Fréttasafn



1. jún. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Stjórnvöld hraði stefnu um nýtingu vindorku á Íslandi

Jarðarbúar verða að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti eins fljótt og auðið er því annars munu lofslagsbreytingar valda gríðarlegum skaða á vistkerfum heimsins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þetta segir Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga, í grein á Vísi með yfirskriftinni Snúum baki við olíu og fram­leiðum ís­lenska orku. Hann segir að Ísland hafi skuldbundið sig til að taka þátt í þeirri baráttu og draga verulega úr losun koltvísýrings ella greiða gríðarháar fjársektir. Markmið stjórnvalda sé að ljúka fullum orkuskiptum innan 17 ára sem sé alls ekki langur tími fyrir verkefni af þessari stærðargráðu. Starfshópur um nýtingu vindorku á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafi skilað nýverið af sér stöðuskýrslu þar sem kallað sé eftir aukinni umræðu um málefnið. 

Í niðurlagi greinarinnar segir Reynir að Félag ráðgjafarverkfræðinga kalli eftir því að stjórnvöld hraði sem frekast er unnt stefnu um nýtingu vindorku á Íslandi og lagaumgjörð um málaflokkinn og sé Félag ráðgjafarverkfræðinga og félagsmenn þess tilbúið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í því verkefni. Ef ná á markmiðum Íslands og komast hjá háum sektargreiðslum þurfi að hefjast handa strax.

Mikill ábati að framleiða sína eigin orku

Reynir segir að Íslandi beri að leiða vegferðina þegar komi að grænni orku og orkuskiptum þar sem fáar þjóðir séu þegar komnar jafn langt í þeim efnum og hér ríki auk þess mikil velmegun. Það sé ekki siðferðilega réttlætanlegt að ætla öðrum þjóðum að framleiða græna orku fyrir Ísland. Auk þess feli það í sér mikinn ábata fyrir íslenskt samfélag að framleiða sína eigin orku í stað þess að kaupa hana frá útlöndum og greiða fyrir með gjaldeyri. Skýrasta dæmið um slíkt hérlendis sé innleiðing á hitaveitu til húshitunar á síðustu öld.

Tvöfalda þarf raforkuframleiðslu Íslands 

Reynir segir í greininni að orkusparnaður muni vissulega styðja við markmið um samdrátt í losun koltvísýrings en hann muni ekki leysa nema lítinn hluta vandans. Hafa þurfi í huga að til að mæta orkuskiptum í flugi, skipta út olíu fyrir grænu eldsneyti, sé litið til núverandi eftirspurnar á Keflavíkurflugvelli þurfi yfir 1500 MW af stöðugri raforku. Til að mæta orkuþörf vegna fullra orkuskipta, í samgöngum á landi, láði og legi þurfi að tvöfalda raforkuframleiðslu Íslands.

Vindorkan hagstæð, fljótreist og nokkuð afturkræf

Í greininni kemur fram að ný raforka hérlendis verði framleidd með vatnsafli, jarðvarma og vindorku. Reynir segir að af þessum valkostum sé vindorkan m.v. stöðu mála hagstæð, fljótreist og nokkuð afturkræf, svo eðlilegt sé að beita þeirri tækni nú. Botnföst vindorkuver á hafi virðast ekki henta vel við Ísland vegna þess að víðast sé dýpi yfir 70 metrar og jarðlög á hafsbotni séu víða óhentug til grundunar. Fljótandi vindorkuver séu á þróunarstigi og verði margfalt dýrari en vindmyllur á landi sem þýði hærra orkuverð. Hann segir að kostnaðurinn gæti verið allt að þrefalt meiri. Ísland sé mjög víðfeðmt og víða séu landfræðilegar aðstæður og vindafar afar hagstæðar til uppbyggingar vindorkuvera þar sem neikvæð áhrif á menn og dýr séu lágmörkuð og víðast fari rekstur vindorkuvera vel með landbúnaði.

Á vef Vísis er hægt að lesa grein Reynis í heild sinni.

Vísir, 31. maí 2023.