Fréttasafn30. sep. 2020 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Tækifæri að þróa nýja tækni og aðferðir í loftslagsmálum

Umhverfismál og loftlagsbreytingar eru meðal helstu áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir og metnaðarfull markmið um að draga úr útblæstri er langtímaáskorun sem skapar tækifæri til þess að nýta hugvit og sköpunargáfu til að þróa nýja tækni og aðferðir sem mun nýtast til að gera hluti betur og öðruvísi. Þetta kemur fram í umsögn SI um drög að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem send hefur verið umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Samtökin leggja áherslu á eftirtalda þætti í áframhaldandi vinnu við uppfærða og endurskoðaða aðgerðaráætlun:

1. Gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs
2. Orkuskipti í vegasamgöngum og tæknihlutleysi
3. Innviðir fyrir virka ferðamáta
4. Loftslagssjóður
5. Kolefnisgjald
6. Eldsneytisframleiðsla og áburðargerð úr sláturafurðum
7. Fræðsla um loftslagsmál í skólum
8. Urðunarskattur og bann við urðun lífræns úrgangs
9. Útfösun flúorgasa
10. Minni matarsóun
11. Skil á umhverfisupplýsingum
12. Loftslagsáhrif byggingariðnaðarins
13. Uppbygging á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa

Í umsögninni kemur einnig fram að ef takast eigi að stemma stigu við loftslagsvanda, sem alþjóðlegt hagsmunamál, liggi fyrir að það þurfi að eiga sér stað orkuskipti, þar sem skipt sé úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Þar geti Ísland lagt mikið af mörkum. Metnaður stjórnvalda hljóti að liggja til þess að draga úr flækjustigi í kerfinu og greiða götu þeirra sem vilja standa að slíkri uppbyggingu.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.