Fréttasafn22. sep. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Þarf stórátak strax með skýrri pólitískri leiðsögn

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, um samanburð kjaratölfræðinefndar á kórónuveirukreppunni og tveimur öðrum kreppum sem leiðir í ljós að aðlögunin sé nú mildari og segist Ingólfur taka undir niðurstöðu nefndarinnar varðandi stoðir hagvaxtar. 

Ingólfur segir í fréttinni að lengi hafi legið fyrir að renna þyrfti fjölbreyttari stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. „Og það hefur verið ákall okkar hjá Samtökum iðnaðarins að gert verði stórátak í þessum málum með skýrri pólitískri leiðsögn. Við höfum tiltölulega skamman tíma og við þurfum að gera þetta strax.“ Hann  segir að ólíkt síðustu niðursveiflu fyrir ríflega áratug, þegar fullkomið aftakaveður hafi verið í efnahagslegu tilliti, hafi nú almennt tekist að viðhalda góðri efnahagslegri stöðu flestra heimila og margra fyrirtækja. Hann segir að kreppan bitni t.d. fyrst og fremst á heimilum sem finna fyrir atvinnuleysi en minna á öðrum og að þessi kreppa muni líklega skrá sig í sögubækurnar í hagstjórnarlegu tilliti. 

Tækjum hagstjórnar beitt með betri árangri nú

Ingólfur segir að tækjum hagstjórnar hafi verið beitt með betri árangri en áður. „Staða peningamála og opinberra fjármála var góð fyrir áfallið sem hefur hjálpað til við að beita þeim tækjum með virkari hætti en áður til að milda niðursveifluna og skapa viðspyrnu fyrir hagkerfið. Nauðsynlegt er hins vegar að gera enn betur með áherslu á þá þætti sem skapa samkeppnishæfni fyrirtækja. Með aukinni verðmætasköpun þeirra skapast störf. Áherslan verður þar að vera á umbætur í menntamálum, uppbyggingu innviða, bætta umgjörð nýsköpunar og betri starfsskilyrði fyrirtækja sem gefa þeim forskot í alþjóðlegri samkeppni. Við þurfum að hvetja til verðmætasköpunar á nýjum grunni.“

Samdráttur hraðari í landsframleiðslu og verðbólga lægri 

Í fréttinni kemur fram að í samanburði kjaratölfræðinefndar sé haft til hliðsjónar tímabilið 1988-1995, sem einkenndist af litlum hagvexti, viðleitni til að ná niður verðbólgu og umbreytingu í hagkerfinu og svo bankakreppuna árið 2008. Nefndin birti þróun sex lykilstærða í þessum kreppum og niðurstöðurnar eru meðal annars þær að samdráttur landsframleiðslu er hraðari í yfirstandandi kreppu en í hinum kreppunum. Hins vegar sé verðbólgan nú miklu lægri og kaupmáttur launa, á mælikvarða launavísitölu, á uppleið. 

Morgunblaðið, 22. september 2020.

mbl.is, 22. september 2020.

RÚV, 22. september 2020.

Morgunbladid-22-09-2020