Fréttasafn



9. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Tækniþróunarsjóður gegnir lykilhlutverki

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, segir í ViðskiptaMogga að Tækniþróunarsjóður gegni lykilhlutverki í því að veita góðum hugmyndum brautargengi við sín fyrstu skref, enda sé þar vandlega farið yfir umsóknir og þeim gefin einkunn eftir gæðum og líkum á því að bera ávöxt.  Því til stuðnings nefnir hún að mörg af okkar „flottustu“ nýsköpunarfyrirtækjum reki upphaf sitt til þeirra tímamóta að hljóta styrk úr sjóðnum. Hún segir í fréttinni hættu á því að góðar hugmyndir dagi uppi og verði að engu ef styrkja njóti ekki við. Fjármögnun frá bönkum sé í flestum tilvikum ekki raunhæf, t.d. vegna skorts á veðum og of mikillar áhættu beggja aðila. Tækniþróunarsjóður sé því eina vonin fyrir marga að hleypa heimdraganum með sínar hugmyndir og verkefni. 

Æskilegt að fjölga styrkjum

Í fréttinni kemur fram að 15% af heildarfjölda umsókna í Tækniþróunarsjóð hafi hlotið styrk í ár og lengra komnum fyrirtækjum gefist kostur á stuðningslánum vegna tekjumissis af völdum faraldursins. Þegar Sigríður er spurð um fjölda styrkja segir hún að æskilegt væri að auka þá verulega en eingöngu um 1 ⁄3 af umsóknum með fyrstu einkunn hafi fengið styrk og því sé einsýnt að framtíð margra efnileg verkefna lendi í óvissu. 

Leið til að skapa verðmæti, fjölga störfum og auka fjölbreytni

Sigríður segir sjóðinn vera óumdeilt tæki til að koma fjármunum í umferð og augljósa leið til að skapa verðmæti, fjölga störfum og auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Stjórnvöld hafi því í höndum kjörið skammtímaúrræði með því að auka fjárframlög til sjóðsins verulega, sérstaklega í núverandi tíð, þar sem atvinnuleysi vex hröðum skrefum. Hún bendir á að framlög til sjóðsins séu ekki mikil í heildarsamhenginu, þegar tugir milljarða fari í aðrar aðgerðir í tengslum við faraldurinn, sem mörg hver séu varnir og viðbrögð gegn atvinnuleysi. Markmiðið sé þó alltaf að styðja nýsköpun til lengri tíma og tryggja að úr verði stærri fyrirtæki sem geti fjármagnað sig án styrkja.

Auka aðgengi að áhættufjármagni

Þá kemur fram í frétt ViðskiptaMoggans að í júní hafi verið sett lög um Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóð, sem hafi það hlutverk að fjárfesta í svokölluðum vísissjóðum. Sigríður segir það mikilvægt skref að ríkið komi að því að auka aðgengi að áhættufjármagni, sem hafi verið ein stærsta hindrunin í því að fyrirtæki nái að vaxa, en sá markaður sé mjög óþroskaður í dag. 

Í fréttinni kemur jafnframt fram að samkvæmt upplýsingum frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti hafi fjármögnun sjóðsins verið tryggð í fjármálaáætlun og komi 850 milljónir til afgreiðslu strax í ár, á næsta ári hafa 1.500 milljónir verið eyrnamerktar og 2.000 milljónir á ári á árunum 2022-24. 

Morgunblaðið, 9. september 2020.

VidskiptaMoggi-09-09-2020