Fréttasafn



8. mar. 2019 Almennar fréttir

Stofnun samstarfsvettvangs um loftslagsmál

Ég vænti þess að á næstu dögum verði gengið frá yfirlýsingu um samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Í framhaldi af því verður formleg stofnun samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir þar sem öllum fyrirtækjum býðst að vera með. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í ræðu sinni á Iðnþingi 2019 sem fram fór í Hörpu og sagði jafnfram að þetta væri stórt skref.

Þá nefndi Sigurður að í tengslum við vitundarvakningu um íslenskan iðnað undir yfirskriftinni „Íslenskt – gjörið svo vel“ hafi forseti Íslands tekið því vel að prýða Bessastaði íslenskum húsgögnum eftir áskorun Samtaka iðnaðarins. Hann sagðist fagna því og vonaði að það verði það fljótlega að veruleika.

Hér fyrir neðan er ræða Sigurðar í heild sinni:

Forseti Íslands, ráðherra, kæru félagar

Lífinu verður að lifa með því að horfa fram en það skilst ekki nema með því að horfa aftur.

Á þessu ári minnumst við þess að aldarfjórðungur er liðinn frá því Samtök iðnaðarins hófu starfsemi. Saga samtakanna nær þó talsvert lengra aftur. Samtakamátturinn skiptir sannarlega máli eins og formaðurinn nefndi hér áðan.

Á fyrsta Iðnþinginu sem fram fór árið 1932 var margt með öðrum hætti en hér í dag. Sá viðburður hefði ekki hlotið jafnréttisstimpil Kvenna í orkumálum ólíkt þessu Iðnþingi enda voru eingöngu karlmenn sem sátu þingið. Umræðuefnin voru fjölbreytt og tóku mið af veruleika þess tíma. Veruleika sem við höfum fengið innsýn í hér í dag. Veruleika sem er okkur fjarlægur að mörgu leyti.

Þarna voru þó kunnugleg málefni til umræðu. Menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi – fjórar grunnstoðir framleiðni og samkeppnishæfni. Þá var einnig rætt um vitundarvakningu um íslenska framleiðslu.

Þannig hafa málefnin verið þau sömu þó nálgunin taki að sjálfsögðu mið af aðstæðum hverju sinni. Samkeppnishæfni er nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Með aukinni samkeppnishæfni verða til aukin verðmæti og þar af leiðandi er meira til skiptanna. Samtök iðnaðarins hafa frá stofnun þeirra fyrir aldarfjórðungi síðan unnið ötullega að aukinni samkeppnishæfni Íslands auk þess að stuðla að vitundarvakningu um íslenskan iðnað, nú síðast undir yfirskriftinni „Íslenskt – gjörið svo vel“.

Í tengslum við það verkefni fagna ég því að forseti Íslands skuli hafa tekið því vel að prýða Bessastaði íslenskum húsgögnum eftir áskorun Samtaka iðnaðarins. Vonandi verður það fljótlega að veruleika.

Á síðasta ári unnum við öflugt málefnastarf með virkri þátttöku félagsmanna. Í skýrslu okkar um atvinnustefnu skyggndumst við inn í framtíðina og veltum því upp hvernig Ísland verður árið 2050. Þar lögðum við til um sjötíu aðgerðir sem ráðast má í til að efla samkeppnishæfni Íslands. Miðpunkturinn í þeirri hugsun er atvinnustefna. Atvinnustefna er rauði þráðurinn í allri stefnumótun. Með þessu móti er ekki eingöngu bent á vandamál og áskoranir heldur eru lagðar til lausnir. Þannig eykst samkeppnishæfnin og meira verður til skiptanna.

Góðir gestir!

Hér áðan sáum við og heyrðum um iðnað sem stundaður var hér á landi en er ekki lengur til í dag. Vatnsberarnir sem Davíð Scheving nefndi misstu sitt hlutverk vegna eðlilegra framfara. Það á ekki alltaf við. Nú á tímum eiga sumar iðngreinar í vök að verjast og til marks um það er skrýtið til þess að hugsa að sjálf bókaþjóðin prentar ekki sínar bækur á Íslandi eins og áður var enda leituðu útgefendur í sífellt meira mæli út fyrir landsteinana með stór verkefni. Það kann að vera að slíkt hafi borgað sig til skamms tíma. En ekki til lengri tíma litið.

Þegar möguleikunum hér á landi fækkaði spratt upp mikil eftirsjá hjá bókaútgefendum sem kunnu að meta þjónustuna þegar hennar naut ekki lengur við. Við tryggjum ekki eftirá.

Sömu örlög kunna að bíða annarra greina vegna þess að við gætum ekki að langtímahagsmunum okkar. Þar þarf hið opinbera að ganga á undan með góðu fordæmi enda eyðir hið opinbera 40 krónum af hverjum 100 í hagkerfinu. Vali fylgir ábyrgð.

