Fréttasafn9. jan. 2017 Almennar fréttir

Sykurskattur mun ekki draga úr offitu

Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, kynnti í vikunni rannsókn sem hún segir sýna fram á að sykurskattar virki og dugi til að draga úr neyslu gosdrykkja. Rannsóknin beindist að því að skoða samband verðs og eftirspurnar eftir gosdrykkjum en það samband kalla hagfræðingar teygni. Það mælir hversu mikið eftirspurn breytist við tiltekna breytingu á verði og er m.a. notað til að meta áhrifamátt skattlagningar á viðkomandi vöru. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að við 1% hækkun á verði minnkar neyslan um 1%. Raunar fullyrðir Landlæknisembættið að teygni eftirspurnar sé 1% í frétt á vef sínum. Þetta hlýtur að vera rangt eða misskilningur. Ef verðteygni eftirspurnar er 1% eða 0,01 þýðir það að verðbreyting hafi nánast engin áhrif á eftirspurnina. Það þýddi að að gríðarlegir sykurskattar myndu engin áhrif hafa á neysluna samkvæmt þessari framsetningu. En það er væntanlega ekki það sem landlæknir er að reyna segja. Orðalagið sýnir hins vegar að tungutak hagfræðinnar er ekki öllum töm.

Hið rétta er að teygnin er 1 en ekki 1% samkvæmt þessum rannsóknum, sem þó hafa ekki verið birtar. Eru þessar niðurstöður nokkurn veginn í takti við aðrar rannsóknir sem mælt hafa teygni eftirspurnar eftir gosdrykkjum. Landlæknir leggur áherslu á í frétt sinni að skattalegar aðgerðir hækki verð á gosdrykkjum um 20% og muni það draga úr neyslu og þar með offitu.

En þetta er alls ekki svona einfalt.

Í fyrsta lagi er teygnin ekki línuleg. Áhrif 1% hækkunar sem ætti að draga úr eftirspurn um 1% eru ekki þau sömu og ef hækkunin er 20% eða jafnvel 100%. Þannig mun hlutfallsleg breyting á eftirspurn vera ólík eftir því hver verðbreytingin er.

Í öðru lagi þarf að huga að svokölluðum staðkvæmdaráhrifum. Ef hærri skattar á gos draga úr eftirspurn eftir vörunni munu neytendur leita í aðrar vörur til að fullnægja þörf sinni. Þannig er alls ekki sjálfgefið að neysla minnki – hún færist. Ef hins vegar skattar eru lagðar á allar óhollar vörur og ruslfæði benda rannsóknir til að neytendur taki á sig slíkar hækkanir. Lýðheilsuáhrif á tekjulægstu hópinn, sem oftar en ekki glímir frekar við offitu en aðrir, eru því minnst.

Í þriðja lagi er einn vandi sá að sykurskattar hitta mismunandi tekjuhópa fyrir. Rannsóknir benda til að hefðbundnir millitekjuhópar bregðist við skattahækkun á gosdrykkjum. Þeir tekjuhæstu bregðast lítið við en það sem mestu skiptir er að tekjulægsti hópurinn virðist ekki draga úr neyslu á gosi við hækkun skatta. Hins vegar munu þeir draga úr neyslu á öðrum vörum. Ástæðan fyrir þessari hegðun er nefnilega hið áðurnefnda teygnihugtak. Eftirspurn eftir gosdrykkjum er frekar óteygin sem þýðir að viðbrögð neytenda eru ekkert sérstaklega mikil þegar verð breytist. Þetta á ekki síst við þó hópa sem helst glíma við offitu.

Af skiljanlegum ástæðum vill landlæknir draga úr neyslu á óhollum vörum og hvetja til heilbrigðara lífernis. Það er þeirra hlutverk. Hins vegar er skattaleiðin sem þau leggja til ekki líkleg til árangurs.

Pistillinn á mbl.is.