Það þarf meira fjármagn í innviði landsins
„Sveitarfélögin eru að fjárfesta minna og framkvæmdir Vegagerðarinnar eru í uppnámi en Samgönguáætlun var ekki afgreidd á Alþingi sem skapar óvissu. Það er mjög slæmt að hið opinbera skuli ekki nota verklegar framkvæmdir til sveiflujöfnunar,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins. Hann segir að afleiðingin sé sú að innviðaverktakar séu stöðugt að þenja út sína starfsemi þegar vel ári hjá hinu opinbera, en dragi síðan saman seglin hratt þegar verr ári. Bent hafi verið á að verulega kostnaðarsamt sé að vera til skiptis að segja upp fólki eða ráða og þjálfa til starfa. Samfellu skorti í verkefni, sem sé ekki nýtt af nálinni, en með meiri aga hjá hinu opinbera gæti staða mála verið betri. „Ég held að skilaboðin séu nokkuð skýr. Það þarf meira fjármagn í innviði landsins og það þarf að forgangsraða málum í þeirra þágu. Við eigum mikið undir innviðum hér á landi, ekki síst samgönguinnviðum, vegna þess að við búum í strjálbýlu landi og atvinnuvegir eins og ferðaþjónusta og sjávarútvegur eiga mjög mikið undir því að vegakerfið sé traust og öruggt.“
Fjárfesta í innviðum sem skapi mestan þjóðhagslegan ávinning
Þá nefnir Sigurður í Morgunblaðinu að innheimtar skatttekjur ríkisins af ökutækjum séu mun hærri en fjárveitingar til þjóðvegakerfisins sem sé algjörlega óásættanlegt fyrir samfélagið og þarfir landsmanna. Með tímanum aukist innviðaskuldin. Þá séu forsendur forgangsröðunar verkefna í samgöngumálum oft og tíðum óljósar, ekki síst í vegakerfinu, og leggja þurfi áherslu á fjárfestingu í innviðum sem skapi mestan þjóðhagslegan ávinning. „Það er einföld leið fyrir stjórnvöld að spara fjármuni þar og nýta þá í annað en á endanum kemur að skuldadögum og komið er að þeim fyrir löngu.“
Umræða um innviði mun leika stórt hlutverk í aðdraganda næstu kosninga
Sigurður segir jafnframt í Morgunblaðinu að í innviðaskýrslum SI undanfarin ár komi fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf nemi á bilinu 150 til 200 milljörðum króna í vegakerfinu og fari síst minnkandi. „Við sjáum að fjármunir ríkisins til viðhalds vegakerfisins eru nú um 13 milljarðar, en þörfin er um 18 milljarðar á ári. Á meðan þetta er viðvarandi þá segir það sig sjálft að ástand vegakerfisins versnar með hverju árinu sem líður.“ Sigurður nefnir einnig að þarna sé verið að spara aurinn en kasta krónunni, því með tímanum verði kostnaðarsamara að bæta úr. „Það kæmi mér ekki á óvart að umræða um þessi mál muni leika stórt hlutverk í aðdraganda næstu kosninga. Ég held að stjórnmálaflokkarnir verði að svara því vel í hvaða ástandi þeir vilja að innviðir landsins séu.“
Morgunblaðið, 23. júlí 2024.