Fréttasafn



30. sep. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Stýrivextir hækka vegna skipulagsmála í Reykjavík

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Bítinu á Bylgjunni um íbúðamarkaðinn sem segir að það sé ennþá fækkun á íbúðum í byggingum og það sé þróun sem hafi verið lengi. „Þetta er stórkostlegt vandamál vegna þess að það er verið að byggja miklu minna en þarf. Góðu fréttirnar eru þó þær að það er meira af verkefnum sem eru að fara af stað. Á næstu árum vonandi batnar þetta ástand en við erum ekki að sjá það núna og á næsta ári. Það tekur tvö ár eða meira að byggja íbúðir og skipulagsferli og annað tekur tíma.“

Fyrirbyggjandi aðgerðir Seðlabankans

Þegar Sigurður er spurður út í ákvörðun Seðlabankans um setja reglur um hámark greiðslubyrðar um fasteignalán í hlutfalli við tekjur neytenda segir hann að það sé óhjákvæmilegt. „Það skiptir kannski ekki miklu máli núna heldur eru þetta fyrirbyggjandi aðgerðir eins og við skiljum þetta. Það góða við þetta er að þá þarf Seðlabankinn vonandi ekki að hækka stýrivextina eins mikið. Það er auðvitað hin hliðin á peningnum að fasteignaverð hækkar og það þýðir að verðbólga verður meiri.“ 

Hann segir að þar sem húsnæðiskostnaðurinn sé inn í vísitölunni hækki verðbólgan og Seðlabankinn þurfi að bregðast við því með því að hækka vexti. „Með þessari þróun þá finnum við það öll um hver mánaðarmót að það eru færri krónur eftir í veskinu. Það er auðvitað áhugavert að heyra skýringar seðlabankastjóra á þessu sem vísar í eins og hann orðar það að það þurfi að brjóta land í Reykjavík frekar undir byggð.“

Sigurður segir að með öðrum orðum þá sé það staðan að stýrivextir á Íslandi hafi verið að hækka fyrst og fremst vegna skipulagsmála í Reykjavík. „Auðvitað er það þyngra en tárum taki að það sé ekki hægt að haga málum öðruvísi en að það brjótist út til óheilla fyrir alla landsmenn.“

Tómar hillur hjá Reykjavíkurborg

Þáttastjórnendurnir, Heimir Karlsson og Gunnlaugur Helgason, segja að í þættinum hjá þeim hafi verið stjórnmálamaður sem hefði sagt að nægar lóðir væri í hillum Reykjavíkurborgar. Sigurður segir að þegar hafi verið hringt í borgina til að athuga með það þá hafi komið í ljós að hillan var tóm. „Það hefur verið lítið framboð á lóðum á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna hefur uppbyggingin verið hröð í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Til dæmis á Akranesi er tvöföldun á íbúðabyggingum og það sama er í Árborg þar sem er gríðarleg aukning.“

Skortur á íbúðum hefur keðjuverkandi áhrif

Sigurður segir að það sé samdráttur í byggingu íbúða. „Hápunktinum var náð í byrjun árs 2019 þegar um 5.000 íbúðir voru í byggingu. Við sjáum að það er mikill munur á 5.000 íbúðum og 3.400 íbúðum núna.“ Í umræðunum kemur fram að skilaboðin hafi ekki náð til stjórnenda í borginni. „Allavega ekki það mikið að það sé gripið til aðgerða.“

Þegar Sigurður er spurður hvaða þýðingu þetta hefur fyrir samfélagið og efnahagslífið segir hann að það þýði að hækkun á húsnæðisverði leiði út í verðlag og verðbólgu. „Við þekkjum afleiðingar þess, það þýðir að vextir hækka og það kemur illa við okkur. Við borgum meira fyrir lánin. Þetta er allt keðjuverkandi.“ Hann segir að þetta hafi ýmis áhrif og geti líka komið við vinnumarkaðinn.

Sameina þarf málin í einu innviðaráðuneyti 

Sigurður segir að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji að það þurfi 3.000-3.500 nýjar íbúðir inn á markaðinn á hverju ári en spá Samtaka iðnaðarins gerir ráð fyrir  rúmlega 2.000 íbúðum á landinu á næsta ári. Hann segir að vandamálið sé það að það vanti ábyrgð og yfirsýn. „Þetta snertir svo marga aðila.“ Hann nefnir að sveitarfélögin í landinu séu mörg og málin séu hjá nokkrum ráðuneytum og stofnunum. „Kerfið er of flókið og enginn einn sem á þetta mál. Þess vegna höfum við talað fyrir því að núna þegar verið er að mynda nýja ríkisstjórn að þá þurfi að búa til innviðaráðuneyti þar sem við erum með húsnæðis- og byggingarmálin og stóra málið er skipulagsmálin. Sameina þarf þetta allt í einu innviðaráðuneyti og þá er einn ráðherra sem ber ábyrgð á þessu.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan, 30. september 2021.