Þarf meira fjármagn í uppbyggingu og viðhald vega
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, var meðal frummælenda og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í pallborðsumræðum á fundi Landsbankans sem haldinn var í samstarfi við SI um fjármögnun og uppbyggingu innviða. Aðrir þátttakendur í dagskrá fundarins voru Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Teitur Samuelsen, forstjóri Austureyjar- og Sandeyjarganganna í Færeyjum, Kashif Khan hjá Metlife Investment Management í Bretlandi, Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas Íslands, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og Ólöf Skaftadóttir, ráðgjafi og hlaðvarpsstjórnandi, sem stýrði fundinum og umræðum.
Alvarleg staða innviða vegna langvarandi fjárskorts
Í máli Ingólfs kom meðal annars fram að innviðir séu lífæðar samfélagsins og því þurfi að sinna bæði uppbyggingu og viðhaldi þess vel. Hann vitnaði til skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi. Hann sagði markmið útgáfunnar vera að stuðla að umbótum á innviðum þannig að þeir uppfylli þarfir atvinnulífs og landsmanna. Ingólfur sagði Samtök iðnaðarins vilja að innviðir hér á landi séu samkeppnishæfir við það sem best gerist í öðrum löndum því með slíkum innviðum tryggjum við sem best aukna verðmætasköpun og bætt lífsgæði landsmanna
Ingólfur greindi frá því að endurstofnvirði vegakerfisins væri 1.480 milljarðar króna sem samanstæði af 26.000 km vegakerfi, 1.200 brúm og 14 jarðgöngum. Hann sagði við vera fámenna þjóð í stóru landi sem tengjum byggðir landsins með vegum og að vegakerfið væri ein af verðmætustu eignum þjóðarinnar. En að þjóðvegakerfið hafi ekki vaxið í takti við aukin umsvif í hagkerfinu síðustu ár þar sem afleiðingin væri auknar tafir og meiri slysahætta sem hvorutveggja kostar þjóðfélagið mikið. Hann sagði fjárfestingar væru ekki nægjanlegar á þessu sviði og að ekki hafi tekist að viðhalda kerfinu nægjanlega. Það sé því að safnast fyrir innviðaskuld bæði í nýfjárfestingum og viðhaldi og að skuldasöfnun á þessu sviði væri mjög dýr fyrir okkar samfélag. Ingólfur sagði að við værum á rauðu ljósi og þurfum að finna leiðir til að gera þetta betur, þ.e. að veita þurfi meira fjármagni í uppbyggingu og viðhald. Staðan væri alvarleg vegna langvarandi fjárskorts og að fara ætti með það sem innheimt er af bifreiðum í uppbyggingu og viðhald vega. Þá nefnid hann einnig að með auknum fyrirsjáanleika í opinberum framkvæmdum væri hægt að lækka kostnað. Stjórnendur verktakafyrirtækja sem eru í opinberum framkvæmdum segja að fyrirtæki þeirra gæti boðið nær 11% lægra í opinberar framkvæmdir ef fyrirsjáanleiki væri til staðar.
Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs frá fundinum.
Viljann skortir ekki en finna þarf réttu leiðina
Á vef Landsbankans er að finna umfjöllun um fundinn. Þar kemur fram að í umræðunum hafi Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sagt skipta máli að það væri ljóst að stjórnvöld hefðu vilja og áhuga til að skoða fjárfestingar og samvinnu við innviðauppbyggingu. Ríkið gæti enda ekki staðið eitt í þeim framkvæmdum sem nauðsynlegt væri að ráðast í. Það væri greinilegt að fjárfestar væru áhugasamir, bæði innlendir og erlendir. „Viljann skortir sannarlega ekki en það þarf að finna réttu leiðina,“ sagði Sigurður. Það væri skýr pólitískur vilji til að ráðast í innviðaframkvæmdir. Það væri ánægjulegt að sjá hvernig viðhorf almennings til veggjalda til dæmis hefði verið að þróast. „Stóra málið er að byrja.“
Á Facebook SI er hægt að nálgast fleiri myndir.
Myndir/BIG
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Teitur Samuelsen, forstjóri Austureyjar- og Sandeyjarganganna í Færeyjum.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Teitur Samuelsen, forstjóri Austureyjar- og Sandeyjarganganna í Færeyjum, og Kashif Khan hjá Metlife Investment Management í Bretlandi.
Ólöf Skaftadóttir, ráðgjafi og hlaðvarpsstjórnandi.