Fréttasafn18. des. 2014 Iðnaður og hugverk

Tækifærin í samstarfi matvæla- og tæknifyrirtækja

Samtök iðnaðarins stóðu nýlega fyrir fundi um samstarf matvælaframleiðenda og tæknifyrirtækja. Undanfarnar vikur hafa SI í samstarfi við Sjávarklasann unnið að því að kortleggja og greina tækifæri sem felast í samstarfi milli matvælaframleiðenda og fyrirtækja sem veita margvíslega tækniþjónustu. Á fundinum var kynnt skýrsla sem unnin var af sérfræðingum Sjávarklasans undir forystu Þórs Sigfússonar og rætt um möguleika til að þróa slíkt samstarf frekar með það fyrir augunum að efla nýsköpun og auka framleiðni í báðum greinum.

Veruleiki íslenskra framleiðslufyrirtækja er að því leyti frábrugðinn því sem víðast gerist að þau framleiða mjög fjölbreyttar vörur en í tiltölulega litlu magni. Þau þurfa því að geta framleitt margar vörutegundir með sama tækjabúnaði sem þýðir að búnaðurinn verður að vera sveigjanlegur og fljótlegt að skipta á milli vörutegunda. Hér á landi eru margir færir tæknimenn sem eru útsjónarsamir við að finna slíkar lausnir. Rekstraröryggi skiptir miklu máli fyrir íslensk fyrirtæki og því mikilvægt að hafa aðgang að tækniþjónustu hér innan lands. Í skýrslunni eru gefin  dæmi um hvernig slíkt samstarf er til hagsbóta fyrir báða aðila.

Samstarf um sérlausnir

Innan sjávarútvegsins þekkjast þess mörg dæmi að tæknifyrirtæki hafi þróað búnað sinn og lausnir í áralöngu samstarfi við útgerðina og fiskvinnsluna. Sjávarútvegurinn hefur þannig getið af sér fjölmörg stærri tæknifyrirtæki. Ýmis tæknifyrirtæki sem hófu að bjóða sjávarútvegi þjónustu sína fyrir 10 til 25 árum hafa smám saman verið að efla samstarf við aðra geira matvælaiðnaðarins. Á þessu sviði hefur átt sér stað umtalsverð þekkingartilfærsla frá einni matvælagrein yfir á aðrar. Marel er besta dæmið um þetta hérlendis.

Fleiri áhugaverð dæmi um samstarf tæknifyrirtækja og matvælaiðnaðar sem getið hafa af sér íslenskar sérlausnir, og kunna að eiga sér framtíð á alþjóðamarkaði eru til dæmis Norður & Co. sem framleiðir Norðursalt í verksmiðju á Reykhólum. Verksmiðja var hönnuð af stofnendum fyrirtækisins í samvinnu við Verkís og Héðin sem annaðist smíði hennar. Verksmiðjan nýtir heitt affallsvatn frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum og byggir á aldagamalli sjálfbærri aðferð við vinnsluna. Vörur fyrirtækisins hafa hlotið mikla athygli og eru seldar til ýmissa landa. Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur markvisst unnið að auknu samstarfi við innlend tæknifyrirtæki og fjárfestir fyrir um 400 milljónir króna á ári í ýmsum búnaði. Í vélstjórahópi Ölgerðarinnar eru sex manns sem allir hafa umtalsverða og víðtæka þekkingu af þeim kerfum sem eru notuð í verksmiðjum fyrirtækisins. Þótt viðhald hafi verið stór hluti af starfsemi teymisins er það mjög vakandi yfir nýjungum og á í nánu samstarfi við margs konar tæknifyrirtæki um þróun og hönnun lausna.

Fleiri frásagnir af árangursríku samstarfi tækni- og matvælafyrirtækja og tækifærum sem liggja í slíku samstarfi er að finna í skýrslunni.

Greinargóð umfjöllun var í Fréttablaðinu í gær.

Skýrsluna má nálgast hér.