Fréttasafn



9. ágú. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Sveitarfélögin seilast dýpra í vasa fyrirtækja og almennings

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Bítinu á Bylgjunni um nýja greiningu SI þar sem kemur fram að um er að ræða mikla hækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Ingólfur segir að um sé að ræða 50% hækkun á 10 árum að raunvirði og á næsta ári sé áætlað að skattarnir verði 39 milljarðar króna. „Kerfið er þannig byggt upp að sveitarfélögum er í sjálfsvald sett að ákveða skattprósentuna, það er reyndar ákveðið hámark þar, en þau hafa möguleika á að vera með hana lægri ef þau vilja. En í grunninn er þetta byggt á virði atvinnuhúsnæðis í landinu sem taka þá breytingum í þeim verðbreytingum sem eiga sér stað á milli ára. Undanfarin ár hefur verið mikil hækkun á verði atvinnuhúsnæðis, líkt og með íbúðarhúsnæði, það hefur þá leitt til þess að skattstofninn hefur blásið út. Þegar prósentunni er haldið óbreyttri þá verður niðurstaðan einfaldlega sú að skatttekjurnar hækka og hækka mjög hratt. Þetta er að gerast. Við erum að sjá að með þessum hætti eru sveitarfélögin að taka stærri hluta verðmætasköpunar hagkerfisins. Í raun að seilast dýpra í vasa fyrirtækja og almennings í landinu.“

Hærra hlutfall hér en í löndunum í kringum okkur

Ingólfur segir að þetta hlutfall af landsframleiðslu sé komið í 0,8%. „Sem er mjög hátt þegar við berum okkur saman við löndin í kringum okkur. Að jafnaði er þetta 0,5% í ríkjum OECD. Í Noregi, ef við förum í löndin sem eru í kringum okkur, er þetta 0,1%. Í Svíþjóð er þetta 0,3% og í Finnlandi 0,4%. Þannig að þetta er talsvart hærra hér heldur en í löndunum í kringum okkur.“ 

Kemur niður á samkeppnishæfni

Ingólfur segir að þetta komi niður á samkeppnishæfni okkar fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum og þar af leiðandi innlendri verðmætasköpun. „Þetta kerfi er meingallað í uppbyggingu. Það er með innbyggðan skattatjakk í sér getur maður sagt. En líka er þarna ákveðinn hvati til að skapa skort á lóðum sem hefur jú verið vandamál í mörgum sveitarfélögum í atvinnuhúsnæði líkt og með íbúðarhúsnæði.“

Skortur á lóðum eykur skatttekjur

„Með því að skapa skort á lóðum þá geturðu ýtt verði íbúðarhúsnæðis upp og atvinnuhúsnæðis og þar með aukið þínar eigin skatttekjur. Valdið hærri verðbólgu, kallað á hærri stýrivexti sem kemur niður á öllum almenningi í landinu. Það er ekki gott fyrir byggingarkerfið sem hefur svona neikvæða hvata í sér. Það er það sem við erum að kalla á að þessu sé breytt,“ segir Ingólfur meðal annars.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Ingólf í heild sinni.

Bylgjan, 9. ágúst 2024.