Fréttasafn



9. sep. 2021 Almennar fréttir

Stjórnvöld velji leið vaxtar

Árni Sigurjónsson, formaður SI, sagði í ávarpi sínu í upphafi kosningafundar SI sem fram fór í Hörpu að iðnaður væri stærsta atvinnugrein landsins hvort sem litið sé til fjölda starfsmanna, útflutningsverðmæta eða sem hlutfall af landsframleiðslu. „Við hjá Samtökum iðnaðarins viljum með þessum fundi í dag leggja okkar af mörkum til uppbyggilegrar umræðu í aðdraganda kosninga og vekja sérstaka athygli á þeim málefnum sem brýnust eru fyrir samkeppnishæfni Íslands; menntun – innviðir – nýsköpun – starfsumhverfi – orka og umhverfi, og sömuleiðis að beina kastljósinu að þeim tækifærum sem grípa þarf til að auka útflutningstekjur þjóðarbúsins.“

Árni sagði það vera óumflýjanlegt í upphafi nýs kjörtímabils að teknar verði ákvarðanir sem ráði miklu um efnahagslega framtíð Íslands. Verkefnið væri skýrt, að efnahagsleg lífsgæði landsmanna verði að minnsta kosti jafngóð eða meiri en þau voru fyrir það efnahagsáfall sem við glímum við í kjölfar heimsfaraldurs. Hann sagði að til að ljúka því verkefni á næstu fjórum árum þurfi á tímabilinu að auka landsframleiðslu okkar um 545 milljarða króna, auka gjaldeyristekjur um 300 milljarða og skapa 29 þúsund störf. „Þetta er ærið verkefni, en við höfum gert þetta áður og ætlum að gera þetta aftur. Það er margsannað að verðmætasköpun sem byggir á öflugu, fjölbreyttu og samkeppnishæfu atvinnulífi er forsenda góðra lífskjara.“

Störf í einkageiranum skapa grundvöll fyrir vexti

Árni sagði að hver þessara liða – aukin landsframleiðsla, auknar gjaldeyristekjur og fjölgun starfa – sé háður hinum því aukin umsvif í réttum atvinnugreinum auki gjaldeyristekjur og skapi störf. Hann spurði því næst hvernig störf við viljum skapa og hvaða störf skapi grundvöll fyrir þessum vexti til að viðhalda efnahagslegum lífsgæðum okkar. „Sumir telja að svarið felist í enn frekari fjölgun opinberra starfsmanna, umfram þann mikla vöxt þar sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Þau störf munu þó tæplega auka gjaldeyristekjur eða landsframleiðslu svo nokkru nemi – þó fjarri því skuli gert lítið úr mikilvægu framlagi almannaþjónustu og hins opinbera. Gallinn er bara sá, að fólk og fyrirtæki í einkageiranum borga brúsann í formi óhóflegra skatta og gjalda og meðan ekki er vöxtur þeim megin er sannarlega ekki innistæða fyrir vexti hinu megin. Það er ekki nóg til skiptanna.“

Met í nýsköpun bein afleiðing vel heppnaðra aðgerða stjórnvalda

Árni sagði að svarið liggi í því að stjórnvöld slíti margvíslega fjötra með markvissum hætti á næstu mánuðum og velji leið vaxtar, svo atvinnulífinu verði sköpuð skilyrði til að geta að hlaupið hraðar og skapað eftirsótt störf og aukin verðmæti. „Iðnaður hefur meiri vaxtarmöguleika til framtíðar en aðrar mikilvægar stoðir efnahagslífsins, ekki síst nú þegar fjórða stoð útflutnings – hugverkaiðnaður – hefur fest sig í sessi. Það var ánægjulegt að lesa blöðin í morgun þar sem umfjöllun um nýsköpun og vöxt hugverkaiðnaðar var fyrirferðamikil. Það met í nýsköpun sem við erum að slá núna er bein afleiðing vel heppnaðra aðgerða stjórnvalda um aukna hvata og ötulu starfi okkar frábæru frumkvöðla. Sprotarnir vaxa ef jarðvegurinn er frjór. Ef haldið er áfram á þessari braut verður uppskeran ríkuleg.“

Vöxtur hugverkaiðnaðar verði kjölfesta

Þá kom fram í máli Árna að augljósasta og áhrifaríkasta leiðin að sjálfbærum vexti útflutnings til framtíðar sé að auka áhersluna á sköpun nýrra og verðmætra starfa og gera vöxt hugverkaiðnaðar að kjölfestu í atvinnustefnu landsins. Tækifæri og erlend fjárfestingtengd orkusæknum iðnaði og grænum lausnum séu einnig óþrjótandi og þau þurfum við að sækja af krafti, því fátt gerist að sjálfu sér. Hann sagði aðrar greinar iðnaðar, byggingariðnaður, matvæla- og framleiðsluiðnaður, einnig leika lykilhlutverk í þeim vexti sem við viljum sjá raungerast á næstu árum. „Þegar við veljum íslenska vöru eða þjónustu skilar það sér aftur til okkar. Við eigum og verðum að styðja ötullega við íslenskan iðnað, framleiðslu og hugvit. Þannig skapast verðmæti og störf, samfélaginu okkar til góða.“

Innviðaráðuneyti og ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og erlendrar fjárfestingar 

Í niðurlagi ávarps síns beindi Árni orðum sínum til forystufólks stjórnmálaflokkanna sem voru á fundinum: „Á grunni þess sem ég hef hér sagt og í ljósi umfangs iðnaðar og mikilvægis þess að efla sérstaklega nýsköpun og erlenda fjárfestingu leggjum við til, sem innlegg í myndun ríkisstjórnar að loknum kosningum, að það verði sérstakur ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og erlendrar fjárfestingar. Sá ráðherra yrði ráðherra vaxtar á komandi kjörtímabili og bæri ábyrgð á því að sækja tækifærin. Þá hafa Samtök iðnaðarins um alllanga hríð bent á augljósa kosti þess, og í raun nauðsyn, að öll verkefni húsnæðismála, byggingamála og skipulagsmála verð færð inn í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og þannig myndað heildstætt innviðaráðuneyti. Núverandi dreifing verkefna milli ráðuneyta endurspeglar ekki þann raunveruleika sem íslenskt atvinnulíf býr nú við, þá stefnu sem við þurfum að setja okkur í atvinnumálum, eykur flækjustig og hægir á vexti.“

Si_kosningafundur_2021-3Árni Sigurjónsson, formaður SI.

Hér er hægt að horfa á ávarp Árna á fundinum:

https://vimeo.com/600877088