Fréttasafn



6. maí 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Stjórnvöld beiti skattahvötum til að örva nýsköpun

Nýsköpun er ein meginforsenda framleiðniaukningar, verðmætasköpunar, samkeppnishæfni og gjaldeyrisöflunar fyrirtækja og þjóða. Markmiðið með nýsköpunarstefnu og aðgerðum í málaflokknum er að efla þjóðarbúið í harðri alþjóðlegri samkeppni um störf og verðmætasköpun. Sýn og stefna í nýsköpun er þannig ein af meginstoðum öflugrar atvinnustefnu. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í grein sem ber yfirskriftina Hlutverk hins opinbera við eflingu nýsköpunar sem birt er í vorhefti Þjóðmála.

Í greininni segir Sigríður það vera fagnaðarefni að fram sé komin nýsköpunarstefna fyrir Ísland. Titill stefnunnar sé „Nýsköpunarlandið Ísland“, en stefnunni sé ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Hún segir stjórnvöld búa yfir ýmsum tækjum og tólum til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í atvinnulífinu. Fjárfesting í nýsköpun sé ekki undanskilin. Aðgerðir stjórnvalda til að hvetja til nýsköpunar þurfi að vera markvissar og færa megi rök fyrir því að áhrifaríkast sé að hafa áhrif á hegðun og ákvarðanatöku fyrirtækja en að stjórnvöld eigi síður að reka stórar stofnanir tileinkaðar ákveðnum markmiðum.

Sigríður segir nýsköpun verða í atvinnulífi. Stjórnvöld geti stutt við nýsköpun með því að beita útfærslum í skattkerfinu, með því að hafa áhrif á hugarfar og orðræðu, með því að stíga inn þar sem markaðsbrestur er til staðar, svo sem skortur á fjármagni, og með því að tryggja að stefnur gangi í takti. Dæmi um þetta sé innkaupastefna hins opinbera en hún ætti að vera mun sveigjanlegri og samræmast markmiðum um að efla nýsköpun. Í greininni fjallar Sigríður sérstaklega um eitt þessara hlutverka, beitingu skattahvata til að örva nýsköpun. Hún fer yfir skattafrádrátt rannsókna- og þróunarverkefna, hvata til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum, skattaívilnanir fyrir erlenda sérfræðinga og verndun og skráningu hugverka. 

Á vef Þjóðmála er hægt að lesa greinina í heild sinni.