir bílar eru dýrari en sambærilegir bílar frá öðrum löndum. Þannig getur gott orðspor landa aukið verðmæti vara sem frá landinu koma. 

Hann sagði að þrátt fyrir smæðina þá sé vörumerkið Ísland nokkuð þekkt víða erlendis. „Íslenskt markaðsfólk hefur staðið sig vel náttúra landsins hefur stutt við markaðsstarfið með því að minna reglulega á sig, íslenskt íþróttafólk hefur fangað athygli heimsins og listamenn náð ótrúlegum árangri.“ Sigurður sagði að þessir „sendiherrar“ Íslands beri hróður landsins víða um heim og að erlendar vörumerkjarannsóknir bendi til þess að Björk sé eitt mikilvægasta vörumerki Íslands, tákngervingur um dulúðina og töfrana sem mótað hafa þjóðina í þúsund ár.

Islandstofa-fundur3-16012018

Fjölgum sendiherrum Íslands

Sigurður hvatti til þess að sendiherrum Íslands verði fjölgað. „Framleiðsla og þekking sem byggir á sérstöðu og gæðum getur svo sannarlega verið slíkur sendiherra og stuðlað að góðu orðspori þjóðar, sérstaklega ef mörkun og markaðssetning er markviss og hagsmunir ólíkra atvinnugreina eru fléttaðir saman á skipulegan hátt.“

Hann nefndi fjölmörg dæmi þess að á Íslandi búi skapandi fólk í skapandi umhverfi og að Ísland sé uppspretta innblásturs til góðra verka í leik og starfi. „Þannig er íslenskur framleiðsluiðnaður og íslenskt hugvit líka - innblásið af náttúrulegum og menningarsögulegum andstæðum. Eldi og ís, þúsund ára fátækt og síðari tíma velsæld, plúsum og mínusum sem mætast og leysa úr læðingi ómældan sköpunarkraft.“

Sigurður sagði að slíkt geti svo sannarlega verið grundvöllur að aukinni eftirspurn eftir íslenskum vörum og þekkingu, iðnaðarvörum, ferðaþjónustu og sjávarafurðum með tilheyrandi álagningu á mörkuðum heimsins, til hagsbóta fyrir þjóðina alla. 

Ólíkir hagsmunaaðilar komi saman og rækti betur vörumerkið Ísland

Í lokaorðum Sigurður kom fram að það væri jákvætt skref og þakkarvert að verkefnið Inspired by Iceland skuli nýtt til að kynna það sem Ísland og Íslendingar hafa upp á að bjóða til að auka eftirspurn eftir því. „Ég fagna því svo sannarlega að ólíkir hagsmunaðilar komi saman og nýti þennan frjóa jarðveg til að rækta betur vörumerkið Ísland.“

Islandsstofa-fundur2-16012018

Orðspor þjóðar hefur mikil áhrif á efnahag þeirra

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag er vitnað til orða Sigurðar þar sem segir að orðspor þjóða hafi mikil áhrif á efnahag þeirra. „Jákvætt orðspor getur aukið áhuga ferðafólks á að heimsækja landið, ýtt undir eftirspurn eftir vöru, þekkingu og þjónustu, hvatt til áhuga hæfileikafólks til búsetu og starfa og eflt áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta.“ Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur jafnframt fram að Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, hafi sagt okkur hafa verið „tekin í bólinu“ þegar íslenska knattspyrnuliðið tók þátt í EM í Frakklandi árið 2016 og það var ekki nýtt í markaðslegum tilgangi. „Nú ætlum við að gera betur í þessu efni fyrir íslensk fyrirtæki. Tækifærin eru óendanleg,“ er haft eftir Grími.