Fréttasafn



1. feb. 2018 Almennar fréttir Menntun

Þarf hugarfarsbreytingu til að fleiri sæki í iðnnám

Í leiðara Fréttablaðsins í dag er fjallað um að hugarfarsbreyting þurfi að eiga sér stað í samfélaginu til að fleiri sæki í iðnnám enda er viðvarandi skortur á iðnmenntuðu starfsfólki. Það er Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður, sem skrifar leiðarann með fyrirsögninni Iðnnám er töff. Hann segir að í Noregi sé hlutfall þeirra sem ljúka námi úr iðn- og starfsgreinum í kringum 40 prósent en hér á landi sé það 12-14 prósent. „Það hefur lengi verið lítil aðsókn í iðngreinar hér á landi. Það er ein af af ástæðum þess að það er stöðugur skortur á smiðum, pípurum, múrurum og rafvirkjum, svo aðeins örfá dæmi séu nefnd. Árið 2007 fóru einungis 14 prósent íslenskra nemenda í starfsnám að loknum grunnskóla á sama tíma og hlutfallið var 50 prósent í ríkjum Evrópusambandsins.“

Útrýma verður þjóðsögu að aðeins háskólanám skili efnahagslegri velsæld

Þorbjörn segir að ljóst sé að lítil aðsókn í iðn- og verknám hér á landi skýrist að einhverju leyti af hugarfari.

„Á Íslandi er snobbað fyrir háskólanámi og það virðist vera útbreidd skoðun að háskólanám sé ávísun á velgengni. Mennt er máttur og háskólamenntun kemur yfirleitt alltaf að góðum notum þótt fólk starfi ekki beinlínis við það sem það menntaði sig til í háskóla. Hins vegar verður að útrýma þeirri þjóðsögu í samfélaginu að efnahagsleg velsæld og velgengni í veraldlegum skilningi sé aðeins möguleg að undangengnu háskólanámi. Í mörgum tilvikum er því einmitt þveröfugt farið.“

Foreldrar eigi samtöl við börn sín um kosti ólíkra námsgreina

Í niðurlagi leiðarans segir Þorbjörn að ljóst sé að það verði erfitt að útrýma hugarfari sem hefur fest rætur hjá þjóðinni yfir margra ára tímabil. „Jafnvel þótt það byggist á vanþekkingu. Foreldrar þurfa að eiga samtöl við börn sín inni á heimilum landsins um kosti ólíkra námsgreina. Skynsamir og vel upplýstir foreldrar letja ekki börn sín frá því að mennta sig í iðngreinum. Heiðarlegir lögfræðingar munu líka fyrstir manna viðurkenna að húsasmiðir eru miklu líklegri til að skapa verðmæti fyrir samfélagið en þeir sjálfir.“

Á Vísi er hægt að lesa leiðarann í heild sinni.