Fréttasafn



15. sep. 2020 Almennar fréttir

Stjórnvöld hætti að velja sigurvegara

Það voru óveðursský yfir Íslandi áður en kórónuveiran breiddi úr sér yfir alla heimsbyggðina. Það voru blikur á lofti, hagkerfið hafði kólnað og grundvallarspurningu var ósvarað um hvað yrði drifkraftur vaxtar á næstu árum og áratugum. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Arnar Þór Ingólfsson, blaðamann Kjarnans. „Það eru mjög stórar ákvarðanir og strategískar sem bíða þess að vera teknar, um það á hverju við ætlum að byggja verðmætasköpunina.“ 

Í samtali við blaðamann Kjarnans lýsir Sigurður þeirri skoðun sinni að ferðaþjónusta hafi á árunum eftir hrun fengið of mikla athygli stjórnvalda á sama tíma og önnur vaxtartækifæri hafi farið forgörðum. Það sama megi ekki gerast nú – stjórnvöld þurfi að hætta að velja sigurvegara.

Taka þarf stórar ákvarðanir

Sigurður segir í viðtalinu að það sé alveg ljóst að þrjár meginstoðirnar í hagkerfinu; sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður og ferðaþjónusta, hafi verið komnar að þolmörkum áður en COVID-kreppan kom upp og þar sé ekki svigrúm til mikils vaxtar. Við veiðum ekki meiri fisk en sérfræðingar Hafró segi að sjálfbært sé hverju sinni og samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar hérlendis eigi undir högg að sækja af ýmsum ástæðum, svo ólíklegt sé að þar verði mikill vöxtur á næstunni. Hann segir að ferðaþjónustan muni taka við sér, hvort sem það taki mánuði eða ár en telur þó ólíklegt að hún muni vaxa mikið umfram það sem hún var orðin áður en veiran og viðbrögðin við henni settu allt á annan endann. „Vöxturinn verður að koma annarsstaðar frá. Þess vegna þarf að leggja grunninn og taka stórar ákvarðanir og ég held því fram, og við hjá Samtökum iðnaðarins, að á næstu einum til tveimur árum verði teknar ákvarðanir sem muni ráða því hvernig framtíðin til næstu tíu, tuttugu og jafnvel þrjátíu ára verði í þessu samhengi.“ 

Stjórnvöld móti atvinnustefnu sem eykur samkeppnishæfni

Sigurður segir í viðtalinu að Samtök iðnaðarins hafi árum saman kallað eftir því að stjórnvöld móti hér atvinnustefnu. „Það hrökkva ýmsir í kút þegar þetta orð er nefnt, því það er ekki vel skilgreint hugtak og hefur breyst í tímans rás. Ef við förum langt aftur í tímann, segjum 100 ár, þá byggði atvinnustefna – ekki bara hér á landi heldur víðar – á miklum ríkisafskiptum og eignarhaldi ríkisins á atvinnurekstri. Síðan kom tímabil þar sem stjórnvöld völdu sigurvegara og þar á eftir kom tímabil einkavæðingar og kannski afskiptaleysis.“ Hann segir að atvinnustefna stjórnvalda í dag ætti hins vegar að snúast um að auka samkeppnishæfni með umbótum og horfa eigi til fjögurra meginstoða samkeppnishæfni; menntunar, innviða, nýsköpunar og starfsumhverfis. Stjórnvöld þurfi að tryggja að fyrirtæki hafi aðgang að fólki með rétta menntun og færni, að innviðir hverskonar séu traustir og áreiðanlegir og byggi undir verðmætasköpun, að umgjörð nýsköpunar sé með því besta sem þekkist og réttir hvatar séu þar innbyggðir og að starfsumhverfi fyrirtækja þurfi að vera aðlaðandi, hvað varðar regluverk, skatta, hagstjórn og fleira í þeim dúr. „Með umbótum á þessum sviðum batnar samkeppnishæfni svo verðmætasköpunin eykst sem styður við meiri lífsgæði. Það er auðvitað það sem við sækjumst eftir sem samfélag, að auka við þau takmörkuðu gæði sem við höfum, að það verði meiri gæði til skiptanna.“ Hann segir að heilmiklar umbætur hafi orðið á undanförnum árum, en tækifæri hafi þó farið forgörðum og stjórnvöld séu ekki að grípa þau. 

Aðgerðir stjórnvalda miða fyrst og fremst við að bjarga ferðaþjónustunni

Þá segir hann í viðtalinu að aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna kórónuveirufaraldursins sýni „svart á hvítu“ að stjórnvöld séu með atvinnustefnu af öðrum toga en þá sem hann teldi æskilega. „Sú atvinnustefna gengur út á það að velja sigurvegara og þar er raunar einn sigurvegari sem er á blaði og það er ferðaþjónustan. Aðgerðir stjórnvalda miða fyrst og fremst við að bjarga ferðaþjónustunni. Það er skiljanlegt, með hliðsjón af því hvaða vægi hún hefur haft, þar eru fjölmörg störf undir og greinin mun sannarlega ná fyrri styrk, það er bara spurning um tíma, en á sama tíma eru tækifæri sem fara forgörðum vegna þess að athygli stjórnvalda beinist ekki að þeim.“ Hann telur viðbrögð stjórnvalda um margt skynsamleg, en ekki að öllu leyti, og segir Samtök iðnaðarins velta fyrir sér forgangröðuninni sem birtist í því að greiða laun starfsmanna á uppsagnarfresti, sem hingað til hefur kostað ríkissjóð rúma 8 milljarða króna. „Þar er horft til fortíðar. Á sama tíma er fjárfesting í nýsköpun aukin um tæpa 5 milljarða, eða lægri tölu, þar er verið að tala um fjárfestingu til framtíðar.“ 

Fjárfesta frekar í tækifærum framtíðar

Í lok viðtalsins kemur fram að Sigurður segi að staldra megi við eitt og annað í aðgerðum stjórnvalda, en líta verði til þess „að þarna var brugðist mjög hratt við, það gafst mjög lítill tími til að hugsa þessar aðgerðir, ráðast í þær og koma þeim í framkvæmd, þannig að heilt yfir held ég að það megi alveg hrósa stjórnvöldum fyrir þessar aðgerðir. En núna þegar rykið er að setjast held ég að það þurfi að hugsa þetta allt á svolítið nýjan hátt. Það þarf að fjárfesta með markvissari hætti í tækifærum framtíðar og sækja þau.“

Kjarninn, 15. september 2020.