Á sama tíma verða nýjar greinar og ný fyrirtæki til. Á fyrsta iðnþinginu árið 1932 var ákall um að „greiða fyrir framgangi gagnlegra nýjunga“. Áskoranir geta af sér nýjan iðnað enda gerir nýsköpun okkur kleift að takast á við samfélagsleg viðfangsefni.

Kæru félagar!

Í skýrslu samtakanna um atvinnustefnu sem gefin var út fyrir nokkrum mánuðum síðan voru nefnd dæmi um viðfangsefni framtíðar. Öldrun þjóða, tækniframfarir og umhverfis- og loftslagsmálin eru þrjú viðfangsefni sem við verðum að kljást við og aðlagast.

Könnun meðal félagsmanna sýnir að um helmingur félagsmanna telur umhverfismál nú skipta miklu máli en var rúmlega 40% á síðasta ári. Í stefnumótun stjórnar sem nú stendur yfir eru umhverfismálin einn af lykilþáttunum sem horft er til. Þetta sýnir að iðnaðurinn lætur sig umhverfis- og loftslagsmál svo sannarlega varða og endurspeglar þann metnað sem við höfum fundið meðal félagsmanna að standa sig vel í málaflokknum. Við höfum góða sögu að segja og getum gert betur.

Ríki heims hafa sett sér markmið um minni útblástur og er Ísland þar ekki undanskilið. Þess má sjá skýr merki í stjórnarsáttmálanum þar sem boðað er kolefnishlutleysi árið 2040. Þessum fyrirheitum var svo fylgt eftir með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem kynnt var síðastliðið haust. „Hver vill ekki selja fisk frá kolefnishlutlausu landi“ spurði forsætisráðherra á viðskiptaþingi í fyrra og benti þannig á hvernig árangur í loftslagsmálum getur eflt ímynd Íslands. Sterkari ímynd landsins, hvort heldur á þessum grundvelli eða öðrum, eykur eftirspurn eftir Íslandi og því sem íslenskt er og þannig eykst virði útflutnings. Þessi skilaboð stjórnvalda hafa falið í sér hvatningu til atvinnulífs um að vinna að metnaðarfullum markmiðum í málaflokknum.

Þann bolta gripum við á lofti ásamt öðrum samtökum og fyrirtækjum og höfum átt uppbyggileg samtöl við stjórnvöld um slíkt samstarf undanfarið ár. Ég vænti þess að á næstu dögum verði gengið frá yfirlýsingu um samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Í framhaldi af því verður formleg stofnun samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir þar sem öllum fyrirtækjum býðst að vera með. Íslandsstofa mun hýsa vettvanginn. Þetta er stórt skref.

Samstarf er lykillinn að árangri. Með vitundarvakningu um málið verður auðveldara að ná árangri.

Eins og Sveinn Ólafsson nefndi í myndbandinu áðan þá búa íslensk fyrirtæki yfir yfirgripsmikilli þekkingu á endurnýjanlegri orku og hafa þróað grænar lausnir. Samstarfsvettvangnum er meðal annars ætlað að miðla hugviti og slíkum lausnum og þannig getum við hjálpað öðrum þjóðum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum, enda er vandinn hnattrænn en ekki bundinn við einstök lönd.

Eins og forsætisráðherra benti á á Viðskiptaþingi í fyrra getur árangur í loftslagsmálum gert íslenskar vörur og þjónustu eftirsóknarverðari. Það er vel raunhæft og mun gagnast öllum.

Ég hvet ykkur öll til þess að skoða aðkomu að samstarfsvettvangnum með opnum huga enda er þetta brýnt mál sem varðar okkur öll.

Góðir gestir.

Það var sýn forystumanna í iðnaði þegar Samtök iðnaðarins voru stofnuð að rödd iðnaðarins yrði háværari ef talað yrði einum rómi. Þetta hefur sannarlega gengið eftir.

Við höfum séð hvernig iðnaður fór úr engu í það að vera undirstöðuatvinnugrein sem borin er uppi af 40 þúsund manns, skapar stóran hluta útflutningstekna og fjórðung landsframleiðslu. Þetta er saga breytinga sem okkur hefur gengið vel að aðlagast og þess vegna er ég bjartsýnn á að okkur muni vegna vel í framtíðinni að takast á við breytingar og nýjar áskoranir.

Gerum það sem við gerum best – framleiða íslensk gæði. Höldum áfram að stuðla að uppbyggilegri umræðu, leggja til lausnir og vinna að raunverulegum umbótum, íslensku samfélagi til heilla. Þannig verðum við í fremstu röð.

Hér frammi er boðið upp á léttar veitingar undir ljúfum tónum frá sjálfum Verksmiðjustjóranum, Daða Frey. Gjörið svo vel og þakka ykkur fyrir komuna. Iðnþingi 2019 er slitið.