Fréttasafn26. nóv. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Stjórnendur móti uppbyggilega vinnustaðamenningu

Á rafrænum fræðslufundi Málms sem fór fram í vikunni var fjallað um öryggi og menningu á vinnustað. Hildur Ólafsdóttir, mannauðsstjóri Marels á Íslandi, og Þorgeir Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda og framkvæmdastjóri Directive Games, héldu erindi. 

Hildur-Arnars-Olafsdottir-002-Hildur fjallaði um mannauðsstefnu Marels og hvaða aðferðir fyrirtækið hefur stuðst við undanfarið til þess að auka og viðhalda þekkingu stjórnenda og starfsfólks á öruggu vinnuumhverfi og stuðla að jákvæðum samskiptum á vinnustað. Hildur sagði meðal annars að Marel hafi innleitt EKKO (einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi) verkferla sem tryggja rétt viðbrögð komi upp atvik á vinnustað. Hún sagði ábyrgðina liggja hjá stjórnendum fyrirtækja að móta uppbyggilega vinnustaðamenningu, öruggt starfsumhverfi og vera fyrirmynd þegar kemur að samskiptum. 

  

Si_ccp_16092021_b-1_1637924345856Erindi Þorgeirs fjallaði um ávinning góðrar vinnustaðamenningar.  Hann fór yfir sáttmála um örugga vinnustaði sem Samtök leikaframleiðenda, Rafíþróttasamtaka Íslands og Game Makers Iceland undirrituðu á þessu ári. Hann sagði sáttmálann vera tækifæri fyrir fyrirtæki að gera betur í því að skapa öruggt vinnuumhverfi fyrir alla óháð kyni, uppruna, trúarbrögðum og þjóðerni.  

 

Lilja Björk Guðmundsdóttir, viðskiptastjóri Málms á iðnaðar- og hugverkasviði SI, greindi frá því að slíkur sáttmáli væri innblástur og tækifæri fyrir aðila Málms. Mörg fyrirtækjanna væru þegar komin með verkferla um samskipti á vinnustöðum en sambærilegur sáttmáli gæti auðveldað þeim sem ekki hafa hafið þá vegferð. Hún sagði markmið Málms vera að fjölga starfsfólki í málmgreinum og með því að setja sér stefnu um öryggi á vinnustað stuðli fyrirtækin að jákvæðri vinnustaðamenningu og bættum samskiptum allra aðila. Þetta skili sér í aukinni ásýnd trausts og trúverðugleika, ánægðara starfsfólki og aukinni samkeppnishæfni.