Fréttasafn



11. feb. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Þarf víðtækt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs

Græna iðnbyltingin ætti ekki að hafa minni áhrif en þær fyrri – en mögulega með breiðari hætti á flest svið þjóð- og atvinnulífsins. Hún er sú fyrsta sem beinlínis leiðir af ákvörðunum, markmiðum og aðgerðum stjórnvalda, en byggir með órjúfanlegum hætti á þeirri tækniþróun og framförum sem fyrri iðnbyltingar hafa fært okkur. Markmið íslenskra stjórnvalda eru skýr, Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir 2040 og verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050. Það er einmitt stjórnvaldanna að setja skýr markmið en atvinnulífsins að finna bestu lausnirnar og leiðina að markmiðunum. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Árna Sigurjónssonar, formanns SI, þegar Ári grænnar iðbyltingar var ýtt úr vör í starfsstöð Carbfix á Hellisheiði.

Árni sagði jafnframt í ávarpi sínu að til að ná settu marki þurfi víðtækt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs. Sér í lagi þurfa stjórnvöld að setja rétta umgjörð sem hvetji til þess að lausnirnar verði til og að þær verði nýttar með fjárfestingum. „Þetta er sterkt orð – bylting – og ekki vanþörf á, því miklar breytingar eru að eiga sér stað. Saga, áhrif og afleiðingar þeirra fjögurra iðnbyltinga sem mannkynið hefur gengið í gegnum allt frá miðri 18. öld til dagsins í dag er heillandi viðfangsefni, hvernig sem á það er litið. Stórstígar framfarir og nýsköpun eru einkennandi fyrir hvert þessara tímabila um sig. Allt frá vélvæðingu sem leiddi til verksmiðjurekstrar, innreið rafmagns og fjöldaframleiðslu á hvers kyns varningi og tækjum, tölvu- og upplýsingatæknibyltingin og loks sú iðnbylting sem hefur rutt sér til rúms á síðustu árum sem einkennist meðal annars af gervigreind, róbótatækni, sjálfkeyrandi bílum, Interneti hlutanna og sjálfvirknivæðingu sem mun valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum.“

Árni sagði Ísland hafa alla burði til að vera í fremstu röð í loftslagsmálum og grænum lausnum. „Okkar forskot byggir ekki síst á þeirri miklu reynslu og þekkingu sem Íslendingar hafa í því að búa til og nýta endurnýjanlega orku, og nú þegar vinna fjölmörg íslensk iðnfyrirtæki að lausnum sem stuðla að minni kolefnislosun. Okkar lóð eiga því að geta vegið þungt á vogarskálunum.“ Hann sagði Samtök iðnaðarins ætla að setja þessi mál í öndvegi allt þetta ár með ýmsum hætti, útgáfu, greiningum og fjölbreyttum viðburðum. „Raunar hafa Samtök iðnaðarins látið þessi mál sig miklu varða um alllanga hríð og sýndu frumkvæði með því að vera leiðandi við stofnun Grænvangs, samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um orkuþekkingu og grænar lausnir, sem ætlað er að hvetja til aðgerða innanlands og markaðssetja íslenskar lausnir erlendis og hjálpa þannig öðrum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum. Þá hefur orðið mikil viðhorfsbreyting meðal íslenskra fyrirtækja og við höfum fengið skýr skilaboð frá félagsmönnum okkar um að láta meira til okkar taka í þessum málum.“

Í niðurlagi ávarps síns sagði Árni að með ári grænnar iðnbyltingar vilji Samtök iðnaðarins hvetja til aðgerða þannig að Ísland geti sannarlega talist grænt, hvað sem nafninu líður, og verið svarið við lausn loftlagsvandans. „Megi árið verða okkur öllum árangursríkt og gefa tóninn fyrir íslensk afrek framtíðarinnar í loftslagsmálum.“

Si_hellisheidarvirkjun-4Árni Sigurjónsson, formaður SI.