Fréttasafn



  • Mannvirki

5. maí 2016 Mannvirki

Stórt skref stigið í átt að lækkun byggingarkostnaðar

Samtök iðnaðarins fagna þeirri breytingu sem gerð hefur verið á byggingareglugerð og undirrituð hefur verið af umhverfis- og auðlindaráðherra. Þar er verið að stíga stórt skref í þá átt að gera byggingareglugerðina sveigjanlegri sem gerir hönnuðum og framleiðendum kleift að finna bestu lausnirnar við byggingaframkvæmdir. Með breytingunum er verið að koma til móts við kröfur samtakanna um einföldun regluverks sem getur leitt til verulegrar lækkunar byggingarkostnaðar á litlum íbúðum ætlaðar einum eða tveimur einstaklingum.

Samtök iðnaðarins telja þó að betra hefði verið að ráðuneytið hefði ekki fallið frá fyrstu reglugerðardrögum þar sem gert var ráð fyrir að dregið væri úr rýmiskröfum fyrir allar íbúðir óháð stærð þeirra. En í reglugerðinni eru tilslakanir í rýmiskröfum einungis látnar ná til íbúða sem eru allt að 55 fermetrar að stærð. Ganga hefði átt lengra í breytingunum og láta þær ná til allra íbúða eins og drögin gerðu ráð fyrir eða í það minnsta til íbúða allt að 90 fermetra að stærð enda er mikill skortur á íbúðum í þeim stærðarflokki sem henta ungu fjölskyldufólki með tvö börn eða fleiri. Með takmörkunum við íbúðir allt að 55 fermetrum er verið að missa af tækifærum til að uppfylla þarfir ungs fjölskyldufólks.

Með reglugerðinni eru kröfur um lágmarksstærðir rýma í íbúðum felldar brott sem veitir ákveðið frelsi við útfærslu hönnunar. Breytingarnar miða fyrst og fremst að því að auka sveigjanleika við gerð íbúðarhúsnæðis þannig að lágmarksstærð íbúðar sem er eitt herbergi getur minnkað verulega. Breytingarnar lúta einnig að því að minniháttar framkvæmdum sem undanþegnar eru byggingarleyfi fjölgar og verða þær í stað þess tilkynningarskyldar.  Þá eru gerðar ákveðnar breytingar varðandi bílastæði, sorpgeymslur og loftræstingu íbúða.

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er hafinn undirbúningur að gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, og skipulagslögum, nr. 123/2010, þar sem áhersla verður lögð á einföldun stjórnsýslu byggingarmála með lækkun byggingarkostnaðar vegna íbúðarhúsnæðis að leiðarljósi. Mikilvægt er að Samtök iðnaðarins komi að þeirri undirbúningsvinnu.