Fréttasafn



10. des. 2015 Orka og umhverfi

Þar sem eru breytingar þar eru tækifæri

Miklar væntingar eru gerðar til loftslagsráðstefnunnar COP21 í París. Þar verður þess freistað að ná samkomulagi um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda segir Almar Guðmundsson framkvæmdarstjóri Samtaka iðnaðarins í grein sem birtist í Fréttablaðinu þriðjudaginn 8. desember. Þegar markmiðin hafa verið sett þarf að setja af stað vinnu til að ná þeim. Það verður ekki gert án aðkomu fyrirtækja. Þau leggja til tæknilausnir sem breyta framleiðsluferlum og koma með nýjar vistvænni lausnir. Það er mikilvægt að samkomulag náist í París. Skýr umgjörð um málaflokkinn eykur líkur á að fyrirtæki leggi í þá vegferð að fjárfesta í loftslagsvænni tækni.

Í sóknaráætlun um loftslagsmál leggja stjórnvöld áherslu á sjávarútveg og samgöngur. Fjölmörg íslensk iðnfyrirtæki bjóða lausnir sem minnka orkunotkun í sjávarútvegi með betri tækjabúnaði, orkustýringu og bættri nýtingu hráefnis. Einnig framleiða íslensk fyrirtæki eldsneyti fyrir samgöngur og skip. Heimurinn kallar eftir tæknilausnum sem minnka losun gróðurhúsalofttegunda og við getum gripið tækifærið. Þannig stuðlum við að minni losun, ekki bara heima fyrir heldur einnig á alþjóðavettvangi. Stuðningur stjórnvalda styrkir uppbyggingu á sterkri atvinnugrein, grænni tækni. Samtök iðnaðarins fagna því áherslu stjórnvalda á þessu sviði.

Stóriðja er sá einstaki geiri sem losar mest hérlendis. Losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með loftslagsheimildir. Þannig sitja fyrirtækin við sama borð og önnur stórfyrirtæki í Evrópu og lúta þeim ströngu reglum sem þar gilda um vöktun losunar og kaup og sölu á losunarheimildum. Stóriðjan hefur náð gríðarlega góðum árangri og losun á hvert tonn af áli sem er framleitt hefur minnkað um rúm 70% frá árinu 1990 sem er viðmiðunarár Kyoto samkomulagsins. Heildarlosunin hefur samt aukist talsvert samhliða aukinni framleiðslu. Orkunotkun á hvert unnið tonn af áli hefur hins vegar minnkað. Fyrirtækin leggja metnað í að ná eins góðum árangri og hægt er enda ná íslensku álfyrirtækin einna besta árangri sem þekkist í heiminum.

Atvinnulífið er stór hluti vandans því þar er stór uppspretta gróðurhúsalofttegunda. En gleymum því ekki að atvinnulífið er hreyfiafl sem getur komið með lausnirnar. Þar sem eru breytingar, þar eru tækifæri.