Fréttasafn



19. ágú. 2015 Nýsköpun

Tækifæri í tækni- og hugverkaiðnaði leyst úr læðingi

Ný framtíðarsýn og áhersluverkefni voru rædd á góðum fundi Samtaka iðnaðarins og Hátækni- og sprotavettvangs (HSV) með ráðherra, fulltrúum ráðuneyta og fyrirtækja í húsakynnum Orf Líftækni sl. fimmtudag.

Fundinn sátu Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, fulltrúar iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, forsætisráðuneytis, fulltrúar SI og stjórn HSV.

Tækni- og hugverkafyrirtæki og annar iðnaður afla í dag um 22% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Lausnir tækni- og hugverkaiðnaðarins eru til hagsbóta í öllum atvinnugreinum og auka verðmætasköpun og gæði.

Framtíðarsýn tækni- og hugverkafyrirtækja fram til 2020 var nýlega mótuð með þátttöku fyrirtækja úr starfsgreinahópum SI, fulltrúum þingflokka, nokkurra ráðuneyta og úr stuðningsumhverfinu. Í henni kemur fram sú meginstefna að Ísland sé tækni- og hugverkaland á alþjóðlegum markaði, stórt á sínum sérsviðum og með aukna framleiðni og arðsemi að leiðarljósi.

Fjármálaráðherra og fulltrúar ráðuneyta fögnuðu þessu framtaki tækni- og hugverkagreina. Fjármálaráðherra sagði nauðsynlegt að vekja athygli á tækifærum til verðmætasköpunar og umbóta í starfsumhverfinu. Hann tók vel í að vinna hraðar að umbótum í starfsumhverfi fyrirtækja og sagði gott samstarf og samskipti nauðsynleg í því sambandi. Hann benti á að nokkur af áhersluverkefnum greinarinnar væru nú þegar á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og telur að vel komi til greina að skoða hækkun og útvíkkun viðmiða við endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar. Bjarni benti einnig á að ef við ætlum að laða erlenda sérfræðinga til landsins, þá þurfi að bjóða góð úrræði í menntamálum og annarri þjónustu við fjölskyldur þeirra. Staða og horfur í efnahagsmálum hefðu líklega aldrei verið eins góðar og vel horfði með losun hafta sem skipti atvinnulífið miklu máli. Verðbólgu- og vaxamál væru hins vegar áhyggjuefni.

Að sögn Almars Guðmundssonar framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins eru fundir sem þessir mikilvægir. Málefnin sem samtökin eru að kynna fyrir ráðuneytunum fá á sig persónulegan blæ og stjórnvöld geta öðlast dýpri skilning á tækifærum og hindrunum þeirra sem standa að uppbyggingu í iðnaðinum. „Málefni er varða samkeppnishæfni landsins eru fyrirferðamikil um þessar mundir. Við erum í miklum samskiptum við fyrirtækin í landinu sem og stjórnvöld, sem er leið sem við teljum vænlegasta til umbóta. Því sameiginlega eigum við mikið undir að hér séu kjöraðstæður fyrir fyrirtæki, hvort heldur sem þau eru á nýsköpunarstigi, millistigi eða stórfyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni.“

Á fundinum var bent á mikilvægi þess að vinna hratt að framkvæmd umbóta til að ná árangri og standast samkeppni við önnur lönd. Til þess væri góð samvinna stjórnvalda og atvinnulífs nauðsynleg. Almar segir einn af mikilvægum þáttum í uppbyggingu fyrirtækja hérlendis, vera framboð af erlendum sérfræðingum. „Ísland er í 70. sæti samkvæmt samkeppnisskýrslu WEF (The Global Competitiveness Report 2014-2015) að laða erlenda sérfræðinga til landsins, sem gefur vísbendingu um að við getum gert betur í þeim málaflokki. Hins vegar erum við í 26.  sæti á heimsmælikvarða þegar kemur að því að halda í erlendu sérfræðingana okkar, sem er jákvætt.“ 

Björn Örvar einn af frumkvöðlum ORF líftækni kynnti í upphafi fundar þróunarsögu fyrirtækisins og sagði stuðning Tækniþróunarsjóðs og endurgreiðslu þróunarkostnaðar skipt miklu í uppbyggingarferlinu. Verulegt hlutafé hefði þó þurft að koma til sem erfitt væri að afla á Íslandi. Orf lenti því eins og mörg önnur nýsköpunarfyrirtæki í  svokallaðri „nýsköpunargjá“ sem tafði uppbyggingarstarfið. Björn sagði skattalega hvata fyrir fjárfesta og starfsmenn við kaup á hlutafé hefðu getað flýtt fyrir ef slíkt hefði verið í boði á Íslandi eins og í mörgum samkeppnislöndum okkar.

Framtíðarsýn til ársins 2020

  • Ísland tækni- og hugverkaland

Forsendur þess árangur náist eru aðlaðandi efnahags- og viðskiptaumhverfi, traustir innviðir og nýsköpunarsamfélag, hvetjandi og skilvirkt fjármálaumhverfi, menntun, mannauður og öflugt markaðsstarf. Til þess að skapa þessar forsendur hefur greinin skilgreint 10 áhersluverkefni:

  • Hækkun og útvíkkun viðmiða við endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar

  • Laða erlenda sérfræðinga til Íslands

  • Krónufyrirtæki

  • Hækkun framlaga til samkeppnissjóða, s.s. Tækniþróunarsjóðs og Kvikmyndasjóðs

  • Skattalegir hvatar fyrir engla og einstaklinga til hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum

  • Umbætur í skattlagningu umbreytanlegra skuldabréfa

  • Umbætur í viðskipta- og skattaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja

  • Auknar heimildir til fjárfestingar í óskráðum félögum

  • Tækni- og tölvumenntun á öllum skólastigum

  • Háhraðanet um allt land

Unnið er að því að útfæra áhersluverkefnin nánar og tengja við aðgerðaáætlun iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Í haust verður efnt til Tækni- og hugverkþings í þeim tilgangi að skapa samstöðu um framkvæmd.