Stóra málið er skortur á framboði lóða
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Morgunblaðinu um nýja greiningu SI um íbúðamarkaðinn sem byggir á könnun meðal verktaka sem byggja íbúðir í eigin reikning þar sem kemur meðal annars fram að verktakar vænti aukningar í fjölda íbúða í byggingu þrátt fyrir lóðaskort. Sigurður segir að sala á nýjum íbúðum hafi gengið betur eftir að Grindvíkingar komu inn á fasteignamarkaðinn. „Við höfum séð það í gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun HMS hvernig verk hafa stöðvast á ákveðnum byggingarstigum en eftir þessa innspýtingu hefur það gefið verktökunum rými til að fara í ný verkefni.“ Þegar Sigurður er spurður hvort verið sé að byggja rétt og hvort geti verið að Grindavíkurinnspýtingin hafi gefið fölsk skilaboð um að markaðurinn sé að taka við sér svarar hann: „Þetta er góð spurning því vaxtastigið er ennþá mjög hátt. Við höfum séð verðhækkanir á síðustu 12 mánuðum umfram hækkun verðlags og það hefur hvatt menn til að fara aftur af stað.“ Jafnframt segir Sigurður að lóðaverð hafi hækkað og gjaldtaka sveitarfélaganna aukist umfram gatnagerðargjöldin en stóra málið sé skortur á framboði lóða. „Verðið er eitt en hitt er að ekki hefur verið hægt að fá lóðir. Svo er hitt að stærð verkefnanna er þannig að það er ekki nema á færi stórra fjárfestingafélaga að ráðast í uppbyggingu, þar sem sveitarfélögin hafa lagt áherslu á svæði með mjög mörgum íbúðum.“
Skynsamlegra að beina framleiðslugetu í íbúðauppbyggingu
Þá kemur fram í Morgunblaðinu að Sigurður fagni því að borgarstjórinn í Reykjavík sé að boða uppbyggingu á minni verkefnum í Grafarvogi sem kynnt hafi verið í síðustu viku og til standi að bjóða upp á sambærileg verkefni í öðrum hverfum borgarinnar. Þegar hann er spurður hvort þetta sé nóg og hvort þurfi ekki að byggja nýtt hverfi til að mæta þörfinni svarar hann: „Þetta er góðra gjalda vert en það þarf meira til ef mæta á þörfum landsmanna. Við höfum haft áhyggjur af því að þegar vextir lækka þá muni húsnæðisverð hækka vegna þess að of fáar íbúðir koma inn á markaðinn, sem mun auka enn frekar á þennan þrýsting. Það sem hefur hægt á uppbyggingunni er fjármagnskostnaðurinn, skortur á lóðum og síðast en ekki síst lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu iðnaðarmanna úr 60% í 35%. Þetta er dæmi um misráðna stefnubreytingu stjórnvalda og það hefði verið skynsamlegra að beina framleiðslugetunni í íbúðauppbygginguna því það er húsnæðisverðið sem hefur drifið verðbólguna áfram undanfarin misseri.“
Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins flöskuháls
Einnig kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins að það komi fram í könnuninni að lóðagjöld og vextir séu 29% af byggingarkostnaði, lóðakostnaður og hönnunarkostnaður sé um fjórðungur af byggingarkostnaði og að sá kostnaður falli til áður en hægt sé að hefja framkvæmdir og beri vexti á verktíma. Sigurður segir svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins vera orðið flöskuháls. „Það væri skynsamlegt að stækka hverfið í Úlfarsárdal en þá þyrfti að færa vaxtarmörkin. Til þess að það sé hægt þurfa sveitarfélögin að vera sammála en Reykjavík hefur ekki léð máls á því. Svæðisskipulagið er frá 2014 og miðar við ákveðnar forsendur frá þeim tíma. Fjölgunin hefur orðið miklu meiri en spár gerðu ráð fyrir en skipulaginu hefur ekki verið breytt til að mæta því.“
Morgunblaðið / mbl.is, 4. júlí 2024.