Fréttasafn9. maí 2023 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Tækifærin eru í iðnaði að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, AGS, birti í dag álit sendinefndar sinnar eftir fundi hennar með íslenskum stjórnvöldum og öðrum hagaðilum síðustu tvær vikur. Fram kemur í álitinu að kerfisumbætur ættu að greiða fyrir aukinni fjölbreytni í efnahagslífi ásamt því að styrkja samkeppnisstöðu og sjálfbærni hefðbundinna útflutningsgreina. Litið fram á veg mun útflutningur knýja hagvöxt hér á landi. Segir nefndin að vaxtartækifærin séu í lyfjaiðnaði og öðrum óhefðbundnum iðnaði ásamt markaðssetningu tæknilausna í loftslagsmálum. Segir nefndin að setja þurfi aukinn þunga í stefnumótun til að ná metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum Íslands.

Álit nefndarinnar rýmar vel við það sem fram kom á Iðnþingi SI fyrr á þessu ári þar sem grunnur aukinnar verðmætasköpunar felist í auknum útflutningi á vörum og þjónustu. Tvær af fjórum stoðum útflutnings íslenska hagkerfisins heyra til iðnaðar, þ.e. hugverkaiðnaður og orkusækinn iðnaður. Horfur eru á enn meiri vexti í útflutningi iðnaðar á næstu árum. Á Iðnþingi kom fram að ef rétt er að málum staðið gæti hagvöxtur orðið meiri en opinberar spár gera nú ráð fyrir vegna þessa og að stærstu tækifærin til vaxtar íslenska hagkerfisins til framtíðar liggi í iðnaði.

SI hafa um árabil hvatt stjórnvöld til að efla samkeppnishæfni Íslands. Það er gert með umbótum í menntamálum, hvötum til fjárfestinga í nýsköpun, innviðauppbyggingu, og einföldu og skilvirku regluverki og starfsumhverfi fyrirtækja. Tryggja þarf aukið framboð af grænni orku til fullra orkuskipta og uppbyggingar í iðnaði um land allt, fjölga þarf iðn-, tækni- og verkmenntuðu starfsfólki, greiða götu framkvæmda og setja kraft í innviðafjárfestingu, ekki síst í samgöngum, húsnæði og orkuskiptum.

Á vef IMF er hægt að nálgast álitið á ensku.

Á vef Seðlabankans er hægt að nálgast álitið á íslensku.