Fréttasafn



28. jan. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Stjórnvöld grípi strax til breytinga á raforkulögum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í Markaðnum að nauðsynlegt sé að breyta raforkulögum hið fyrsta svo hagsmuna notenda sé betur gætt en flutningskostnaður sem dreifiveitur raforku þurfa að greiða Landsneti hækkaði um tæplega þriðjung á föstu verðlagi á árunum 2011 til 2019. Hækkandi rekstrarkostnaður vegna dreifingu raforku hækkar tekjumörk dreifiveitna og þar af leiðandi verð til neytenda. Í umfjöllun Þórðar Gunnarssonar, blaðamanns, í Markaðnum segir að þetta komi fram í nýrri skýrslu Analytica um forsendur tekjumarka og gjaldtöku innlendra dreifiveitna á raforku sem unnin er að beiðni Samtaka iðnaðarins. 

Nauðsynlegt að breyta sérleyfisstarfsemi

„Mikilvægt er að stjórnvöld grípi strax til breytinga á raforkulögum, til þess að rétta af þann halla á samkeppnishæfni Íslands á sviði raforkumála sem núverandi meinbugir á sviði tekjumarka og gjaldtöku sérleyfisfyrirtækja er að valda, en af nýlegum skýrslum og úttektum er ljóst að sérleyfisstarfsemi er sá þáttur virðiskeðju raforku sem nauðsynlegt er að breyta,“ segir Sigurður í umfjöllun Markaðarins. Hann segir jafnframt að óbreytt fyrirkomulag feli í sér að gjaldtaka þessara fyrirtækja sé hærri en raunveruleg efni standa til, jafnt til heimila sem og atvinnulífs og bendir á að núverandi fyrirkomulag sé eingöngu til þess fallið að þjóna hagsmunum sérleyfisfyrirtækja sem annast flutning og dreifingu raforku á kostnað notenda: „Á síðastliðnum árum hefur lækkandi vaxtastig í landinu ekki endurspeglast með þeim hætti sem er eðlilegt í verðskrá fyrirtækjanna sem annast rekstur raforkuinnviða landsins. Þannig dregur skýrsla Analytica fram og styður við þá skoðun Samtaka iðnaðarins að það óhagræði sem núverandi fyrirkomulag felur í sér hvað varðar breytingar á forsendum tekjumarka er notendum í óhag. Það lýsir sér með þeim hætti að þegar vextir hækka, en tíu ára meðaltalið lækkar, þá mun forsendum verða breytt hvort eð er og þá ávallt sérleyfisfyrirtækjunum í hag á kostnað hagsmuna notenda. Því er ljóst að forsendur og fyrirkomulag núverandi kerfis þjóni ávallt hagsmunum sérleyfisfyrirtækja og því þarf að breyta.“

Arðsemi eigin fjár Landsnets yfir 20%

Í umfjöllun Markaðarins kemur fram að tekjumörk Landsnets séu ákvörðuð með lögum og að Landsneti hafi verið legið á hálsi að njóta meiri arðsemi af starfsemi sinni en ætla mætti hjá opinberu fyrirtæki í sérleyfisstarfsemi, en dæmi séu um að arðsemi eigin fjár fyrirtækisins hafi verið yfir 20% á undanförnum árum. Rekstur dreifiveitna á borð við RARIK, Veitur og HS Veitur sé að ákveðnu leyti sambærilegur við Landsnet, með tilliti til þess að tekjumörk þeirra ráðist af rekstrarkostnaði, þegar rekstrarkostnaður dreifiveitna hækki, þá hækki tekjumörk þeirra í kjölfarið og þar af leiðandi heimildir til verðhækkana. 

Þá kemur fram í Markaðnum að ráðgjafarfyrirtækið Deloitte vinni nú að greiningu um leyfða arðsemi, fjármagnskostnað og rekstrarkostnað sérleyfisfyrirtækja á raforkumarkaði. Skýrslan sé unnin að beiðni iðnaðarráðuneytisins, en tilkynnt hafi verið um skýrslugerðina sama dag og skýrsla þýska fyrirtækisins Fraunhofer um samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar hafi verið birt.

Markaðurinn, 27. janúar 2021.