Fréttasafn11. sep. 2015 Iðnaður og hugverk

Stöðugar umbætur eru lykillinn að aukinni framleiðni

Mikilvægur þáttur í því að auka framleiðni í fyrirtækjum snýr að einföldum umbótum. Sem dæmi má skoða hvernig undirbúningur verks á sér stað og hvernig skipulagi verkfæra er háttað.

Fyrsti fundur Samtaka iðnaðarins um framleiðni fór fram í gær og sóttu hann um 50 manns. Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins opnaði fundinn og lét þess getið að tilgangur með fundaröðinni væri að skapa vettvang fyrir flæði hugmynda milli fyrirtækja enda vinna nú Samtök iðnaðarins að framleiðniaukningu með áherslu á skilvirkt rekstrarumhverfi, þróun og fræðslu. Markmiðið er að ná framleiðnivexti á Íslandi upp fyrir 2% á ári. Bjarni Már Gylfason hagfræðingur SI sá um fundarstjórn.

Á fundinum  var fjallað um framleiðslustjórnun og mælingu á framleiðni. Þar tóku til máls þeir Þórður Theodórsson framkvæmdastjóri framleiðslusviðs Marel, Rúnar Ingibjartsson gæðastjóri Nóa Síríus og Hrafn Davíðsson ferilseigandi á renniverkstæði Össurar. Þessi fyrirtæki hafa öll mikla þekkingu á þessu sviði og hafa verið leiðandi í innleiðingu verkferla og verkfæra á borð við OLE, 5S, VMS  og Kaizen sem hjálpa til við að auka framleiðni fyrirtækja. Þetta er verkfærasafn sem hver og einn getur nýtt sér að vild og lagað að sínum þörfum.

Lykillinn að aukinni framleiðni er að stöðugt sé unnið að umbótum í fyrirtækjunum en  umbótaverkefni þurfa ekki endilega að vera umfangsmikil.  Til að mynda getur bætt skipulag á vinnustöð starfsmanna og áhöldum dregið umtalsvert úr sóun á tíma við undibúning verkefna og aukið framleiðni. Öll fyrirtæki ættu að leggja áherslu á að á starfsstöðvum sé allt í röð og reglu þannig  að mestur tími starfsmanns fari í að vinna verkið sjálft en ekki að undirbúa það. Með því að gera smávægilegar umbætur er þannig hægt auka framleiðni og bæta afkomu fyrirtækis. Duglegi starfsmaðurinn sem er alltaf á hlaupum er ekki að vinna á meðan hann hleypur. Þórður sagði frá því að Marel hefur markvisst skoðað hvernig nýta megi vinnutímann betur og að starfsmenn vinni virðisskapandi verk. Málið er að vinna betur en ekki meira eða hraðar.

Rúnar taldi mikilvægt að allir starfsmenn taki þátt og séu meðvitaðir um verklag fyrirtækisins til að árangur náist í umbótaverkefnum.  Þannig hefur náðst verulegur árangur í að minnka birgðakostnað og auka veltuhraða. Hjá Þórði kom fram að Marel ákvað að byrja fyrst á stjórnendum fyrirtækisins og var þeim gert að fara í sjálfsskoðun og meta eigin framleiðni áður en innleiðing átti sér stað hjá öðrum. Hjá öllum fyrirtækjunum hefur þróunin orðið sú að starfsfólkið tekur virkan þátt í umbótaverkefnunum og til dæmis sagði Hrafn að á renniverkstæði Össurar hafi 620 umbótaverkefni verið unnin í kjölfar tillagna frá starfsfólki og mánaðarlega eru veitt verðlaun fyrir bestu tillöguna. Starfsfólk er ánægðara þegar tími þess nýtist betur og vinnustaðurinn verður skemmtilegri.

Þá kom einnig fram að vissulega er mikilvægt fyrir öll fyrirtæki að setja sér markmið og áætlanir en þegar tekst að vinna þannig að stanslaust sé reynt að gera betur með stöðugum umbótum þá næst raunverulegur árangur. Í grunninn snýst þetta um almenna skynsemi. Í máli Hrafns kom fram að Össur einblínir ekki á framleiðnitölur heldur umbætur og sú áhersla skilar á endanum bættri framleiðni.

Almenn ánægja virtist vera með þetta framtak enda umræðuefnið þarft. Ingibjörg Árnadóttir, sérfræðingur gæðatryggingar hjá Lýsi hafði þetta um fundinn að segja:  " Fundurinn var sérstaklega áhugaverður fyrir mig sem er stöðugt að vinna í umbótum. Það sem var áhugaverðast var að heyra reynslusögur fyrirtækja um hvað þau hafa gert til að ná fram aukinni framleiðni og sjá dæmi um hvernig þau nota mælikvarða til að meta árangurinn. Það er frábært að hafa vettvang þar sem hægt er að læra af reynslu annarra."

Hér má nálgast upptöku af fundinum.

Næsti fundur Samtaka iðnaðarins í fundaröð um framleiðni verður haldinn fimmtudaginn 24. september og þá verður fjallað um gæðastjórnun í framleiðslu, sjá nánar hér .