Fréttasafn13. maí 2020 Almennar fréttir Hugverk Nýsköpun

Þakka stjórnvöldum fyrir stórt skref í þágu nýsköpunar

Samtök sprotafyrirtækja, SSP, þakka stjórnvöldum fyrir að taka stórt skref í þágu nýsköpunar með fjölbreyttum aðgerðum sem samþykktar hafa verið á Alþingi og þann stuðning sem þingið sýndi, þvert á flokka. Þetta kemur fram í grein Írisar Ólafsdóttur, formanns SSP og framkvæmdastjóra Kúlu 3D, sem birt er á Vísi en endurgreiðsla vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar hækkaði úr 20% í 35% sem hún segir að sé mikilvægur hvati fyrir nýsköpunarfyrirtæki af öllum stærðum til að leggja stund á rannsóknir og þróun. Þessi hækkun á endurgreiðslu skipti miklu máli fyrir sprotafyrirtæki, það sé þó algjör forsenda að þau geti fjármagnað sig núna til að fá endurgreiðsluna í október 2021.

Fjárstreymisvandi eitt helsta vandamál sprotafyrirtækja

Íris segir að eitt helsta vandamál sprotafyrirtækja sé fjárstreymisvandi. „Þau geta ekki farið út í banka og tekið lán fyrir framleiðslunni, vita ekki nákvæmlega hvenær næsta styrkgreiðsla berst eða síðasti fjárfestirinn tekur ákvörðun um hvort hann verði með í fjármögnuninni. Sprotafyrirtækin sem voru að fjármagna sig þegar COVID-19 skall á, eða ætluðu að gera það síðar á árinu, standa nú frammi fyrir mikilli óvissu varðandi áframhaldandi rekstur þar sem fjárfestar halda að sér höndum. Þau hafa ekki getað nýtt sér þau neyðarúrræði sem býðst hefðbundnari fyrirtækjum og standa frammi fyrir miklum lausafjárvanda. Fari þessi fyrirtæki í þrot er það stórslys, milljarða verðmæti í formi styrkja, fjárfestinga og fórnarkostnaði frumkvöðla yrðu að engu. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld leggi áherslu á skjótvirkar aðgerðir, fjármunir þurfa að komast í umferð sem allra fyrst til þess að koma í veg fyrir að frumkvöðlar, sem hefðu getað unnið að því að skapa fleiri störf, endi í sívaxandi hópi atvinnulausra.“

Sprotafyrirtæki fái endurgreiðslur fyrr og sjóðir verði efldir

Þá kemur fram í greininni að SSP hafi lagt áherslu á að sprotafyrirtæki geti á þessu ári fengið endurgreiðslu vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrr en venja sé og að sjóðir sem séu nú þegar til, verði efldir. Þetta snúist nefnilega um hraða. Sjóðasjóðurinn Kría lofi góðu, svo og stuðnings-Kría, en mikilvægt sé að vanda til verka. Því mæli SSP með að brugðist verði strax við með því að nýta þá innviði sem séu til staðar og hafa sannað sig. Stjórn SSP hvetja stjórnvöld til að leggja áherslu á eftirfarandi aðgerðir í þágu sprotafyrirtækja:

  1. Efna loforð um að flýta endurgreiðslu skatts vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sem allra fyrst, það getur verið dýrkeypt að bíða fram á haust.
  2. Efla sjóði Rannís enn frekar. Tækniþróunarsjóður er líflind svo margra þróunarverkefna og hefur skilað mögnuðum árangri, þarna verða nýju störfin til. Hvað með að styrkja öll verkefni sem fá A einkunn?
  3. Auka fjárfestingar ríkisins í nýsköpun gegnum Nýsköpunarsjóð Atvinnulífsins og síðar gegnum Kríu.
  4. Tryggja rétt sprotafyrirtækja til stuðningsúrræða ríkisstjórnarinnar en sprotafyrirtæki eru um margt eðlisólík þeim fyrirtækjum sem sótt geta stuðning.

Á vef Vísis er hægt að lesa grein Írisar í heild sinni.