Fréttasafn



21. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Þarf að reisa nýja stoð sem byggir á hugviti og nýsköpun

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var með samantekt í lok Iðnþings 2020 sem var í beinni útsendingu á föstudaginn síðastliðinn. Sigurður sagði meðal annars að í upphafi ársins hafi verið óveðursský yfir Íslandi, kjólnun hagkerfisins hafi verið staðreynd og fyllilega óljóst hver yrði drifkraftur vaxtar þegar helstu útflutningagreinar landsins væru komnar að þolmörkum en þær byggi á nýtingu náttúruauðlinda á einn eða annan hátt. „Þetta var áður en kórónuveiran breiddi úr sér yfir heimsbyggðina með tilheyrandi búhnykkjum á heimsbúskapinn og er Ísland þar engin undantekning. Það hriktir í tveimur af þremur stoðum hagkerfisins, ferðaþjónustu og orkusæknum iðnaði. Það yrði landsmönnum mikið áfall ef þessar tvær greinar myndu veikjast á sama tíma.“

Hann sagði því ekki eingöngu þurfa viðspyrnu til að rétta úr kútnum heldur þurfi að reisa nýja stoð – fjórðu stoðina sem byggi á hugviti og nýsköpun – til að tryggja vöxt næstu ár og áratugina.

Sigurður vékk einnig að því að landsmenn hafi notið góðs af öflugum iðnaði. „Iðnaður veitti viðspyrnu í síðustu kreppu og getur sannarlega gert það aftur og nú á kröftugri hátt en áður með tilkomu fjórðu stoðarinnar.“ Þá kom fram í máli hans að frumkvöðlar og fyrirtæki væru tilbúin. „Í tímariti um nýsköpun sem SI gaf út í sumar er ljósi varpað á þá grósku sem ríkir um þessar mundir, jafnt í sprotafyrirtækjum sem og í rótgrónum iðnfyrirtækjum. Það eitt og sér dugir ekki til.“

Sigurður sagði að stjórnvöld þyrftu að vísa veginn og þar nefndi hann tvennt; annars vegar atvinnustefnu, almenna umgjörð atvinnulífs og umbætur sem miði að því að bæta rekstrarskilyrði allra fyrirtækja. Hann sagði slíka stefnu miða að umbótum á fjórum sviðum sem væri menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Hins vegar sagði hann að tækifærin væru sótt. „Því miður hefur það verið raunin í gegnum tíðina að við höfum verið svo upptekin af tilfallandi búhnykkjum að við höfum ekki mátt vera að því að sækja tækifærin og fjárfesta í framtíðinni. Við höfum hikað og við höfum þar af leiðandi tapað.“

Þá kom Sigurður inn á fjármagnið sem þurfi að fylgja með til vaxtar. „Það er áhugavert að sjá hvernig þær glæsilegu fyrirmyndir sem við eigum í alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Marel og Össur hafa byggst upp hér á landi, ekki síst vegna þess að fjárfestar höfðu trú á stjórnendum fyrirtækjanna og þeirra áformum. Þannig gátu fyrirtækin sótt út á nýja markaði og breikkað vöruúrval og styrkt sína stöðu. Þetta hefur ekki gerst síðasta áratuginn eða svo heldur hafa efnileg fyrirtæki verið seld úr landi.“ Hann spurði hvers vegna það skyldi vera? „Svarið þekki ég ekki en myndi gjarnan vilja vita það.“

Í niðurlagi sínu sagði Sigurður að með því að skipta um kúrs gætum við sannarlega byggt upp fjórðu stoðina. „Þannig verða til þau 60 þúsund störf sem við teljum að skapa þurfi næstu þrjá áratugina. Þannig verða til verðmæti til að standa undir þeim lífskjörum sem við þekkjum og sækjumst eftir. Þó Iðnþingi sé nú að ljúka þá er verkefnið rétt að byrja.“

Si_idnthing_2020-65Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. 

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á upptöku frá samantekt Sigurðar: