Fréttasafn



20. okt. 2016 Iðnaður og hugverk

Tækninýjungar draga úr matarsóun

Íslenskur matvælaiðnaður hefur lengi verið vettvangur markvissrar nýsköpunar. Ferlar og tækni eru meðal þeirra þátta sem tekið hafa miklum framförum undanfarin ár. Nýbirt gögn frá Hagstofunni sýna að 60% matvælafyrirtækja lögðu stund á nýsköpun sem höfðu umhverfislegan ávinning fyrir fyrirtækin sjálf, árin 2012-2014. Ennfremur að 25% fyrirtækja stunduðu á sama tíma nýsköpun sem hafði umhverfislegan ávinning fyrir neytendur. Minni efnis- og vatnsnotkun, minni orkunotkun og aukin endurvinnsla eru meðal þeirra þátta sem skipta hér mestu.

Tækni nýtt til að draga úr matarsóun

Matarsóun er mikið í umræðunni um þessar mundir. Alþjóða matvælastofnunin (FAO) birti nýverið tölur um matarsóun. Tölurnar sýna að um helmingur sóunar á matvælum verður við ræktun og frumvinnslu, restin fellur til við matvælavinnslu, geymslu, dreifingu og hjá neytendum. Á Vesturlöndum fellur stærri hluti sóunar til hjá neytendum. Í þróunarríkjum er þessu öfugt farið og sóunin verður einkum í framleiðslu og sölu. Það er tæknivæðing á Vesturlöndum sem skýrir þennan mun, mun sem liggur m.a. í góðum geymslum, pakkningum og öruggum flutningum.

Tækniframfarir og stýring munu bæta árangur enn frekar. Sjálfvirkni í framleiðslu fer vaxandi. Sem dæmi má nefna nýja tækni, tölvusjón og búnað, sem dregur bein úr fiskholdi í stað þess að skera þau burt. Mikið magn af fiskholdi endar þannig á diski neytenda í stað þess að fara með afskurði og beinum í verðminni vinnslu eða förgun. En tækniframfarir hafa einnig orðið til að bæta nýtingu á afskurði. Þannig hafa orðið til lækningavörur, sérhæfðir plástrar úr fiskroði og forvarnarlyf við kvefi þar sem virka efnið er fiskensím. Ennfremur lífdíselolía úr afgangsolíu og fitu og skinnavörur unnar úr fiskroði. Allt eru þetta afurðir árangursríks samstarfs matvælafyrirtækja og hátæknifyrirtækja.

Grillað á kvöldin

Versta birtingarmynd matvælasóunar er líklega þegar fullunninni vöru er fargað. Bætt framleiðslu- og birgðastýring er lykill að því að minnka það magn sem er umfram eftirspurn neytenda. Hugbúnaður sem aðstoðar framleiðendur við þetta er nú orðinn nokkuð algengur. Hugbúnaðurinn tekur mið af alls kyns breytum, eins og t.d. íþróttaviðburði og veðurspár en grillbakkar og ís seljast best á sólardögum eins og við vitum. Önnur spennandi tækninýjung, sem mun draga úr sóun, felst í strikamerkjum sem innihalda upplýsingar um síðasta söludag. Upplýsingarnar má nota við verðlagningu og afslátt af vörum sem eiga stuttan líftíma. Þessi tækni getur verið ávinningur fyrir bæði seljendur og neytendur til að nýta vörur sem eru á leið úr hillunum.

Umbúðir minnka matarsóun

Matvæli eiga í sérstöku sambandi við umbúðir. Pakkningar eiga stóran þátt í að minnka matarsóun. Með réttum umbúðum má lengja líftíma, verja vöruna og halda í ferskleika. Umbúðir sem virðast óþarfar fyrir neytandann, því hann þarf að koma vöru frá verslun og heim, geta verið nauðsynlegar til að koma vörunni heilu og höldnu alla leið frá framleiðslu. Framleiðendur eru vakandi fyrir því að minnka magn umbúða eins og kostur er og velja endurvinnanleg efni. Löng hefð er fyrir margnota flutningsumbúðum í matvælageiranum sem er i eðli sínu umhverfisvæn. Grindur í mjólkurkælum eru dæmi um þetta og grænmetiskassar eru að komast aftur í tísku. Þetta er mögulegt þegar framleiðslan er nálægt neytendum og ein af ástæðum þess að það er á margan hátt umhverfislega hagkvæmt að versla það sem framleitt er í heimabyggð. Dæmin sýna að neytendur geta treyst því að framleiðendur hérlendis leggja mikla áherslu á umhverfismál og umbætur á öllum sviðum. Margt hefur vissulega áunnist en með breyttu viðhorfi bæði neytenda og framleiðenda og tækniframförum skapast spennandi tækifæri til enn frekari framfara. 

Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs SI.

Greinin birtist í blaðinu Matur er mannsins megin.