Fréttasafn10. feb. 2020 Almennar fréttir Hugverk Nýsköpun

Stjórnvöld styrki umgjörð nýsköpunar þegar hægir á hagvexti

Það sem ég vona að ger­ist á Íslandi á næst­unni tengt ný­sköp­un bygg­ir í grunn­inn á því að stjórn­völd haldi vel á spöðunum og leggi enn meira púður í að styrkja alla um­gjörð ný­sköp­un­ar og skapa fyr­ir­tækj­um þannig starfs­um­hverfi sem stenst sam­keppni við ná­grannaþjóðir okk­ar. Þetta er ekki síst mik­il­vægt nú þegar út­lit er fyr­ir hæg­an hag­vöxt á Íslandi. Þetta segir Edda Björk Ragn­ars­dótt­ir, viðskiptastjóra á hugverkasviði SI, í viðtali á mbl.is. „Fjöl­mörg fyr­ir­tæki hafa flutt starf­semi sína til út­landa á síðustu árum vegna ósam­keppn­is­hæfs starfs­um­hverf­is. Við þurf­um að laða þessi fyr­ir­tæki til Íslands aft­ur og jafn­framt koma í veg fyr­ir að okk­ar verðmæt­ustu fyr­ir­tæki flytji úr landi. Ísland verður jafn­framt að vera eft­ir­sótt til bú­setu og starfsþró­un­ar fyr­ir mannauð heims­ins en án sam­keppn­is­hæfs mannauðs verður eng­in ný­sköp­un á Íslandi. Án ný­sköp­un­ar er hætta á stöðnun og tak­mörkuðum fram­förum. Það er mjög mik­il­vægt að byggja und­ir nýj­ar lausn­ir í takt við breyt­ing­ar í sam­tím­an­um.“

Þarf að auka hvata til að skrá hugverk hér á landi

Edda segir á að síðastliðnum árum hafa nokk­ur mik­il­væg skref verið tek­in. „Viðmiðun­ar­fjár­hæðir end­ur­greiðslna vegna rann­sókna- og þró­un­ar­kostnaðar tvö­földuðust og hækkuðu úr 300 m.kr. í 600 m.kr. í janú­ar 2019. Við vilj­um sjá stjórn­völd hækka þakið enn frek­ar enda er rúmt laga­legt svig­rúm til þess. Þá þurf­um við að auka hvata fyr­ir­tækja til þess að skrá hug­verk hér á landi en Ísland er að drag­ast aft­ur úr ná­granna­ríkj­um sín­um í vernd­un og skrán­ingu hug­verka. Fjöl­mörg ríki í Evr­ópu og Asíu hafa á und­an­förn­um ára­tug­um inn­leitt sér­stak­ar skattaí­viln­an­ir til fyr­ir­tækja vegna hagnaðar sem kem­ur til vegna skráðra hug­verka. Fyr­ir­komu­lagið gæti hvatt til auk­inn­ar fjár­fest­ing­ar í rann­sókn­um og þróun hjá ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um ásamt því að fjölga einka­leyf­aum­sókn­um þar sem skýr hvati yrði til að skrá hug­verk.“

Hún segist vera bjart­sýn á fram­haldið en nú sé ný­út­kom­in ný­sköp­un­ar­stefna fyr­ir Ísland og Sam­tök iðnaðar­ins ætla að til­einka árið 2020 ný­sköp­un. „Við hjá SI vænt­um þess að þessi aukni kraft­ur muni loks leiða til þess að mik­il­væg skref verði tek­in af hálfu stjórn­valda í að efla ný­sköp­un hér á landi. Aðeins þannig munu verðmæt fyr­ir­tæki sjá hag sín­um best borgið með því að stunda rann­sókn­ir og þróun hér á landi.“

Hækka þökin á endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar

Þegar Edda er spurð hvert fyrsta verkefnið væri ef hún væri skipuð fjármálaráðherra landsins í viku segir hún stjórnsýsluna hreyfast á ágætum hraða en eina vika sé líklega ekki næg­ur tími til að koma miklu í verk. „Draumastaðan væri sú að ég gæti hækkað þökin á end­ur­greiðslu vegna rann­sókna og þró­un­ar tölu­vert og auðveldað alla um­gjörð fyr­ir sprota­fyr­ir­tæki til þess að vaxa og dafna á Íslandi. Ég held samt að því miður þyrfti ég nokkra daga til viðbót­ar til þess að ná þeim breyt­ing­um í gegn. Ég myndi því ef­laust frek­ar nýta tím­ann til þess að sann­færa sam­starfs­fólk mitt í stjórn­sýsl­unni um mik­il­vægi þess­ara breyt­inga og þannig sjá þær ger­ast í nán­ustu framtíð.“

Mjög kvikt og spennandi starfsumhverfi

Þegar Edda er spurð hvað hún geri sem viðskiptastjóri fyrir SI segir hún að verkefnin séu mörg. „Starfið er fjöl­breytt og krefst þess að maður eigi auðvelt með að aðlag­ast. Starfs­um­hverfið er mjög kvikt og spenn­andi og mik­il­vægt að bregðast hratt við breyt­ing­um. Inn­an Sam­taka iðnaðar­ins eru 1.400 fyr­ir­tæki en á hug­verka­sviðinu eru um það bil 100 fyr­ir­tæki í 6 starfs­greina­hóp­um, leikja­fram­leiðend­ur, sprota­fyr­ir­tæki, kvik­mynda­fram­leiðend­ur, líf- og heil­brigðis­tæknifyr­ir­tæki, gagna­ver og upp­lýs­inga­tæknifyr­ir­tæki. Mitt hlut­verk er fyrst og fremst að gæta hags­muna fé­lags­manna en í því felst fjöld­inn all­ur af fjöl­breytt­um verk­efn­um. Það geta verið ein­staka lög­fræðileg álita­efni, stærri mál sem snerta um­gjörð at­vinnu­lífs­ins, laga­setn­ingu stjórn­valda og að halda umræðu á lofti um mál­efni sem skipta fé­lags­menn máli. Ég fylg­ist náið með þjóðfé­lagsum­ræðunni og vakta þróun mála sem snerta hags­muni fé­lags­manna okk­ar. Þessi verk­efni eru unn­in í sam­starfi við stjórn­ir viðkom­andi starfs­greina­hópa og þannig leggj­um við lín­urn­ar í sam­ein­ingu.“

Á vef mbl.is er hægt að lesa viðtalið við Eddu í heild sinni.