Fréttasafn



8. apr. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Stuðla þarf að stöðugri uppbyggingu íbúðahúsnæðis

Árni Sigurjónsson, formaður SI, sagði meðal annars í ávarpi sínu á fundi Samtak iðnaðarins, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Landsneti, sem haldinn var í Hofi á Akureyri 7. apríl að aukið samstarf byggingariðnaðar, ríkis og sveitarfélaga væri nauðsynlegt til þess að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði, sem náist aðeins fram með því að stuðla að stöðugri uppbyggingu íbúðahúsnæðis.

Hér fyrir neðan fer ávarp formanns SI í heild sinni:

Kæru gestir,

Ég býð ykkur öll velkomin á þennan fund Samtaka iðnaðarins, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Landsnets um innviði á Norðurlandi, undir yfirskriftinni „Áskoranir í íbúðauppbyggingu og orkuöflun“.

Það er okkur mikið ánægjuefni að vera hér á Akureyri í dag og ræða þessi brýnu mál, sem skipta bæði almenning og atvinnulíf miklu máli, frá ýmsum hliðum.

Það er óhætt að segja að fyrsta skýrsla Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi sem kom út síðla árs 2017 hafi haft mikil áhrif. Í fyrsta sinn var með heildstæðum hætti varpað ljósi á stöðu mismunandi flokka innviða á Íslandi og mat lagt á uppsafnaða viðhaldsþörf þeirra. Frá þeim tíma hefur umræðan um innviði tekið stakkaskiptum og þroskast á grundvelli þeirra sviðsmynda sem dregnar voru upp í skýrslunni.

Fyrir rúmu ári kom svo út ný skýrsla þar sem rýnt var í stöðuna á nýjan leik og hún endurmetin frá fyrstu skýrslunni. Þar kom fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða væri 420 milljarðar króna, eða sem nam 14,5% af landsframleiðslu. Þrátt fyrir verulegt átak af hálfu stjórnvalda og auknu fjármagni hafi verið veitt til viðhalds og uppbyggingu innviða frá árinu 2017, er okkur öllum ljóst að sú skuld, sem stofnað var til með slælegu viðhaldi á aðhaldsárunum eftir fjármálahrunið, er enn alltof há. Við erum hins vegar á réttri braut og verulegur árangur hefur náðst, en áfram er verk að vinna.

Við gerum þá kröfu að engir hlekkir í þessari mikilvægu keðju bresti, en þegar það gerist erum við rækilega minnt á það hversu háð við erum innviðunum. Það á ekki síst við um orkuinnviðina, eins og Norðlendingar hafa fengið að reyna með reglulegu millibili.

Samtök iðnaðarins tileinka þetta ár grænni iðnbyltingu á Íslandi. Ein af forsendum þess að við náum að grípa til raunhæfra aðgerða í loftslagsmálum er að hraða orkuskiptum. Þó við njótum þess að hafa forskot á flestar aðrar þjóðir á grundvelli öflunar og nýtingar endurnýjanlegrar orku til áratuga, liggur fyrir að auka þarf raforkuframleiðslu á Íslandi verulega, ætli Íslendingar sér að vera virkir þátttakendur í þessari grænu byltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum. Markmiðum Íslands um kolefnishlutleysi og að við verðum fyrst ríkja óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 verður einfaldlega ekki náð nema orkuskipti verði möguleg.

Í byrjun síðasta mánaðar var kynnt skýrsla starfshóps orku-, umhverfis- og loftslagsráðherra um stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum. Skýrslan markar mikil tímamót í umræðu um orku- og loftslagsmál. Hún dregur fram staðreyndir og sviðsmyndir sem nauðsynlegt er að leggja til grundvallar næstu skrefum og framtíðarákvörðunum. Þar kemur fram að loftslagsmarkmiðin þurfi að móta betur orkuframleiðslu og orkuflutning, sem er grunnur að því hversu vel okkur muni takast að framkvæma orkuskipti í samfélaginu. Þá kallar orkuöryggi á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi, ekki síst til að lágmarka sóun og tryggja að blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf fái þrifist hringinn í kringum landið.

