Fréttasafn10. apr. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Þak yfir höfuðið á ekki að vera draumur fólks

„Það hefur vantað íbúðir og þetta ástand skapaðist vegna þess að það voru of fáar íbúðir byggðar síðasta áratuginn eða svo. Niðurstaðan er sú að íbúðaverðið hefur hækkað umfram launaþróun, bæði fasteignaverð og leiguverð íbúða. Þetta hefur verið ein helsta rót undiröldu á vinnumarkaði enda á þak yfir höfuðið ekki að vera draumur fólks heldur raunveruleiki, enda er húsnæði grunnþörf, “ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali um húsnæðismarkaðinn í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

Vantar fleiri hagkvæmar íbúðir

Sigurður segir grunnvandann vera að fleiri hagkvæmar íbúðir vanti á markaðinn, fyrir yngra fólk, fyrir tekjulága og eignalága auk þess sem þörf sé á minna húsnæði fyrir þá sem eldri eru og vilja minnka við sig. Um óvissuna sem hefur vofað yfir hagkerfinu segir hann að hafi komið til vegna stöðunnar á vinnumarkaði og afdrifs einnar stærstu útflutningsgreinarinnar, ferðaþjónustu, og þar að auki sé aflabrestur í loðnu. „Allt þetta hefur lagst á eitt þannig að bæði fólk og fyrirtæki hafa haldið að sér höndum þegar kemur að ákvörðunum og fjárfestingum. Verð á íbúðum heldur áfram að hækka á meðan að verð á nýjum íbúðum lækkar á milli mánaða, þetta endurspeglar það að grunnvandinn er sá að það vantar fleiri hagkvæmar íbúðir.“

Flækjustig í byggingarmálum meira á Íslandi en annars staðar

„Flækjustig hér á landi er meira en annars staðar í byggingarmálum. Ferlið er flóknara en á Norðurlöndunum til dæmis. Hér þarf sautján skref, sem sagt leyfi og eftirlit og slíkt, en í Skandinavíu þarf sjö til ellefu. Það er meira flækjustig sem auðvitað tefur og kostar. Það er sama ferli hér á landi við að byggja íbúðarhús og Hörpu eða hátæknisjúkrahús en erlendis. Á Norðurlöndum er gerður greinamunur þar á og reynt að einfalda flækjustigið,“ segir Sigurður í Morgunútvarpinu.

Hann telur að grunnvandinn sé skipulag sveitarfélaga. „Sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hvað er byggt og hvar.“ Hann bindur vonir við að hagkvæmar íbúðir sem vantar á markaðinn verði byggðar núna og þess sjáist ýmis merki. „En það er sérstök staða að fyrir einn stærsta markaðinn, húsnæðismarkaðinn, fasteignir eru yfirleitt stærstu kaup sem fólk ræðst í á lífsleiðinni, að það hafi þurft að setja á laggirnar sérstakan átakshóp á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og sveitarfélaga til þess að greina vandann og leggja til lausnir. Þetta er kannski ekki í fyrsta sinn sem slíkur hópur er stofnaður en ég vonast til þess að allir séu sammála um að nú verði að fylgja þessum tillögum eftir og láta þær verða að veruleika. Við viljum auðvitað ekki standa í þeim sporum eftir fimm eða tíu ár að þurfa að stofna nýjan átakshóp af þvi að okkur bar ekki gæfa til þess að bæta úr núna.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.