Fréttasafn18. jan. 2022 Almennar fréttir Mannvirki

Þarf umframframboð af lóðum til að samkeppni sé virk

Til þess að samkeppni á byggingamarkaði sé virk verður að vera umframframboð af lóðum og er markaðurinn best til þess fallinn að skynsamlega sé byggt og þörfum íbúðakaupenda mætt. Þetta segir Vignir S. Halldórsson, byggingaverktaki og stjórnarmaður í SI, í grein sinni í áramótablaði Frjálsrar verslunar sem birt er á vef Viðskiptablaðsins.

Vignir segir að einnig sé stöðugt rekstrarumhverfi nauðsynlegt, en óstöðugleiki eins og undanfarið hafi ríkt geti sett áætlanagerð úr skorðum. Þá nefnir hann að umræða um fasteignamarkaðinn og vænta þróun fasteignaverðs hafi verið einsleit, enda einkum byggt á áliti sérfræðinga sem rýni í Excel skjöl. Hann spyr hvernig væri nú að heyra líka í iðnaðarmanninum sem sé að byggja fyrir fólk og fyrirtæki, eða fólk sem sé að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. 

Skylda sveitarfélaga að tryggja nægjanlegt framboð byggingarlóða

Þá segir Vignir í grein sinni að ein meginskylda sveitarfélaga sé að tryggja nægjanlegt framboð byggingalóða, bæði fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði. Því miður sé það svo að ekki hafi öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sinnt þessari skyldu sinni með þeim afleiðingum að verð á fasteignum hafi rokið upp úr öllu valdi og láti nærri að hækkun íbúðaverðs á svæðinu frá hausti 2020 til 2021 sé um 17%. Hann segir að flestir sjái það í hendi sér að slík hækkun geri íbúðakaupendum, einkum fyrstu kaupendum, gríðarlega erfitt fyrir enda sé hækkun íbúðaverðs langt umfram launaþróun, að ekki sé talað um þessa síðustu og verstu tíma þegar kórónuveirukreppan hafi sett strik í heimilisbókhald fjölda landsmanna.

Reynt að breiða yfir þá staðreynd að íbúðum í byggingum fækkar um þriðjung í Reykjavík

Í grein sinni spyr Vignir hvað valdi þessum hækkunum. Hann segir að svarið við þeirri spurningu sé ekki einhlítt en mjög stór áhrifaþáttur sé framboð af byggingarlóðum eða öllu heldur skortur á lóðum vegna minnkandi framboðs, einkum í Reykjavík. Hann segir að það sé alkunna að íbúðum í byggingu í Reykjavík hafi fækkað um nær þriðjung á síðustu tveimur árum, en í nóvembermánuði sl. hafi Samtök iðnaðarins upplýst um að 1.900 íbúðir væru á byggingarstigi í borginni, þ.e. 30% færri en 2019. Vignir segir að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar með borgarstjórann í broddi fylkingar hafi reynt að breiða yfir þessa staðreynd með margvíslegum blekkingum, eins og t.a.m. þeirri að bankarnir hafi kippt að sér höndum í lánveitingum til íbúðakaupa. Þá segir Vignir að bankastjórar bæði Íslandsbanka og Landsbanka hafi vísað þessum fullyrðingum til föðurhúsanna og spyr hvort Dagur B. Eggertsson hafi þar verið ber að ósannindum.

Heimatilbúinn skortur á byggingarlóðum þýðir hærri fasteignagjöld

Vignir nefnir fleira en skort á lóðum sem valdi hækkunum fasteignaverðs. Þar megi líka nefna þá pólitík borgaryfirvalda að þétta byggð, þ.e.a.s. að byggja á grænum svæðum í íbúðahverfum sem nýtt hafa verið til útivistar og brjóta ekkert nýtt land. Hann segir að það liggi í hlutarins eðli að slíkar íbúðir séu mun dýrari en íbúðir byggðar á óbyggðum svæðum í nýjum hverfum. Einnig nefnir hann þá áráttu borgaryfirvalda að vilja þétta byggð í námunda við ætlaða akstursleið svokallaðrar borgarlínu sem auki enn á kostnaðinn. Óljóst sé þó um áhuga fólks á að velja sér slíkan ferðamáta, enda þurfi langflestir að hafa bíl til umráða og þá ekki síst barnafólk til að skutla börnum borgarhluta á milli í dagvist eða tómstundir. Þessi stefna sé á engan hátt barnvæn, þó því sé haldið fram. Vignir segir að leitt hafi verið í ljós að fjöldi fólks vilji búa í sérbýli í úthverfum og sækja grunnþjónustu í nærumhverfi sínu, en láti það nægja að heimsækja miðbæinn til hátíðabrigða. Það vilji ekki allir búa í þröngum íbúðum nærri miðbænum án bílastæða. Hann segir að þegar byggingaverktakar hafi bent á þessar staðreyndir sé gefið til kynna að þeir séu orsökin fyrir stórhækkuðu íbúðaverði. Sannleikurinn sé sá að þar beri borgaryfirvöld alla sök. Þá segir hann að ekki sé úr vegi að velta því fyrir sér hvort tilgangurinn með þessum heimatilbúna skorti á byggingalóðum sé tilkominn vegna þess að hærra húsnæðisverð þýðir hærri fasteignagjöld.

Af hverju er lóðum á lægra verði ekki úthlutað til almennra byggingaverktaka?

Þá kemur fram í grein Vignis að séreignastefnan þegar komi að íbúðarhúsnæði sé Íslendingum í blóð borin. Langflestir vilji eiga sína eigin íbúð fremur en að leigja, enda hafi það lengi verið keppikefli flests ungs fólks. Eigið húsnæði sé prýðileg leið til eignamyndunar og fasteign geti nýst sem lífeyrissjóður þegar komið sé á efri ár. „Ég get nefnt að ég byrjaði barnungur að safna mér fyrir íbúð og svo er um marga aðra. Stjórnmálamenn hafa skynjað þetta bæði fyrr og síðar og margt hefur verið reynt til þess að liðka fyrir fyrstu íbúðakaupum ungs fólks, þótt sumar þeirra aðgerða hafi, því miður, haft gagnstæð áhrif og leitt til hækkunar íbúðaverðs vegna röskunar markaðsaðstæðna.“ Vignir segir að undanfarið hafi verið töluvert í tísku að úthluta lóðum með afslætti til óhagnaðardrifinna félaga, til ráðstöfunar til jaðarhópa. Hann segir þetta líta vel út á pappírnum en hafa verði í huga að það vinni enginn í byggingariðnaði, frekar en öðrum greinum, án þess að hafa eitthvað út úr því. „Við getum þó vonast til þess að afslátturinn á lóðunum skili sér alla leið, en það er ekki sjálfgefið því samkeppnisforskotið sem gefið er getur leitt til þess að menn gæti ekki aðhalds í kostnaði. Spyrja má af hverju lóðum á lægra verði er ekki úthlutað til almennra byggingaverktaka með skuldbindingu um að þeir byggi hagkvæmt húsnæði fyrir þessa hópa?“ 

Viðskiptablaðið, 14. janúar 2022.