Fréttasafn



12. maí 2020 Almennar fréttir

Stjórnvöld móti atvinnustefnu

Efling nýsköpunarstarfs, aukinn kraftur í innviðafjárfestingum, jöfn framleiðsla á byggingamarkaði og að nútímalegt menntakerfi sé þróað í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Þetta segir Árni Sigurjónsson, nýr formaður Samtaka iðnaðarins, að verði áherslumál í starfi samtakanna á næstu misserum í viðtali Sigurðar Boga Sævarssonar, blaðmanns, sem birt er í Morgunblaðinu. 

Í viðtalinu kemur fram að Árni hafi tekið við formennskunni á nýafstöðnu Iðnþingi og í ályktun þess segi að á undanförnum árum hafi um of verið einblínt á eina atvinnugrein í senn sem meginstoð í atvinnulífinu. Fyrst eftir aldamót hafi verið veðjað á fjármálastarfsemi og svo ferðaþjónustuna sem nú sé stopp. Eðlilegt viðbragð í núverandi aðstæðum sé að stjórnvöld móti atvinnustefnu með það að markmiði að efla samkeppnishæfni landsins í stóru samhengi. Þar sé eðlilegt að horfa sérstaklega til nýsköpunar, hugverkaiðnaðar og aukins útflutnings. „Hver einasti dagur felur í sér nýjar áskoranir og viðfangsefni; ekki síst nú á tímum kórónaveirunnar.“ 

Miður að verkalýðshreyfingin komi ekki til móts við atvinnulífið

Þá segir að Árni að hann meti grunnstoðir íslensks samfélags og efnahagslífs sterkar og sennilega hafi Íslendingar aldrei sem nú verið í jafn góðri stöðu til þess að takast á við erfiðleika. „Því trúi ég að við verðum fljót að komast í gegnum skaflinn. Veirufaraldurinn er fyrirbæri sem engum verður um kennt og því þarf ekki að leita að sökudólgum, eins og fjármálakerfið var fyrst eftir efnahagshrunið. Staða bankanna í dag er sterk og í sjúkrakassa þeirra eru tólin sem þarf í endurreisnarstarfinu framundan. Þá eru stýrivextir í dag sögulega lágir og tryggja þarf að vaxtalækkanir skili sér til fyrirtækjanna svo þeim verði unnt að fjármagna starfsemi sína á eðlilegum forsendum. Hins vegar er miður að verkalýðshreyfingin komi ekki til móts við atvinnulífið með því að ljá máls á frestun launahækkana. Til þeirra er ekki svigrúm nú.“ 

Stuðla að fjölgun starfa sem þurfum nauðsynlega nú

Þá segir Árni í viðtalinu við Sigurð Boga að í núverandi stöðu sé mikilvægast að landamæri verði opnuð sem fyrst svo ferðaþjónustan komist aftur á skrið sem og eðlileg viðskipti milli landa. Aðgerðapakkar stjórnvalda til aðstoðar fyrirtækjum gagnist yfirleitt vel og séu sterk skilaboð. „Meiri stuðningur og hvatar við nýsköpunarstarf fyrirtækja, til að mynda með hækkun á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar sem Alþingi samþykkti fyrir helgina skipta líka afar miklu máli. Sömuleiðis framhald á verkefninu Allir vinna, þar sem virðisaukaskattur af vinnu iðnaðarmanna vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds íbúðarhúsnæðis fæst endurgreiddur. Þá settu Samtök iðnaðarins upp vefinn meistarinn.is þar sem finna má upplýsingar um starfandi iðnmeistara innan vébanda samtakanna, sem margir leita til nú vegna framkvæmda á heimilum og víðar. Allir þessir þættir munu stuðla að fjölgun starfa, sem við þurfum svo nauðsynlega nú.“ 

Mikil aðlögunarhæfni atvinnulífsins

Þegar Árni er spurður hvar sóknarfærin liggi helst segir nefnir hann þar meðal annars tækniþróun hverskonar og þá séu miklir möguleika í matvælaframleiðslu undir formerkjum hreinleika og óspilltrar náttúru. „Möguleikarnir og tækifærin koma oft óvænt og þau verður að grípa strax. Að undanförnu höfum við orðið vitni að mikilli aðlögunarhæfi atvinnulífsins, samanber hvað skólar og fyrirtæki voru fljót að bregðast við þegar kórónaveirufaraldurinn var í hámarki. Þar var á sumum sviðum hlaupið mörg ár fram í tímann í tækniþróun og vinnubrögðum svo allt gekk upp með fjarvinnslu og -námi, sem fólk sinnti að heiman. Þessi tími hefur verið mjög áhugaverður og við megum ekki gleyma þeim lærdómi þegar ástandinu léttir. Við Íslendingar erum líka vanir að takast á við óvæntar aðstæður og sveiflur í rekstri, af hvaða ástæðum sem þær kunna að vera. Þó við viljum ávallt sem mestan stöðugleika í efnahagslífinu, sem er mikið hagsmunamál fyrir fyrirtækin í landinu – og raunar landsmenn alla.“ 

Menntakerfið svari þörfum hvers tíma

Í viðtali Sigurðar Boga kemur fram að Árni hafi setið fjögur ár í stjórn Samtaka iðnaðarins áður en hann tók við formennskunni. Á þeim tíma segist hann hafa kynnst iðnrekendum víða um land; fólki sem rekur lítil jafnt sem stór fyrirtæki sem séu að gera mjög áhugaverða hluti. „Þarna er mikið hæfileikafólk og tækifærin í iðnaði eru mikil. Þó fara ekki nema 10-15% ungmenna úr hverjum árgangi í iðnnám, en þyrftu að vera fleiri. Ef rétt er á málum haldið gæti þetta hlutfall farið vel yfir 20% innan fárra ára. Að sama skapi þarf menntakerfið að svara þörfum hvers tíma, atvinnulífið og iðnfyrirtækin þurfa fólk með rétta hæfni. Ég legg mikla áherslu á frekari umbætur til aukinnar verðmætasköpunar og þar með aukinna lífsgæða landsmanna. Allt slíkt krefst þess að margir leggi hönd á plóg því eins og gjarnan hefur verið sagt að undanförnu: Við erum í þessu saman.“

Morgunblaðið, 11. maí 2020.

Morgunbladid-11-05-2020