Tækifæri í gervigreindarvinnslu fyrir Ísland og Danmörku
„Gervigreindin er auðvitað bara að tröllríða öllu um þessar mundir og það er búið að tala um gervigreind lengi en hún er einhvern veginn loksins að springa út. Við finnum það bara öll í okkar daglega lífi. Það er auðvitað gríðarleg og vaxandi orkuþörf vegna gervigreindarvinnslu og þar liggur mjög stórt tækifæri fyrir Ísland, og Danmörku, og tækifæri á samstarfi,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í frétt Vísis en Sigríður stýrði pallborðsumræðum um gervigreind á dansk-íslenskri ráðstefnu í Kaupmannahöfn í síðustu viku sem haldin var í tengslum við ríkisheimsókn forseta Íslands til Danmerkur. Í pallborðinu voru Anders Johanson hjá Grundfos, Björn Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Borealis Data Center, Peter Weinreich-Jensen, framkvæmdastjóri Siemens Energy, og Ríkarður Ríkharðsson hjá Landsvirkjun.
Tækfæri í grænni orkunýtingu
„Við sjáum það til dæmis að stóru tæknirisarnir þeir eru að setja af stað aftur kjarnorkuver, ekki sjálfir en eru að fara að kaupa kjarnorku og fleira, til að tryggja að þeir geti verið með græna orku í gervigreindarvinnslu,“ segir Sigríður í frétt Vísis og bendir á að þar felist tækifæri fyrir Ísland til að taka þátt í þróuninni í ljósi möguleika til grænnar orkunýtingar í þennan orkufreka iðnað. Sigríður segir að það sé aðallega út frá orkumálunum sem þetta sé bæði spennandi en þar sé líka hindrunin af því það þurfi gríðarlega orku í þessi verkefni.
Ein af miðstöðvum gervigreindarvinnslu í heiminum eða ekki?
Þá segir Sigríður í frétt Vísis: „Í fyrsta lagi er gagnaversiðnaðurinn núverandi á Íslandi, þau fyrirtæki sem eru nú þegar að reka gagnaver, að breytast mjög hratt um þessar mundir vegna aukinnar eftirspurnar vegna gervigreindar og þannig vinnslu. Þannig að gagnaversiðnaðurinn á Íslandi er að gjörbreytast, mjög hratt. Þannig að það verkefni sem er framundan er í rauninni bara, ætlum við að sækja þessi tækifæri og verða ein af miðstöðvum gervigreindarvinnslu í heiminum eða ekki? Það er kannski stóra pólitíska spurningin líka, hvert viljum við stefna í þessum efnum og viljum við vera miðpunktur í þessari þróun eða vera eftirbátar í henni. Þar komum við inn á einmitt grænu orkuna og fleiri tækifæri fyrir Ísland á þessu sviði.“
Hvernig ætlar Ísland að taka þátt í þróuninni
Þegar blaðamaður Vísis spyr Sigríður hvort væri ekki varasamt að fara of hratt af stað í þessa vegferð þar sem einnig sé talað um þær ógnir sem fylgi gervigreindinni svarar Sigríður: „Ég held að við séum ekki að fara að leysa það. Ef að Bandaríkin eða Evrópusambandið eða aðrir hafa áhyggjur af einhverjum ógnum þá verður einhver lagasetning væntanlega. En það getur vel verið að Kínverjarnir setji ekki hindranir. Þetta er auðvitað bara án landamæra þessi tækniþróun og auðvitað þurfum við að hafa það í huga, huga að siðferði og öðrum slíkum þáttum. En ég held að við Íslendingar séum ekki að fara að stoppa þessa þróun, þetta er spurning um hvernig við ætlum að taka þátt í henni.“
Vísir, 11. október 2024.
Ríkarður Ríkarðsson hjá Landsvirkjun, Anders Johanson hjá Grundfos, Björn Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Borealis Data Center, og Peter Weinreich-Jensen, framkvæmdastjóri Siemens Energy. Mynd/Michael Stub
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.