Fréttasafn



14. okt. 2022 Almennar fréttir

Styrkja á framboðshlið hagkerfisins og styðja við vöxt

Beita á ríkisfjármálum með virkum hætti til að renna stoðum undir stöðugleika og aukna verðmætasköpun, forgangsraða í fjármálum ríkissjóðs með áherslu á þá þætti sem styrkja framboðshlið hagkerfisins og styðja við vöxt nýrra útflutningsstoða. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023. Einnig segir þar að með áherslu á menntun, innviði, nýsköpun og fleiri þætti sem skapi samkeppnishæfara starfsumhverfi fyrirtækja megi auka framleiðni, stöðugleika og verðmætasköpun.

Stöðugleiki og aukin verðmætasköpun

Í umsögninni kemur fram að verðbólgan sé mikil og slakinn sem myndaðist við niðursveifluna sem hófst 2019 sé horfinn úr hagkerfinu. Verkefni hagstjórnar sé um þessar mundir ekki síst að leggjast á árar með Seðlabanka Íslands og aðilum vinnumarkaðarins í því að skapa stöðugleika, þ.e að ná verðbólgunni niður en halda á sama tíma uppi hagvexti og háu atvinnustigi.

Horfur séu á því að úr verðbólgunni dragi nokkuð hratt á næstunni og að hagvöxtur hægi á sér umtalsvert. Raunar sé sú þróun þegar hafin en verðbólgan hafi hjaðnað nokkuð undanfarið og vísbendingar séu um að spennan í þjóðarbúskapnum hafi náð hámarki. Spáð sé hægum hagvexti á næsta ári. Þá segir í umsögninni að við eigum að geta gert betur en það. Mikilvægt sé að stjórnvöld gæti að því við þessar aðstæður að styrkja vaxtargetu hagkerfisins og byggi áfram undir nýjar stoðir með tilheyrandi hagvexti og fjölgun starfa líkt og komi fram í frumvarpinu.

Draga þarf úr íþyngjandi álögum

Álögur hins opinbera á fyrirtæki og heimili í landinu í formi skatta og gjalda eru miklar í samanburði við flest önnur ríki. Bent er á í umsögninni að álögur ríkissjóðs á íslensk fyrirtæki séu íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Háir skattar og gjöld séu byrði fyrir fyrirtækin að bera í samkeppni. Með lækkun tryggingagjalds og fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði megi skapa samkeppnisforskot. Einnig skipti miklu að eftirlits- og þjónustugjöld séu lág. Með lækkun á þessum álögum megi efla fyrirtækin til aukinnar verðmætasköpunar.

Áherslur á nýsköpun fagnaðarefni

Samtök iðnaðarins hafa lagt ríka áherslu á eflingu nýsköpunar undanfarin ár sem er að mati samtakanna lykillinn að öflugu og fjölbreyttu hagkerfi til framtíðar. Í umsögninni er fagnað áherslum í frumvarpinu á nýsköpun og eflingu hugverkaiðnaðar og sérstaklega þeim fyrirætlunum stjórnvalda að viðhalda endurgreiðslukerfi vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Útgjöld til málaflokksins muni bera ríkulegan ávöxt eins og fram komi í frumvarpinu.

Gæta þarf hófs í álagningu umhverfisgjalda

Í umsögninni er sagt að gæta þurfi hófs við álagningu umhverfisgjalda og um leið tryggja að þau skili sér í umhverfis- og loftlagsaðgerðir. Þannig verði komið á grænum hvötum í samræmi við þau umhverfisgjöld sem atvinnulíf sé að greiða og þau stuðli að umbótaverkefnum hjá atvinnulífi, sér í lagi nýsköpun og grænna fjárfestinga.

Samdráttur í innviðafjárfestingum vekur ugg

Í ljósi þess að öflugir innviðir styrkja framboðshlið hagkerfisins lýsa Samtök iðnaðarins í umsögninni áhyggjum af því að dregið sé úr fjárfestingum ríkisins í frumvarpinu. Samdráttur í innviðafjárfestingum ríkisins, m.a. í vegakerfinu skv. frumvarpinu, veki ugg um að framundan sé tímabil þar sem þörf efnahagslífsins og samfélagsins fyrir innviðauppbyggingu verði ekki mætt með fullnægjandi hætti. Mikilvægt sé að mati SI að fallið sé frá þessum niðurskurði.

Setja þarf nýjan Tækniskóla á dagskrá

Fjölgun iðnmenntaðra á vinnumarkaði styrkir framboðshlið hagkerfisins. Í umsögninni er bent á að það séu vonbrigði að hvergi sé minnst á nýjan Tækniskóla í fjármálafrumvarpinu. SI hvetja stjórnvöld til þess að setja nýjan Tækniskóla á dagskrá enda rími það við helstu áherslur fjármálaáætlunar um nám í takti við þarfir samfélags og fjölgun útskrifaðra úr starfs- og tækninámi. SI hvetja stjórnvöld til þess að auka framlög í Vinnustaðanámssjóð, en við blasir að framlög þyrftu að vera allt að 50% hærri en þau eru, ef miðað er við þá fjölgun sem orðið hefur á starfsnámsnemum.

Hér er hægt að lesa umsögn SI í heild sinni.