Fréttasafn



13. des. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Stöðugur íbúðamarkaður öllum til hagsbóta

Í nýrri greiningu SI sem gefin er út í dag segir að það sé öllum til hagsbóta að stöðugleiki aukist í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sveiflurnar á íbúðamarkaði ali af sér skort á húsnæði og miklar verðsveiflur hafi áhrif á almenning í landinu ásamt því að gera verktökum sem sinna uppbyggingu íbúðarhúsnæðis erfitt um vik að setja niður og framfylgja áætlunum um uppbyggingu.

Önnur helstu atriði sem koma fram í greiningunni:

  • Miklar sveiflur hafa einkennt byggingariðnað og mannvirkjagerð hér á landi síðustu áratugi. Greinin ríflega helmingaðist í umfangi eftir efnahagsáfallið 2008 en hefur meira en tvöfaldast í umfangi síðan. Samdrátturinn í greininni eftir 2008 var ríflega tífalt meiri í greininni en í hagkerfinu í heild. Uppsveiflan sem eftir fylgdi var að sama skapi margfalt kröftugri en í hagkerfinu almennt.
  • Sveiflur í byggingariðnaði og mannvirkjagerð eru mjög miklar hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Vægi greinarinnar í landsframleiðslu fór úr því að vera 10% árið 2007 niður í 4,3% árið 2011 upp í að vera 8,0% árið 2021. Sveiflaðist hlutdeild greinarinnar í landsframleiðslu í ríkjum Evrópusambandsins á þessum tíma á milli 6,3% og 5,1% og í Bandaríkjunum á milli 5,1% og 3,5%.
  • Sveiflur í starfsumhverfi greinarinnar reyna mjög á þanþol hennar. Má í því sambandi nefna að frá miðju ári 2008 fram til sama tíma árið 2011 fækkaði starfandi í greininni um meira en helming, þ.e. fór úr 19 þúsund niður í 9 þúsund. Síðan þá hefur fjölgað í greininni aftur og eru nú 17 þúsund starfandi.
  • Dregið hefur úr misvægi á íslenska íbúðamarkaðinum á undanförnum mánuðum. Eignum á skrá hefur fjölgað, meðalsölutími lengst og verðhækkanir verið hóflegri. Má í þessu sambandi nefna að yfir síðustu þrjá mánuði hefur verð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 1,0% en þriggja mánaða hækkunartakturinn var 9,1% í maí síðastliðnum. Hækkun vaxta ásamt þrengri lánþegaskilyrðum hafa dregið úr vexti eftirspurnar. Á sama tíma hefur verið nokkuð gott flæði af nýjum íbúðum inn á markaðinn. Minni verðhækkun íbúða mun eflaust birtast í lægri verðbólgu á næstunni og skapa grundvöll fyrir lægri stýrivöxtum Seðlabankans.
  • Miklar sveiflur greinarinnar endurspeglast m.a. í miklum sveiflum í uppbyggingu íbúða. Íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu hafa sveiflast á milli þess að vera um 1.300 upp í tæplega 5.000 á síðustu tíu árum.
  • Framboð íbúða hefur tilhneigingu til að laga sig hægt að örum sveiflum í eftirspurn þar sem það tekur mörg ár að skipuleggja og byggja nýjar íbúðir. Þetta misvægi skapar verðþrýsting og oft mikla hækkun verðs á uppgangstíma líkt og var hér frá miðju ári 2020 fram á mitt þetta ár.
  • Þessi töf í viðbrögðum framboðs húsnæðis við sveiflum í eftirspurn er mannanna verk. Hindranir og tafir í byggingu íbúða eru margar í reglu- og lagaumhverfi greinarinnar ásamt því að pólitískar áherslur í húsnæðisuppbyggingu hafa hindrað og hægt á ferlinu.
  • Leiðin að auknum stöðugleika byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar felst í aðgerðum sem annars vegar draga úr sveiflum í eftirspurn og hins vegar aðgerðum sem auka aðlögunarhæfni framboðs húsnæðisuppbyggingar að sveiflum í eftirspurn. Markmiðið er að ávallt sé byggt í takti við þörf.
  • Eftir hraðan vöxt hagkerfisins og byggingariðnaðarins á síðustu misserum eru nú blikur á lofti sem líklegast munu draga úr hagvexti og vexti fjárfestinga þegar kemur fram á næsta ár. Hærri vextir, minna aðgengi að fjármagni, mikil verðbólga, hökt í aðfangakeðju ásamt hækkun á verði hrávöru eru allt þættir sem dregið gætu úr fjárfestingastiginu í hagkerfinu á næstunni.
  • Ríflega 91% stjórnenda fyrirtækja í byggingariðnaði og mannvirkjagerð innan Samtaka iðnaðarins segja að stöðugt starfsumhverfi skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja. Ekki nema 2% segja að það skipti fremur litlu máli og 0,7% að það skipti engu máli. Endurspeglar þetta hversu mikilvægt stöðugt starfsumhverfi er fyrir rekstur þessara fyrirtækja.

Mynd_ibudamarkadur


Hér er hægt að nálgast greiningu SI.