Fréttasafn



23. mar. 2018 Almennar fréttir Menntun

Þarf nýja hugsun í menntakerfið til að mæta breyttum tímum

Menntakerfið gegnir þeim mikilvæga tilgangi að undirbúa komandi kynslóðir undir störf framtíðarinnar. Það velkist enginn í vafa um að menntakerfið er mikilvægt fyrir gangverk samfélagsins en það er langt frá því að vera eyland heldur þarf það að búa einstaklinga undir störf í samfélaginu. Það hefur verið kallað eftir því í nokkurn tíma að breytingu þurfi að gera á menntakerfinu til að mæta breyttum tímum og nýjum áherslum. Það er ekki nauðsynleg forsenda fyrir breytingarnar að setja meira fjármagn í menntakerfið. Miklu frekar þarf nýja hugsun til að leysa vandann. Þetta kom meðal annars fram í erindi Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, á málþingi skólamálaráðs Kennarasambands Íslands og kennara í list- og verkgreinum sem fram fór í gær. 

Guðrún sagði jafnframt að það virtist sem skólakerfið væri að bregðast þeim krökkum sem hafa áhuga á list- og verknámi frá unga aldri en á leiðinni í gegnum grunnskólakerfið væri markvisst dregið úr slíkum áhuga og athafnagleðin minnkaði. Hún sagði að það þyrfti í auknum mæli að ýta undir fjölbreytileikann og halda í athafnagleðina hjá börnunum, líka í grunnskólanum. 

Líkt og ég sagði í upphafi þá snýst þetta ekki um aukið fjármagn heldur nýjar áherslur og skýrari stefnu í menntamálum þar sem horft er til framtíðar. Ýtum undir athafnagleðina og sköpunargleðina hjá börnum í gegnum allt skólakerfið og eflum list- og verkgreinar til að mæta kröfum nýrra kynslóða.

Mikilvægasta færnin fólgin í lausnamiðaðri hugsun og sköpun

Guðrún sagði að fjórðu iðnbyltingunni sem þegar væri hafin fylgi miklar breytingar á tækni og störfum og að rætt hafi verið um að 60% þeirra starfa sem grunnskólabörn muni vinna við í framtíðinni þekkist ekki í dag. Á árinu 2020 verði mikilvægasta færnin fólgin í lausnamiðaðri og gagnrýnni hugsun og sköpun. Hún sagði að nú þegar væri orðið heilmikið misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. „Það hefur að undanförnu reynst erfitt fyrir fyrirtæki að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og mikilvægt að fjölga þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins. Í könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og önnur atvinnugreinasamtök á síðasta ári kemur skýrt fram að fyrirtæki sem sjá fram á fjölgun stöðugilda á komandi árum segjast helst reikna með fjölgun starfsmanna sem lokið hafa iðn- eða starfsnámi. Eftirspurn eftir starfsfólki með þessa menntun hefur aukist og á síðustu misserum hefur það reynst fyrirtækjum hvað erfiðast að manna störf tengd þessum greinum. Þá nefna fyrirtækin að erfitt reynist að fá til starfa fólk með tæknimenntun.“

Þarf nýja nálgun og umbætur í menntakerfinu

Guðrún vitnaði til nýrrar skýrslu sem Samtök iðnaðarins gáfu út með heitinu Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina en þar kemur fram að Íslendingar eru í 8. sæti innan OECD þegar kemur að framlögum til menntamála, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. „Við verjum um fimmtungi meira til málaflokksins en meðaltal innan 22 landa Evrópu. Ef þessi framlög eru skoðuð nánar með hliðsjón af skólastigum kemur í ljós að á Íslandi er mun meira veitt til grunnskólanáms en háskólanáms í samanburði við hin löndin. Ísland er þannig í 1. sæti af 35 innan OECD þegar kemur að fjárveitingu til grunnskóla, 13. sæti í flokki framhaldsskóla og 25. sæti af 35 þegar kemur að fjárveitingu til háskóla. Ef leiðrétt er fyrir fjölda nemenda kemur þá munurinn enn skýrar í ljós.“

Þá sagði Guðrún að breytingar á menntakerfinu væru nauðsynlegar til að mæta þeirri öru þróun sem þegar sjást merki um í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. „Það blasir við að slíkum breytingum verður ekki mætt nema með nýrri nálgun og umbótum á kerfinu eins og við þekkjum það í dag.“