Fréttasafn3. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Sveitarfélögin tefja íbúðauppbyggingu

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í kvöldfréttum RÚV um íbúðamarkaðinn og segir í inngangi fréttarinnar að Samtök iðnaðarins telji að stærstu sveitarfélögin tefja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, það vanti fleiri lóðir og einfaldara skipulagsferli. Horfurnar til framtíðar séu slæmar.

Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður RÚV, segir í fréttinni að í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins séu viðraðar áhyggjur af því að það séu um fjórðungi færri íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu en í fyrra. Þá hafi ekki verið minna byggt á landsvísu í 4 ár og þetta auki á framboðsskort á fasteignamarkaði. Það sé mat samtakanna að óbreyttu haldi íbúðum í byggingu áfram að fækka. Arnhildur spyr Sigurð hvort hlutdeildarlánin breyti einhverju og hvort þau séu hvetjandi fyrir byggingarverktakann? „Jú svo sannarlega, hlutdeildarlánin eru góðra gjalda verð og hjálpa fólki að komast inn á markaðinn og það er mjög gott og eru um leið hvati fyrir verktaka til þess að byggja hagkvæmar íbúðir en þá þurfa líka að vera til lóðir og skipulag af hálfu sveitarfélaganna. Sveitarfélögin þurfa að gera ráð fyrir slíku húsnæði á sínu svæði hvert fyrir sig. Annars ef þau gera það ekki þá verður engin uppbygging á svona íbúðum,“ segir Sigurður.

Í fréttinni kemur fram að Sigurði finnist ríkið hafa staðið sig síðustu ár og segir atvinnulífið klárt í slaginn en það séu sveitarfélögin sem tefji, lóðaskortur, hátt flækjustig og seinagangur í skipulagsmálum. Þá hafi sveitarfélögin farið of hægt í að innleiða rafræna stjórnsýslu í byggingariðnaði. „Það að þurfa að skila inn teikningum á pappír bara svo hægt sé að undirrita teikningarnar með handskrift og svo framvegis. Þetta er alltof þungt í vöfum.“ Hann segir þetta ekki gilda um öll sveitarfélög, sum hafi staðið sig vel en stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þurfi að taka sig á. „Vandinn stafar af því að það eru svo margir þarna sem bera ábyrgð, sveitarfélögin eru mörg og það getur auðvitað verið freistandi að líta þröngt á málin þannig að vandinn fer þá yfir á önnur sveitarfélög.“

RÚV, 1. maí 2021.