Kostum í orkuöflun hefur fjölgað verulega og þeim mun halda áfram að fjölga á grundvelli grænu iðnbyltingarinnar. Fullt sjálfstæði í orkumálum er raunhæft markmið með aukinni orkuöflun innanlands, sem er mikið hagsmunamál fyrir landsmenn alla. Mín bjargfasta trú er að græna iðnbyltingin muni gera okkur kleift að taka stór og markviss skref í betri sátt um vernd og nýtingu landsins og þeirra náttúruauðlinda sem við höfum yfir að ráða. Þá er einsýnt að sú orkukreppa sem nú ríkir í Evrópu muni ýta undir enn hraðari þróun og aukna nýsköpun í orkumálum, þar sem íslenskt hugvit þarf að láta ljós sitt skína. En lykilatriðið er að hefjast handa strax, eitt markvisst skref í einu. Samtök iðnaðarins munu svo sannarlega leggja sín lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða.

Húsnæðismál verið mikið í deiglunni síðustu ár. Verðhækkanir eru meiri og skarpari en við höfum áður séð, sem stafar einkum af ójafnvægi framboðs og eftirspurnar og lóðaskorti. Þetta er ekki einkamál höfuðborgarsvæðisins, því íbúðamarkaður á Norðurlandi og í öðrum landshlutum hefur ekki farið varhluta af þessari stöðu. Átakshópar hafa verið skipaðir til að stuðla að lausn þessa vanda, en sannast sagna á uppbygging húsnæðis ekki að vera átaksverkefni. Þær endalausu upp- og niðursveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hérlendis um langa hríð eru ekki boðlegar. Aukið samstarf byggingariðnaðar, ríkis og sveitarfélaga er nauðsynlegt til þess að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði, sem næst aðeins fram með því að stuðla að stöðugri uppbyggingu íbúðahúsnæðis.

Samtök iðnaðarins hafa staðið fyrir talningu á íbúðum í byggingu á landinu öllu í fjöldamörg ár undir einbeittri stjórn Friðriks Á. Ólafssonar, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI. Ótrúlegt en satt hafa þessar talningar verið einu áreiðanlegu upplýsingarnar um hversu mikið íbúðarhúsnæði er í byggingu hérlendis hverju sinni. Gott og árangursríkt samstarf okkar við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun síðustu ár er liður í því að færa keflið varðandi stöðu þessara mála yfir til stjórnvalda og á tækniöld ætti það í raun að vera sjálfsagt mál að tölur um íbúðabyggingar séu aðgengilegar í rauntíma hverju sinni. Þróun mannvirkjaskrár og gagnagrunns í kringum húsnæðisáætlanir sveitarfélaga hjá HMS munu þar spila stórt hlutverk. Við bindum miklar vonir að þetta raungerist sem allra fyrst. Þá mun sameining málaflokka innan stjórnsýslunnar sem snerta húsnæðis- og byggingamál vafalítið losa um ýmsa flöskuhálsa, ryðja burt hindranir og einfalda regluverk, sem eru lykilskref í átt að skilvirkari og stöðugri markaði.

Ég hlakka til að hlýða á erindi dagsins og halda áfram þessari mikilvægu umræðu, sem mér finnst vera að breytast til batnaðar frá því sem verið hefur. Samhengi hlutanna og skýr markmið skipta þar miklu máli. Orð eru til alls fyrst en þau mega sín þó lítils, ef ekki fylgja markvissar aðgerðir. Þó við horfum fyrst og fremst til ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum, höfum við öll, hvert og eitt, hlutverki að gegna og getum í sameiningu stuðlað að aukinni sátt um þau skref sem þarf að taka í framtíðaruppbyggingu innviða á Íslandi.

DST_4818Árni Sigurjónsson, formaður SI, flutti ávarp á fundi um innviði á Norðurlandi sem haldinn var í Hofi á Akureyri.