Fréttasafn16. jan. 2018 Almennar fréttir

Stórfjölskyldan safnar álinu í sprittkertunum

„Það gengur mjög vel að safna álinu í sprittkertunum,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir sviðsstjóri rekstrar hjá Samtökum iðnaðarins, í umfjöllun á mbl.is um endurvinnsluátakið á áli í sprittkertum. Samtök iðnaðarins eru meðal þeirra sem standa að baki átakinu ásamt Samáli, Endurvinnslunni, Furu, Grænum skátum,  Íslenska gámafélaginu, Málmsteypunni Hellu, Plastiðjunni Bjargi – iðjuþjálfun og Sorpu.

Í viðtalinu á mbl.i segir Ingibjörg að það sé auðvelt að safna í skammdeginu um jólin, það sé besti tími ársins en að hún hafi aðeins verið að vandræðast með geymslustað í upp­hafi. „En svo fann ég fallegt box úr áli, sem er gaman að hafa uppi á bekk. Það skiptir máli, því ef það er vesen að koma þessu fyrir, þá er hætta á að það farist fyrir að flokka.“

Það er ekki bara Ingibjörg sem leggur sitt af mörkum ásamt eiginmanninum Magnúsi Geir Þórðar­syni og fimm börnum, heldur tekur stórfjölskyldan þátt í átakinu og segir Ingibjörg frá því að amma hennar taki líka þátt. Hún segir að amma hennar hafi komið með risapoka eftir jólin og beðið hana um að koma því á réttan stað. Á mbl.is er sagt frá því að 540 sprittkerti dugi til að klæða eitt stykki MacBook Pro og með 700 sprittkertabikurum má búa til pönnukökupönnu hjá Málmsteypunni Hellu.

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Almenn vitunarvakning fyrir flokkun og endurvinnslu

Á mbl.is er einnig rætt við Birgir Ásgeir Kristjánsson, framkvæmda­stjóri umhverfissviðs hjá Íslenska Gámafélaginu, sem er meðal þeirra sem standa að endurvinnsluátakinu. „Það hefur verið mikil og jákvæð umræða í kringum endurvinnsluátakið á álinu í sprittkertunum og til þess er leikurinn auðvitað gerður,“ segir Birgir.  Hann segist finna fyrir almennri vitundarvakningu fyrir flokkun og endurvinnslu. „Það má segja að þetta hafi verið stigvaxandi undanfarin ár. Fólk verður jákvæðara og jákvæðara. Það er orðið sjálfsagt að reyna að koma því til endurvinnslu sem við losum okk­ur við. Enda gerir almenningur sér grein fyrir því að við þurfum að endurvinna og nýta hráefni betur,“ segir Birgir á mbl.is.

Nánar á mbl.is.