Fréttasafn



23. jún. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Sveitarfélögin úthluti lóðum í meira mæli

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Kastljósi RÚV um húsnæðismarkaðinn ásamt Drífu Snædal, forseta ASÍ. Fréttamaður RÚV, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, stýrði umræðunum. Sigurður segir að það vanti fólk til starfa í byggingariðnaði eins og í ýmsum öðrum greinum. „En af samtölum við okkar félagsmenn þá tökum við það út úr samtölunum að það er lóðaskortur sem er vandamál en þetta er margþættur vandi og það eru margir sem koma að málum. En það vantar fyrst og fremst lóðir og það þarf að breyta skipulagi. Þingið hefur gert sitt, aðilar vinnumarkaðarins ásamt stjórnvöldum fóru í aðgerðir í kringum síðustu kjarasamninga. Ríkið hefur að miklu leyti gert það sem stóð upp á það varðandi lagabreytingar og umgjörðina. En sveitarfélögin hafa ekki almennilega fylgt eftir. Þau eru mörg og ég trúi ekki öðru en að þau vilji vera hluti af lausninni.“ Sigurður segir að staðan sé býsna tvísýn. „Ef við horfum fram á veginn þá er þörf fyrir mikla uppbyggingu á Íslandi hvort sem það er húsnæði eða innviðir af öðrum toga.“

Vonbrigði að ekki hafi verið brugðist við fyrirsjáanlegri stöðu

Sigurður segir að  samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þá vanti allt að 4.000 nýjar íbúðir inn á markaðinn á hverju ári. „Á þessu ári og næsta er gert ráð fyrir að það komi um 3.000 íbúðir, þannig að það vantar upp á. Það sorglega við þessa stöðu er að hún var alveg fyrirsjáanleg. 2019 voru merki um það að íbúðum í byggingu byrjaði að fækka. Þannig að við og aðrir höfum bent á það síðan þá, í næstum því 3 ár, að þessi staða yrði núna ef ekkert yrði að gert. Vonbrigðin eru auðvitað þau að það hafi ekki verið brugðist við.“

Þegar þáttastjórnandi spyr Sigurð hvers vegna ekki sé verið að byggja á lóðum sem greint hefur verið frá að séu til fyrir 14.000 íbúðir svarar hann: „Það eru ýmsar skýringar á því. Ein skýringin er náttúrulega sú að mikið af þessum lóðum eru á hendi einkaaðila sem hafa það í hendi sér hvenær framkvæmdir fara af stað. Sveitarfélögin hafa ekki um þær lóðir að segja. Í öðrum tilvikum eru það bara sveitarfélögin sjálf sem geta úthlutað lóðum og þurfa að gera það í meira mæli. Leyfisveitingaferli og slíkt er líka að tefja.“

Þurfum að hefjast handa strax í fyrramálið

Þegar umræðuna beinist að hvar sækja eigi fólk til að vinna í uppbyggingunni segir Sigurður að það séu fáar greinar sem hafi jafnmikinn sveigjanleika eins og byggingariðnaður vegna þess að sveiflur í byggingariðnaði hafi í gegnum tíðina verið miklu meiri heldur en í hagkerfinu sjálfu. „Þannig að byggingariðnaðurinn er mjög vanur því að fækka fólki hratt og eins að bæta við fólki. Ég er sannfærður um að það finnast lausnir á því. Við sjáum það í þessu að það tekur tvö ár að byggja íbúðir sem segir okkur að við þurfum að hefjast handa strax í fyrramálið ef við ætlum að ná einhverjum tökum á stöðunni í framtíðinni.“

Hætta á að tími stöðnunar sé framundan

Sigurður segir einnig að ríkið, sérstaklega ráðherra málaflokksins, innviðaráðherra, hafi komið út með skýr skilaboð um áform um uppbyggingu á næstu árum, bæði 5 ára markmið og 10 ára markmið. „Sveitarfélögin hins vegar þurfa að koma með og ég sakna þess mjög að þau skuli ekki hafa sýnt meira á spilin. Þetta var mikið til umræðu fyrir kosningarnar en núna er tími aðgerða runninn upp. Ég held að almenningur geti ekki beðið neitt lengur. Hættan er sú að tími stöðnunar sé framundan. Vegna þess líka að verð á aðföngum hefur hækkað, auðvitað vantar fólk, það eru tafir í afhendingu, það er skortur á lóðum og svo framvegis. Það eru svo margir kraftar að verki á þessum markaði.“

Langflestir vilja standa sig vel

Í umræðu um slæman húsnæðiskost aðflutts vinnuafls líkt og hafi verið fjallað um segir Sigurður:  „Það er mikil umræða um þetta innan okkar raða og sem dæmi þá héldum við málþing um þetta með launþegahreyfingunni um daginn til að ræða hvernig hægt er að bregðast við. Auðvitað er það þannig að lang flestir vilja standa sig vel og eru að gera það en auðvitað eru alltaf einhverjir sem standa sig illa.“

Þá kemur fram í máli Sigurðar að þessi húsnæðisþörf sé ekki bara bundin við höfðuborgarsvæðið. „Hún er meira og minna um allt land. Það er kannski breyting frá því sem hefur verið undanfarin ár og jafnvel áratugi.“

Launahlutfall hér á landi með því hæsta

Í umræðu um launahlutfall fyrirtækja segir Sigurður að staða félaganna sé misjöfn. „Við sjáum félög sem hefur gengið vel, það eru líka félög sem hafa verið rekin með tapi eins og í fyrra. Það er allur gangur á því þannig að það sé eins staða hjá öllum. Varðandi launahlutfallið þá hefur það verið mjög hátt undanfarin ár þannig að í alþjóðlegum samanburði hefur launahlutfallið verið með því hæsta sem við sjáum. Sem er auðvitað umhugsunarefni, sérstaklega í þeim greinum sem eru í samkeppni við erlend fyrirtæki.“

RÚV, 22. júní 2022.

RUV-22-06-2022_2Drífa Snædal, Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Sigurður Hannesson.