Fréttasafn19. ágú. 2015 Starfsumhverfi

Stýrivextir hækkaðir í morgun – mikill vaxtamunur skerðir samkeppnishæfni

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti í morgun um 0,5 prósentur og var sú hækkun í takt við flestar spár. Segir bankinn að nýgerðir kjarasamningar og ríflegur hagvöxtur í ár og náinni framtíð skýri öðru fremur þessa hækkun. Á sama tíma eru vextir í nágrannalöndum okkar lágir og vaxtamunurinn því afar mikill. Byrðin sem íslenskt atvinnulíf þarf að bera vegna hárra vaxta er óásættanleg. Vextir á Íslandi eru nú á bilinu 4-6% hærri en í nágrannalöndum okkar.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir þessa ákvörðun bankans ekki koma á óvart en hins vegar séu atriði sem Seðlabankinn horfi ekki til. „Það er vissulega rétt að nýir kjarasamningar eru ríflegir en það er sannarlega ekki sjálfgefið að þeim hækkunum verði ýtt út í verðlag. Hærri vextir gera fyrirtækjum raunar erfiðara um vik að hagræða og mæta launahækkunum. Olíuverð hefur lækkað mikið og það getur haft jákvæð áhrif á verðlagsþróun hér. Síðan á eftir að koma í ljós hvaða áhrif viðskiptabann Rússa hefur á efnahag okkar en jafnan eru það ekki heppileg viðbrögð að hækka vexti og ýta undir styrkingu á gengi krónunnar á sama tíma og mikilvægar útflutningsgreinar eiga erfitt uppdráttar. Ekki má heldur gleyma því að hærri vextir hækka kostnað fyrirtækja sem aftur getur leitt út í verðlagið”, segir Almar.

Horfur eru á að hagvöxtur á þessi ári verði í kringum 4% en nokkru lægri á næsta ári samkvæmt áætlun Seðlabankans. Samsetning hagvaxtarins er hins vegar áhyggjuefni. „Hagvöxtur er ennþá að of litlu leyti borinn uppi af fjárfestingu. Það er áberandi að Seðlabankinn horfir fyrst og fremst á að sporna gegn einkaneyslu, en á sama tíma er fjárfesting ónóg og hærri vextir minnka hvata til fjárfestinga. „Staðan er sú að fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi og sprotafyrirtæki sem stefna á alþjóðlega markaði hafa meiri hvata til að byggja sína starfsemi upp annars staðar en á Íslandi. Samkeppnishæfni okkar minnkar einfaldlega með hækkandi vaxtamun“, segir Almar.

Það er fagnaðarefni að Seðlabankinn vilji takmarka svokölluð vaxtamunarviðskipti erlendra fjárfesta í ljósi hás vaxtamunar. „Við hljótum hins vegar að að óska eftir umræðu um þá staðreynd að þessi sami hái vaxtamunur kyndir undir flótta fyrirtækja og starfseininga frá landinu. Slík atburðarás kostar okkur langtíma hagvöxt og minni fjölbreytni í atvinnulífi“ segir Almar að lokum.