Tækni- og hugverkaþing - Aðlaðandi Ísland fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun
Tækni- og hugverkaþing verður haldið á morgun föstudaginn 4. desember undir kjörorðinu Aðlaðandi Ísland fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun.
Tækni- og hugverkaþing verður haldið á morgun föstudaginn 4. desember undir kjörorðinu Aðlaðandi Ísland fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun.
Á þinginu, sem verður haldið í sjötta sinn, verður fjallað um framtíðarsýn tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi til ársins 2020 og hvernig stjórnvöld og atvinnulíf geta unnið saman á markvissan hátt við að hraða nauðsynlegum umbótum í starfsumhverfi greinarinnar.
Meðal ræðumanna á þinginu verða Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra og greina frá mikilvægum aðgerðum til að bæta starfsumhverfi tækni- og hugverkagreina.
Í viðtali við Almar Guðmundsson sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að útflutningstekjur tækni- og hugverkageirans hafa aukist úr 160 milljörðum í 290 milljarða á árunum 2009-2015. Frá því í fyrra hafa útflutningstekjur upplýsingatæknigeirans tvöfaldast.
„Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu stór þessi geiri er. Ef spár okkar rætast mun þessi geiri taka fram úr sjávarútveginum hvað varðar útflutningstekjur. Þá verður tækni- og hugverkageirinn með rétt ríflega 24% af útflutningstekjum og sjávarútvegurinn með rétt tæp 24%. Ferðaþjónustan er ennþá stærst, en þessi geiri hefur verið að sækja mjög á.“
Almar segir að þessar tölur sýni þann árangur sem náðst hafi þótt starfsumhverfi fyrirtækjanna hafi ekki verið eins og best verði á kosið. „Við verðum hins vegar að vera meðvituð um að við eigum í harðri samkeppni við nágrannalöndin um markaði, fólk og fyrirtæki. Þessi fyrirtæki eiga mun auðveldara með að flytja sig um set ef aðstæður eru mun betri annars staðar. Má sem dæmi nefna það hvernig tekið er á erlendum sérfræðingum sem koma tímabundið til starfa hjá fyrirtækjum. Þetta er þekking sem við þurfum mikið á að halda, en skattkerfið er fyrirtækjunum ekki hliðholt hvað þetta varðar. Þessar aðstæður eru meðal þess sem við viljum ræða á Tækni- og hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins sem fer fram á morgun.