Stjórnvöld dragi úr spennu á vinnumarkaði
Í umfjöllun Innherja með yfirskriftinni Tvö af hverjum þremur nýjum störfum síðasta árið orðið til hjá hinu opinbera er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir meðal annars að stjórnvöld hljóti að leita allra leiða til að draga úr spennu á vinnumarkaði, sem hafi átt sinn þátt í að viðhalda þrálátri verðbólgu, með því að horfa þar til eigin umsvifa. En frá miðju síðasta ári hafi um tvö af hverjum þremur nýjum störfum sem bættust við íslenskan vinnumarkað orðið til hjá hinu opinbera á meðan vísbendingar eru um að það dragi á sama tíma talsvert úr fjölgun starfa í einkageiranum.
Stjórnvöld hljóti að leita leiða til að minnka spennu á vinnumarkaði
Sigurður segir í samtali við Innherja að þessi þróun sé afar áhugaverð með hliðsjón af áframhaldandi þenslu á vinnumarkaði sem stjórnendur Seðlabankans vísuðu meðal annars til í liðinni viku þegar vextir héldust óbreyttir í 9,25%. Nú þegar það sé farið að draga hratt úr fjölgun starfa í einkageiranum sé annað uppi á teningnum hjá hinu opinbera. Þar sé vöxturinn áfram óbreyttur og þannig sé verið að viðhalda þeirri spennu á vinnumarkaði sem hefur réttilega verið sögð hluti af verðbólguvandanum. „Þó hluti þeirra starfa sem hafa bæst við hjá ríki og sveitarfélögum felist í mikilvægri grunnþjónustu er ljóst að svo er ekki að öllu leyti. Hið opinbera þyrfti því að huga að sínu eigin hlutverki þegar kemur að þenslu á vinnumarkaði.“ Sigurður bætir við að stjórnvöld hljóti þannig að leita leiða til að minnka spennu á þeim markaði með því að horfa þar til mikilla umsvifa sinna. „Það snýr bæði að fjölda starfsmanna en einnig að kjörum. Hið opinbera er á sumum sviðum leiðandi í launaþróun sem getur ekki gengið til lengdar.“
Skortur á íbúðum stór hluti af verðbólguvandanum
Í umfjöllun Innherja kemur einnig fram að Sigurður bendi á að það hafi verið samdráttur í uppbyggingu fasteigna sem sé afar slæmt nú þegar skortur á íbúðum sé stór hluti af verðbólguvandanum – og um leið ástæða hárra vaxta. Verðbólgan sé meðal annars drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði – í júlí síðastliðnum var árstaktur hækkunarinnar um 11% – en hún mælist núna 6,3%, en án húsnæðis 4,2%. Einnig kemur fram að Sigurður segir að það standist ekki skoðun þegar vísað sé til mikils vaxtar í byggingargeiranum, sem eigi meðal annars að vera valdur að spennu á vinnumarkaði. Sigurður segir jafnframt að hraða þurfi uppbyggingu íbúða og þar verði stjórnvöld að horfa til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Breyta þurfi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og skoða þarf tilfærslu vaxtarmarka. „Forsendur skipulagsins hafa brostið, íbúum hefur fjölgað mun meira en spáð var og því verður að endurskoða það.“
Hér er hægt að nálgast umfjöllun Innherja í heild sinni.
Innherji, 27. ágúst 2024.