Fréttasafn11. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Tafir á byggingarframkvæmdum geta kostað milljarða

Í nýjasta tölublaði ViðskiptaMoggans er fjallað um þann kostnað sem getur orðið vegna tafa á byggingarframkvæmdum en kostnaður við nýjar íbúðir getur aukist um tugi þúsunda á fermetra og getur sá kostnaður samanlagt numið milljónum á hverja íbúð. 
Baldur Arnarson, blaðamaður, vitnar þar í greiningu Vilhjálms Hilmarssonar, hagfræðings hjá Samtökum iðnaðarins og sérfræðings í greiningum, sem segir að tafir á byggingarframkvæmdum í stjórnsýslu sveitarfélaga skapi aukakostnað fyrir samfélagið og að sá kostnaður birtist meðal annars í hærra fasteignaverði. Umframkostnaði verði óumflýjanlega að hluta velt út í verðlag íbúða. Tafir í afgreiðslu sveitarfélaga komi þannig niður á almenningi og ýti undir húsnæðiseklu á markaðnum. 

Tafir leiða til aukins fjármagnskostnaðar húsbyggjanda

Tekið er dæmi af kostnaði af eins árs töfum á byggingu 125 fermetra íbúðar í 4-5 hæða fjölbýlishúsi í úthverfi á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að hækkun fasteignaverðs vegna slíkra tafa geti orðið allt að 50 þúsund krónur á fermetra vegna aukins fjármagnskostnaðar húsbyggjanda. Það leiði aftur til þess að afborganir af 40 ára jafngreiðsluláni hækki um allt að 15-20 þúsund krónur á mánuði. Sú hækkun sé háð samkeppni á markaði og lánaskilmálum. Þess er getið að byggingarkostnaðurinn sé metinn með reiknilíkani byggingarkostnaðar frá verkfræðistofunni Hannarr og út frá markaðsverði húsnæðis í úthverfi samkvæmt gögnum Þjóðskrár. 
Í  fréttinni segir jafnframt að Samtök iðnaðarins áætli að byggja þurfi alls 45 þúsund íbúðir fram til 2040 til að mæta eftirspurn. Sé kostnaðurinn yfirfærður á þann fjölda þýða 11 mánaða tafir í afgreiðslu skipulagsyfirvalda um 180 milljarða uppsafnaðan aukakostnað yfir 20 ár, á verðlagi 2017, en þar er tekið mið af þeim töfum sem Eykt varð fyrir vegna bygginga á Höfðatorgi og vísað er til hægagangs í afgreiðslu skipulagsyfirvalda hjá borginni. 

Ýtir undir verðbólgu

Þá er vitnað til Vilhjálms sem segir tafirnar í opinbera kerfinu hafi leitt til hærra íbúðaverðs og aukinnar verðbólgu og að verðhækkanir dragi úr kaupgetu fólks. „Hækkanirnar koma verst við yngra fólk en kaupmáttur þeirra með tilliti til útborgunar í húsnæði hefur minnkað mjög undanfarin ár. Því miður bendir fátt til að þetta sé að breytast. Tafir í kerfinu hafa aukist ár frá ári þrátt fyrir fögur loforð stjórnmálamanna um hið gagnstæða.“ 

ViðskiptaMogginn, 10. maí 2018.